Reglur svæðisdeilda Sjúkraliðafélags Íslands

1.gr.: Heiti deildar og starfsvettvangur
Svæðisdeildir eru deildir innan Sjúkraliðafélags Íslands. Starfsvettvangur deildar og verkefni
er að þjónusta alla þá sem rétt hafa til að bera starfsheitið sjúkraliði og búa og/eða starfa á
starfssvæði viðkomandi deildar.

Nöfn deildanna eru:

 • Svæðisdeild höfuðborgarsvæðisins; Gullbringu og Kjósarsýsla,
  Bessastaðahreppur, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur,
  Mosfellsbær og Seltjarnarnes.
 • Suðurnesjadeild; vestan Straums, Garður, Grindavík,
  Reykjanesbær, Sandgerði og Vogar.
 • Vesturlandsdeild; frá Hvalfjarðarbotni að sunnan að
  Gljúfurá að norðan. (Sýslumörk Austur- og vestur Húnavatnssýslna)
 • Vestfjarðadeild;  frá og með Barðaströnd að Brú í Hrútafirði.
 • Norðurlandsdeild vestri; frá og með Gljúfurá að
  Siglufirði.
 • Norðurlandsdeild eystri; frá og með Siglufirði að og með
  Langanesi, (Að Norður Múlasýslu).
 • Austurlandsdeild; frá Langanesi (Norður Múlasýslu) að
  Höfn í Hornafirði.
 • Suðurlandsdeild; frá og með Höfn í Hornafirði að Hveragerði og Þorlákshöfn að
  Vestmannaeyjum frátöldum.
 • VestmannaeyjadeildLögheimili deildanna og varnarþing er í Reykjavík
  Félagssvæði Sjúkraliðafélags Íslands er allt landið

2. gr.: Réttur til aðildar að deild
Félagsmenn eru allir félagsmenn Sjúkraliðafélags Íslands sem búsettir eru á félagssvæði
deildarinnar.

3. gr.: Lög deildanna
Lög Sjúkraliðafélags Íslands eru lög deildanna og félagsmanna eftir því sem við á.

4. gr.: Hlutverk deildar
Hlutverk deildanna og markmið eru þau sem kveðið er á um í 2. kafla laga Sjúkraliðafélags
Íslands og ber deildinni og forustu hennar að vinna að framgangi þeirra stefnumiða á sínum
starfsvettvangi.
Með því:
– að vinna að því að samningar félagsins séu haldnir og réttindi félagsmanna í heiðri höfð.
– að reyna að leysa þau ágreiningsmál sem upp kunna að koma og bundin eru við
deildarmenn,
– að veita félagsstjórn Sjúkraliðafélags Íslands aðstoð við söfnun gagna og upplýsinga og við
annað sem hún kann að óska eftir,
– að við brautskráningu sjúkraliðanema, sé þeim afhentar heillaóskir félagsins og þeir boðnir
velkomnir til starfa,
– að efla gagnkvæman skilning og einingu meðal félagsmanna og annarra launamanna.
Jafnframt skulu deildirnar leitast við að halda uppi öflugu fræðslu og menningarstarfi innan
vébanda sinna.

5. gr.: Stjórnir deildanna
Stjórnir deildanna skulu kosnar á aðalfundi til tveggja ára.
Stjórnir deildanna skipa: formaður, fjórir meðstjórnendur og einn til vara.
Formaður skal kosinn sérstaklega.
Endurkjör stjórnarmanna er heimilt.
Kosning stjórnar skal fara fram árlega og kosnir tveir stjórnarmenn hverju sinni.
Þess skal gætt að í stjórn veljist að minstakosti einn ungliði undir 34 ára aldri.

6. gr.: Störf stjórnar
Stjórn deildar er tengiliður milli félaga deildarinnar og félagstjórnar Sjúkraliðafélags Íslands.
Formenn deildanna eru sjálfkjörnir í félagsstjórn Sjúkraliðafélags Íslands.
Formenn boða stjórnarfundi og aðra fundi deilda. Að loknu stjórnarkjöri skal formaður boða
til stjórnarfundar við fyrstu hentugleika. Á fundinum skiptir stjórnin með sér verkum og kýs
úr sínum hópi varaformann, gjaldkera og ritara. Stjórnir deilda geta skipað nefndir og
starfshópa til að vinna að einstökum málefnum fyrir viðkomandi deild, félagið og félagsmenn.

7. gr.: Fjármál
Stjórn hverar deildar skal gera fjárhagsáætlun og leggja fyrir aðalfund til samþykktar. Beiðni
um fjárframlag úr aðalsjóði Sjúkraliðafélags Íslands, samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun,
ásamt samþykktum reikningum síðasta árs og fylgiskjölum fyrra árs skal senda félagsstjórn
fyrir 1. febrúar til varðveislu.
Fjármunir sem einstakar deildir afla með sérgjöldum, söfnun eða á annan hátt skal ekki færa
sem tekjur í reikninga deildarinnar.
Við gerð fjárhagsáætlunar og reikningsskil deildanna skulu eftirtaldir útgjaldaliðir
áætlaðir/færðir sérstaklega:

 • Ferðakostnaður
 • Útgjöld vegna útlagðs kostnaðar stjórnarmanni
 • Kostnaður vegna stjórnarfunda
 • Prentun, frímerki, ljósritun o.fl.
 • Símakostnaður
 • Útgjöld vegna aðal- og félagsfunda
 • Annar kostnaður

8. gr.: Aðalfundir deildanna
Aðalfundir deildanna skulu haldnir árlega á tímabilinu september desember sbr. ákvæði 12.
gr. laga
Sjúkraliðafélags Íslands. Skýrslur deildanna skal senda félagsstjórn fyrir 1. febrúar ásamt
fjárhagsáætlun og fjárbeiðni, auk tillagna og greinargerða sem leggja á fyrir fulltrúaþing eða
félagsstjórn.
Til aðalfundar skal boða með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Fundurinn skal auglýstur á
tryggilegan hátt og þess getið í fundarboði ef fyrirhugaðar eru breytingar á reglum deildanna.
Ennfremur skal þess getið í fundarboði þegar formannskjör er, hverjir eru í kjöri.
Dagskrá aðalfundar:
1. Kosning fundarstjóra.
2. Skýrsla formanns um starfsemi deildarinnar.
3. Lagðir fram endurskoðaðir og áritaðir reikningar deildarinnar
4. Tillögur um breytingar á reglum félagsins.
5. Kosning formanns til tveggja ára.
6. Kosning stjórnar.
7. Kosning tveggja deildarkjörinna skoðunarmanna.
8. Kosning fulltrúa deildarinnar til setu á fulltrúaþingi Sjúkraliðafélags Íslands samkvæmt
ákvæðum 18. gr. laga félagsins.
9. Lögð fram tillaga að fjárhagsáætlun deildarinnar til samþykktar.
10. Önnur mál.

9. gr.: Fundir deilda
Fundi skal halda svo oft sem þurfa þykir. Fundi skal boða með minnst þriggja sólarhringa
fyrirvara, með auglýsingu eða á annan tryggilegan hátt.
Stjórn deildar er skylt að boða til fundar ef fimmtungur félagsmanna krefst þess og tilgreinir
fundarefni.

10. gr.: Kjaramál
Kjaramálanefnd skal starfa innan hverrar deildar. Hún skal annast undirbúning kröfugerðar,
vegna
kjarasamninga í samráði við kjaramálanefnd Sjúkraliðafélags Íslands.
Kjaramálanefnd skal skipuð 4 fulltrúum, auk formanns deildarinnar sem er sjálfkjörinn.
Kjörtímabil nefndarinnar er 2 ár, endurkjör er heimilt. Nefndin annast gerð kjarasamninga á
sínu félagssvæði í umboði kjaramálanefndar félagsins, sbr. ákvæði 4. tl. 5. mgr. 30. gr. laga
Sjúkraliðafélags Íslands.

11. gr.: Trúnaðarmenn
Trúnaðarmenn Sjúkraliðafélags Íslands starfa á svæði hverrar svæðisdeildar í umboði
félagsins, í samræmi við ákvæði 5. kafla laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra
starfsmanna
Stjórn svæðisdeildar skal sjá um kjör trúnaðarmanna á sínu starfssvæði og skal skipa 3ja
manna kjörstjórn á hvern vinnustað eða fyrir tiltekinn hóp vinnustaða sem annast framkvæmd
kosningarinnar. Stjórnin skal hafa skipað kjörstjórnir tímanlega fyrir 1. september á því ári
þegar kjósa á trúnaðarmann/menn. Kjósa skal trúnaðarmann og varatrúnaðarmann fyrir hvern
vinnustað sem hefur rétt til að hafa trúnaðarmann. Þeir sem kjósa skulu skrifa tvö nöfn á
kjörseðil sem kjörstjórn afhendir, þ.e. fyrst þann sem viðkomandi vill kjósa sem trúnaðarmann
og svo þann sem viðkomandi vill kjósa sem varatrúnaðarmann.
Kjörstjórn sér um talningu atkvæða og er öllum sem rétt áttu til að kjósa, heimilt að fylgjast
með talningu. Þeir teljast rétt kjörnir trúnaðarmenn og varatrúnaðarmenn sem flest atkvæði fá.
Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá hlutkesti úrslitum. Strax að kosningu lokinni skal kjörstjórn
á tilheyrandi eyðublaði tilkynna formanni eða framkvæmdastjóra SLFÍ og stjórn
svæðisdeildarinnar um niðurstöðu kosningarinnarHeimilt er félagsstjórn eða
framkvæmdastjórn (í umboði félagsstjórnar) SLFÍ að skipa trúnaðarmann án tilnefningar og
tilkynna það á tilheyrandi eyðublaði til vinnustaðarins hafi kosning ekki komið til
framkvæmda innan tilskilins frests. Tilkynna skal stjórn svæðisdeildar viðkomandi svæðis um
skipunina.
Stjórn deildar er skylt að halda fund með kjörnum trúnaðarmönnum a.m.k. einu sinni á ári.

12. gr.: Sé deild lögð niður
Komi til þess að deild leggist af skulu fjármunir sem í eigu hennar eru ganga til SLFÍ.

13. gr.: Breyting á reglum deildanna
Reglum þessum má aðeins breyta á fulltrúaþingi SLFÍ enda hafi tillögum um breytingar á
þeim verið sendar félagsstjórn fyrir 1. febrúar . Breytingar á reglunum öðlast ekki gildi fyrr en
þær hafa hlotið staðfestingu fulltrúaþings Sjúkraliðafélags Íslands, að fenginni umsögn
laganefndar félagsins.

Reglur fyrir svæðisdeildir Sjúkraliðafélags Íslands lagðar fram til umfjöllunar á
fulltrúaþingum SLFÍ
14. og 15. maí 2004, reglur fyrir svæðisdeildir Sjúkraliðafélags Íslands lagðar fram til
endurskoðunar og samþykktar þannig breyttar.
31. maí 2007, reglur fyrir svæðisdeildir Sjúkraliðafélags Íslands lagðar fram til endurskoðunar
og breytingar á fulltrúaþingi og samþykktar þannig breyttar.
10. maí 2012, á 21. Fulltrúaþingi SLFÍ, reglur fyrir svæðisdeildir Sjúkraliðafélags Íslands
lagðar fram til endurskoðunar samþykktar þannig breyttar.
12. maí 2017, á 26. Fullrúaþingi SLFÍ, reglur fyrir svæðisdeildir Sjúkraliðafélags Íslands
lagðar fram og samþykktar þannig breyttar.
10. september 2020, reglur fyrir svæðisdeildir Sjúkraliðafélags Íslands lagðar fram til
endurskoðunar á fulltrúaþingi og samþykktar þannig breyttar.

Til baka