Sjúkraliðanám

Sjúkraliðanám er hagnýtt starfsnám ef þú hefur áhuga á að hugsa um annað fólk, ert góð/ur í mannlegum samskiptum og átt auðvelt með að sýna öðrum hlýju og nærgætni. Sjúkraliðanám hentar þér einnig ef þú hefur áhuga á mannslíkamanum, andlegri vellíðan fólks og heilsu almennt. Eins ef þú stefnir í frekara nám á heilbrigðisvísindasviði. 

Tilgangur námsins er að undirbúa nemendur undir krefjandi störf við hjúkrun, endurhæfingu og forvarnir bæði á heilbrigðisstofnunum og á heimilum fólks þar sem reynir mikið á samskiptafærni og siðferðisvitund starfsmanna. Í náminu er rík áhersla lögð á samvinnu við starfsfólk og stjórnendur í heilbrigðisþjónustu. Sjúkraliðanám getur verið góður grunnur fyrir frekara nám í heilbrigðisvísindum. Sjúkraliðanám er viðurkennt starfsnám og að því loknu getur nemandi sótt um löggildingu starfsheitis til Embættis landlæknis og öðlast þá réttindi til að starfa sem sjúkraliði á Íslandi. Starfsheitið sjúkraliði er lögverndað.

Sjúkraliðanám er 206 feininga nám með námslok á 3. hæfniþrepi. Námið skiptist í almennar greinar, heilbrigðisgreinar og nám í sérgreinum sjúkraliðabrautar.
Nám í sérgreinum sjúkraliðabrautar er bæði bóklegt og verklegt nám í skóla og starfsnám á heilbrigðisstofnunum. Sjúkraliðanám tekur að jafnaði 3 ár eða 6 annir.

Þeir skólar sem bjóða upp á sjúkraliðabraut eru m.a. þessir:


Sjúkraliðabrú

Sjúkraliðabrú er námsleið til starfsréttinda sjúkraliða. Hún er ætluð fólki sem óskar eftir að fá metna starfsreynslu og óformlegt nám á hjúkrunar‐ og umönnunarsviði til styttingar á námi á sjúkraliðabraut. Skilyrði til náms á sjúkraliðabrú eru að umsækjandi hafi náð tilteknum aldri, hafi umfangsmikla starfsreynslu við umönnun aldraðra, sjúkra eða fatlaðra og framvísi staðfestingu frá vinnuveitanda þar að lútandi. Auk þess þarf viðkomandi að hafa lokið starfstengdum námskeiðum á vegum stéttarfélaga, sveitarfélaga og/eða annarra aðila með það að markmiði að auka kunnáttu og færni til starfa á hjúkrunarsviði og er það nám metið til styttingar á sérnámi samkvæmt námskrá sjúkraliðabrautar.

  • Nánar um tilhögun á uppbyggingu námsins við Fjölbrautaskólann við Ármúla má lesa hérog við Fjölbrautaskólann í Breiðholti.

Launað starfsnám

Gert er ráð fyrir að á nematímanum geti sjúkraliðanemi verið aðildarfélagi hjá Sjúkraliðafélagi Íslands. Samkvæmt kjarasamningum félagsins er sjúkraliðanemi í verkþjálfun með laun í samræmi við launatöflur félagsins og viðsemjanda. Starf sjúkraliðanemans getur verið krefjandi bæði andlega og líkamlega, en það er líka gefandi og áhugavert. Nemalaun raðast í eftirfarandi launaflokka: 

  • Sambandi íslenskra sveitarfélaga, launafl.  205
  • Reykjavíkurborg, launafl.  235
  • Ríkisstofnanir, launafl.  09-0 til 11-0
  • Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, launafl.  09-0

       

Til baka