Fréttir

Skýrsla um fátækt barna á Íslandi

4 mar. 2019

Ísland stendur hinum Norðurlöndunum að baki hvað varðar útgjöld til barnabóta, fæðingar- og foreldraorlofs og til daggæslu. Þetta kemur fram í skýrslunni Lífskjör og fátækt barna á Íslandi 2004-2016, sem unnin var fyrir Velferðarvaktina.

Á heildina litið eru lífskjör barna á Íslandi góð í samanburði við flest önnur Evrópulönd, engu að síður eru óleyst vandamál. Það brýnasta er að bæta lífskjör einstæðra foreldra og barna þeirra, en nærri fjögur af hverjum tíu börnum undir lágtekjumörkum eru börn einstæðra foreldra. Einnig þarf að huga að börnum öryrkja. Lífskjör barna versnuðu hlutfallslega meira en lífskjör eftirlaunaþega og öryrkja í kjölfar hrunsins. Það skýrist að mestu af lækkandi atvinnutekjum foreldra en félagslegar greiðslur eins og barnabætur, fæðingarorlofsgreiðslur og húsaleigubætur gerðu lítið til að draga úr áfallinu. Ef eitthvað er jók þróun barnabóta á vandann.
Fram kemur í skýrslunni að þróun hverskyns fjölskyldubóta hefur haft þau áhrif að dregið hefur verulega úr stuðningi við barnafjölskyldur með breytingum á upphæðum fæðingarorlofsins og aukinni lágtekjumiðun og minna örlæti barnabóta. Áhrifin voru þó ekki sérlega mikil sem skýrist af því að barnabótakerfið var fremur lágtekjumiðað, jafnvel fyrir hrun. Ekkert af framangreindu bendir til þess að það hafi verið sérstök áhersla á að vernda börn á Íslandi fyrir áhrifum kreppunnar né heldur að það hafi verið reynt að bæta lífskjör barna í gegnum tæki fjölskyldustefnunnar þegar hagur þjóðarbúsins fór að vænkast.

Í lok skýrslunnar setur höfundur fram fjórar tillögur um úrbætur. Að brúað verði umönnunarbilið milli fæðingarorlofs og dagvistunar, að auknar verði tilfærslur til einstæðra foreldra, bjóða ókeypis skólamáltíðir fyrir börn sem búa við fjárhagsþrengingar og niðurgreiðsla tómstundastarfs barna sem búa við fjárhagsþrengingar verði auknar.

Lesa má nánar um skýrsluna á Velferðavaktinni. Velferðavaktin var stofnuð að frumkvæði stjórnvalda árið 2009 til að fylgjast með afleiðingum efnahagshrunsins á heimilin í landinu. Að vaktinni standa aðilar vinnumarkaðarins, þar með talið BSRB, ráðuneyti, ríkisstofnanir og sveitarfélögin.
BSRB hefur beitt sér fyrir lengingu fæðingarorlofsins og því að umönnunarbilinu verði eytt. Hér getur þú kynnt þér skýrslu BSRB um dagvistunarúrræði.

Til baka