Símenntun
Sjúkraliðar skila inn símenntun rafrænt í gegnum mínar síður. Ef óskað er eftir mati á námi skal leggja fram máli sínu til rökstuðnings prófgögn/vottorð/staðfestingu um að hann hafi lokið námi/námskeiði með fullnægjandi hætti inn á mínum síðum.
- Stundafjöldi námskeiðs þarf að vera að lágmarki 3 kennslustundir.
- Símenntun er metin frá og með næstu mánaðamótum eftir að niðurstaða námsmats liggur fyrir. Sjúkraliðafélagið sendir námsmat sjúkraliða á launadeild viðeigandi atvinnurekanda þegar næsta þrepi/launaflokki er náð.
- Rétt er að benda á að fjölgun á námsmatsstundum leiðir ekki sjálfkrafa til launahækkunar en launasetning er á ábyrgð atvinnurekanda.
- Núverandi námsmat er alltaf aðgengilegt og hægt að sækja inn á mínum síðum. Ef óskað er eftir því að námsmat sé sent á nýjan atvinnurekanda er hægt að senda tölvupóst á slfi@slfi.is.
Hér má sjá lista yfir þrepa og launaflokkahækkanir stofnanna og sveitafélaga
Hér eru leiðbeiningar hvernig skila eigi inn námsgögnum
Hvað er metið:
Formleg menntun:
- Framhaldsskólamenntun: Áfangar umfram sjúkraliðanámið eru metnir. Viðbótarnám til mats á símenntunarstundum þarf að lágmarki að vera 30 feiningar. Viðbótareiningar á framhaldsskólastigi til mats á símenntunarstundum geta verið að hámarki 180 stundir.
- Háskólamenntun: Er metin ef hún nýtist sjúkraliðum í starfi. Lágmarkseiningafjöldi til mats eru 30 ECTS einingar og getur mat verið að hámarki 180 stundir.
Námskeið:
- Sérhæfð námskeið eða nám sem snýr að klínískri og almennri hjúkrun og umönnun.
- Sérhæfð námskeið eða nám sem snýr að tækjabúnaði velferðartækni og vinnuvernd.
- Námskeið eða nám sem snýr að gæðastjórnun, teymisstjórn, teymisvinnu, samstarfi og samskiptum.
- Námskeið eða nám sem snýr að upplýsingatækni, upplýsingafræði og skráningu gagna, skjalavörslu, tölvunámskeið, kennslufræði, handleiðslu og samtalstækni.
- Námskeið eða nám sem snýr að sjálfseflingu (td. Dale Carnegie), siðfræði, persónuvernd og þjónustu.
- Námskeið eða nám sem snýr að skipulagi og stjórnsýslu.
Hvað er ekki metið (ath listinn er ekki tæmandi):
- Sjúkraliðanámið
- Skyndihjálp
- Trúnaðarmannanámskeið
- Nám sem er á lægra hæfniþrepi en sjúkraliðinn í hæfniramma um íslenska menntun
- Námskeið sem eru styttri en 3 klst.
Framvegis er að hluta til í eigu Sjúkraliðafélags Íslands. Þar er boðið upp á námskeið sem eru sérsniðin að þörfum sjúkraliða. Námskeiðin eru flest starfstengd og metin til launa (telja til símenntunarstunda). Námskeiðin eru kennd bæði í staðnámi og fjarnámi.
Hér er hægt að skoða þau námskeið sem Framvegis býður upp á.
Almennt um símenntun:
Námsmati sjúkraliða er ætlað að tryggja að sjúkraliðar þekki skyldur sínar og virði siðareglur stéttarinnar, viðhaldi þekkingu sinni og faglegri færni og tileinki sér nýjungar er varða starfið. Þá er námsmatinu ætlað að vera hvatning fyrir sjúkraliða til að sækja sér nýrrar menntunar og viðhalda yfir starfsferilinn. Námsmatið skal einnig stuðla að frekari sérhæfingu í viðfangsefnum sjúkraliða í starfi s.s. í gæða- og umbótastarfi, nærhjúkrun, teymisvinnu og leiðsögn. Símenntun sjúkraliða er sömuleiðis góður undirbúningur fyrir frekara nám s.s. diplómanám á fagháskólastigi. Að meginstefnu skal miða við að nám sem metið er tengist starfi eða viðfangsefnum sjúkraliða í starfi. Skráning og varsla á námsmati símenntunar fer fram hjá Sjúkraliðafélagi Íslands. Litið er til hæfnikrafna starfa sem liggja til grundvallar starfsnámsbrautar sjúkraliðanáms við mat á símenntun sjúkraliða. Þá er einnig litið til lærdómsviðmiða fagháskólanáms fyrir starfandi sjúkraliða.
Fagnám til diplómaprófs
Háskólinn á Akureyri býður upp á fagnám til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða í öldrunar- og heimahjúkrun. Þetta er 60 ECTS eininga fagnám fyrir starfandi sjúkraliða á grunnstigi háskólanáms til diplómaprófs á mismunandi kjörsviðum. Náminu er dreift á fjögur misseri eða tvö ár og er því gert ráð fyrir að samhliða náminu séu nemendur í sjúkraliðastöðum innan öldrunar- og heimahjúkrunar.
Námið hefur það markmið að mennta sjúkraliða til leiðandi starfa innan heilbrigðisþjónustu með viðbótarnámi á grunnstigi háskólanáms í mismunandi sérhæfingu. Megin áherslur námsins eru að auka klíníska færni, styrkja fagmennsku sjúkraliða hvað varðar samskipti, fræðslu- og stjórnunarhæfni og víkka starfsmöguleika þeirra innan sem utan heilbrigðiskerfisins.
Kristín Þórarinsdóttir er brautarstjóri fagnáms til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða. Hægt er að senda henni fyrirspurn varðandi námið: kristin@unak.is