Lög Sjúkraliðafélags Íslands
1. KAFLI – NAFN, LÖGHEIMILI OG VARNARÞING
1. gr.: Nafn, lögheimili og varnarþing
Félagið heitir Sjúkraliðafélag Íslands, skammstafað SLFÍ. Félagið er fag- og stéttarfélag sjúkraliða. Lögheimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík. Félagssvæði þess er allt landið.
2. KAFLI – MARKMIÐ OG VERKEFNI
2. gr.: Markmið félagsins og verkefni
Markmið Sjúkraliðafélags Íslands er að:
- standa vörð um hagsmuni félagsmanna, vernda réttindi þeirra og beita sér gegn hvers konarmisrétti í launagreiðslum og starfskjörum.
- annast gerð kjarasamninga fyrir félagsmenn, vinna að bættum kjörum þeirra og standa vörð um áunnin réttindi.
- upplýsa og þjálfa trúnaðarmenn félagsins.
- vinna að samstöðu félagsmanna og efla samheldni stéttarinnar m.a. með útgáfustarfsemi, fræðslufundum, skemmtunum og annarri félagsstarfsemi.
- stuðla að aukinni og bættri menntun félagsmanna.
- hvetja félagsmenn til að viðhalda hæfni sinni og auka þekkingu sína.
- hafa siðareglur stéttarinnar að leiðarljósi.
- gæta virðingar stéttarinnar og vera málsvari hennar.
- efla samvinnu og samstarf þeirra sem starfa við heilbrigðisþjónustu svo og annarra opinberra starfsmanna.
- hafa samvinnu við hliðstæð erlend samtök.
3. KAFLI – FÉLAGSAÐILD – ÚRSÖGN
3. gr.: Réttur til aðildar að félaginu
Sjúkraliðar sem lokið hafa námi við viðurkennda skóla, sem njóta viðurkenningar viðkomandi ráðuneytis, Embætti landlæknis og Sjúkraliðafélags Íslands. Einnig eiga rétt til aðildar að félaginu einstaklingar menntaðir í hjúkrun sem leggja má að jöfnu við sjúkraliðanám eða hluta af sjúkraliðanámi.
4. gr.: Innganga í félagið
Einstaklingur sem óskar aðildar að félaginu skal sanna stjórn félagsins réttindi sín með framlagningu leyfisbréfs útgefnu af Embætti landlæknis.
5. gr.: Fagfélagsaðild
Sjúkraliðar sem eiga aðild að öðru stéttarfélagi, skulu hafa rétt til fagaðildar að félaginu. Sjúkraliði sem sótt hefur um fagfélagsaðild greiðir sérstakt fagfélagsgjald árlega til félagsins sem ákveðið er á fulltrúaþingi.
6. gr.: Sjúkraliðanemar
Sjúkraliðanemum er heimilt að gerast aðilar að félaginu meðan á námi stendur. Nemar sem greiða félagsgjöld til félagsins af launum skulu njóta fyrirgreiðslu félagsins varðandi meðferð og túlkun kjarasamninga og réttindamál. Nemar hafa tillögu- og málfrelsi, án atkvæðisréttar um málefni félagsins.
7. gr.: Merki félagsins
Merki félagsins „blómgaður lífssproti er vex upp af tveimur hjörtum“ (stílfærð mynd af hjartatvíblöðku; Listera cordata). Merkið er eign félagsins.
8. gr.: Félagsnæla
Félagsnælan er til sölu á skrifstofu félagsins. Sjúkraliði greiðir kostnaðarverð nælunnar og er hún þar með eign hans. Við úrsögn eða brottvikningu úr félaginu, skal nælunni skilað til félagsins og er hún endurgreidd.
9. gr.: Úrsögn
Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og sendast skrifstofu félagsins. Telst viðkomandi genginn úr félaginu þremur mánuðum eftir að úrsögn barst enda sé hann skuldlaus við félagið. Þrátt fyrir úrsögn úr félaginu er einstaklingur skyldugur til að greiða gjald til félagsins meðan hann tekur laun og nýtur annarra kjarasamningsbundinna réttinda samkvæmt kjarasamningi SLFÍ.
10. gr.: Brottvikning úr félaginu
Allir sem aðild eiga að félaginu, eru skyldugir að hlýða lögum þess. Félagsstjórn getur vikið aðila úr félaginu hafi hann misnotað nafn félagsins, eða orðið sekur um meiriháttar brot er varpað gæti rýrð á starfsheiður stéttarinnar eða fyrir ítrekuð brot gegn lögum félagsins, samþykktum þess eða hagsmunum. Félagsmaður á rétt á að bera ákvörðun stjórnar um brottvikningu úr félaginu undir úrskurð fulltrúaþings. Einfaldur meirihluti ógildir fyrri ákvörðun stjórnar um brottvikningu.
4. KAFLI – SVÆÐISDEILDIR
11. gr.: Svæðisdeildir
Innan Sjúkraliðafélags Íslands eru starfandi sjálfstæðar svæðisdeildir sem skiptast að meginreglu eftir heilbrigðisumdæmum. Hver svæðisdeild kýs sér stjórn og fer að lögum félagsins og reglum svæðisdeilda. Nöfn og starfssvæði deildanna eru:
- Svæðisdeild Höfuðborgarsvæðisins.
- Svæðisdeild Suðurnesja.
- Svæðisdeild Vesturlands.
- Svæðisdeild Vestfjarða.
- Svæðisdeild Norðurlands vestra – frá og með Brú í Hrútafirði að Siglufirði.
- Svæðisdeild Norðurlands eystra – frá og með Siglufirði að og með Langanesi.
- Svæðisdeild Austurlands.
- Svæðisdeild Suðurlands að Vestmannaeyjum frátöldum.
- Svæðisdeild Vestmannaeyja.
5. KAFLI – SÉRDEILDIR
12. gr.: Deild sjúkraliða með sérnám
Deild sjúkraliða með sérnám starfar á landsvísu og vinnur að framgangi hjúkrunar og viðurkenningu á aukinni menntun sjúkraliða. Hún skal vera stjórn félagsins og nefndum til ráðgjafar. Deildin setur sér starfsreglur sem staðfestar eru af stjórn félagsins.
13. gr.: Lífeyrisdeild
Heimilt er að starfrækja innan félagsins lífeyrisdeild. Deildin starfar á landsvísu og fer að lögum félagsins. Deildin setur sér starfsreglur sem staðfestar eru af stjórn félagsins.
6. KAFLI – FULLTRÚAÞING OG HLUTVERK ÞESS
14. gr.: Fulltrúaþing
Fulltrúaþing fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Skal það haldið árlega á tímabilinu apríl – maí. Til fulltrúaþings skal boða með sannarlegum hætti a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Með fundarboðinu skulu fylgja dagskrá þingsins, reikningar félagsins fyrir liðið ár og tillögur sem verða lagðar fyrir þingið.
15. gr.: Fjöldi þingfulltrúa
Félagsstjórn Sjúkraliðafélags Íslands sendir stjórnum svæðisdeilda tilkynningu um fjölda fulltrúa á fulltrúaþing hverju sinni, á grundvelli félagatals næstliðinna áramóta. Fulltrúar skulu kosnir á aðalfundi svæðisdeildanna. Hver deild skal eiga einn fulltrúa. Þegar félagatal stendur á heilu hundraði fær deildin næsta fulltrúa sinn. Félagatal skal miða við áramót. Fulltrúar á þingi SLFÍ:
- Framkvæmdastjórn. Félagsstjórn. Formenn svæðisdeilda sem sæti eiga í félagsstjórn sitja fulltrúaþing án atkvæðisréttar, hafi þeir ekki verið kjörnir þingfulltrúar sinnar svæðisdeildar.
- Kjörnir fulltrúar deilda.
- Allar starfsnefndir félagsins skulu sitja fulltrúaþing, án atkvæðisréttar séu þeir ekki kjörnir fulltrúar.
- Fulltrúi deildar sjúkraliða með sérnám hefur málfrelsi og tillögurétt, án atkvæðisréttar.
- Fulltrúi lífeyrisdeildar á rétt til setu á fulltrúaþingi með málfrelsi og tillögurétt, án atkvæðisréttar.
- Félagsmenn hafa rétt til setu á fulltrúaþingi með málfrelsi og tillögurétt., án atkvæðisréttar.
16. gr.: Tillögur félagsmanna
Félagsmaður sem koma vill á framfæri tillögum, eða vekja athygli fulltrúaþings á málefnum, skal koma erindum sínum á framfæri við stjórn viðkomandi deildar fyrir lok desembermánaðar. Mál eða tillögur til fulltrúaþings þurfa að berast félagsstjórn fyrir 1. febrúar. Málefni eða tillögur sem ekki hafa borist á tilsettum tíma fyrir félagsstjórn, er heimilt að leggja fyrir þing, en til þess þarf samþykki ¾ þingfulltrúa. Málefni sem berast fulltrúaþingi með þessum hætti og teljast stefnumarkandi í meginatriðum fyrir félagið eða félagsmenn fá ekki fullnaðarafgreiðslu fyrr en á næsta fulltrúaþingi. Heimilt er félagsstjórn að boða til aukaþings ef málefni er svo brýnt að það þoli ekki að bíða næsta þings.
17. gr.: Lögmæti fulltrúaþings
Fulltrúaþing er lögmætt ef rétt er til þess boðað og a.m.k. 4/5 fulltrúa eru mættir.
18. gr.: Dagskrá fulltrúaþings
Mál sem taka skal fyrir á fulltrúaþingi eru:
- Þingsetning
- Nafnakall þingfulltrúa
- Kosning fundarstjóra og ritara,
- Skýrsla stjórnar.
- Reikningar félagsins og sjóða á vegum þess.
- Ákvörðun félagsgjalda.
- Fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár.
- Lagabreytingar.
- Starfsreglur fyrir sjóði og deildir félagsins.
- Formannskjöri lýst.
- Kosning til stjórnar. Kosið er í embætti varaformanns og tveggja fulltrúa auk, tveggja varamanna.
- Kosning fastanefnda samkvæmt lögum félagsins, þ.m.t. fulltrúa félagsins á þing og aðalfundi BSRB.
- Önnur mál.
7. KAFLI – STJÓRN FÉLAGSINS
19. gr.: Félagsstjórn
Félagsstjórn skipa, framkvæmdastjórnformenn svæðisdeilda eru sjálfkjörnir í félagsstjórn eða varaformaður viðkomandi deildar í forföllum formanns. Endurkjör stjórnarmanna er heimilt.
20. gr.: Hlutverk félagsstjórnar
Félagsstjórn hefur æðsta vald í málefnum félagsins á milli fulltrúaþinga og ber hverjum félaga að hlíta fyrirmælum hennar. Hún hefur rétt til að skjóta ágreiningsmálum sínum til næsta fulltrúaþings, sem fellir fullnaðarúrskurð í málinu. Verkefni félagsstjórnar eru m.a.:
- Koma fram sem málsvari félagsins.
- Gæta að fjárreiðum og eignum félagsins í samræmi við fyrirmæli laga og fjárhagsáætlana.
- Vinna að stefnumótun Sjúkraliðafélagsins og stuðla að framgangi áherslumála þess.
- Sér um að skipulag og starfsemi félagsins sé í samræmi við lög þess og ákvarðanir.
- Gefa árlega skýrslu um starfsemi félagsins til fulltrúaþings.
- Fylgjast með starfsemi, rekstri og framgangi svæðisdeildanna og hlúa að innra starfi þeirra og miðla fréttum af starfi sínu.
21. gr.: Sérstakar starfsnefndir stjórnar
Félagsstjórn er heimilt að skipa starfsnefndir til að vinna að ákveðnum verkefnum. Hver nefnd kýs sér formann og skal hann leggja niðurstöður nefndarinnar fyrir félagsstjórn áður en þær eru kynntar á öðrum vettvangi.
22. gr.: Fundur félagsstjórnar
Formaður kallar saman stjórnarfundi, hefur eftirlit með allri starfsemi félagsins og gegnir öðrum venjulegum stjórnarstörfum. Formaður skal halda fundi með félagsstjórn eigi sjaldnar en þrisvar á ári.
Formaður stýrir fundum félagsstjórnar og boðar til funda þegar hann telur ástæðu til. Honum er skylt að kveða stjórnina saman til fundar ef a.m.k. helmingur stjórnarmanna óskar þess. Stjórnarfundi skal boða með dagskrá á tryggilegan hátt, með minnst viku fyrirvara. Fundir eru lögmætir ef rétt er til þeirra boðað og meirihluti stjórnarmanna er mættur. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundi, falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.
23. gr.: Framkvæmdastjórn
Formaður kosinn í alsherjar atkvæðagreiðslu, varaformaður og tveir fulltrúar kjörnir á fulltrúaþingi félagsins til tveggja ára mynda framkvæmdastjórn og sitja jafnframt í félagsstjórn. Stjórnin skiptir með sér verkum og annast framkvæmd á ákvörðunartökum fulltrúaþings og félagsstjórnar.
Framkvæmdastjórnin ber ábyrgð á fjárreiðum og eignum félagsins og tekur allar meiriháttar ákvarðanir er lúta að fjármálum og fjárhagsskuldbindingum þess. Stjórnin felur formanni daglegan rekstur félagsins. Framkvæmdastjórn skal að jafnaði halda fundi tvisvar í mánuði. Varamenn skulu aðeins tilkvaddir sé um langvarandi forföll stjórnarmanna að ræða, en þá skal boða á alla fundi félagsstjórnar. Framkvæmdastjórn skal sjá um heildarendurskoðun á lögum félagsins.
24. gr.: Formannskjör
Formaður félagsins skal kosinn í allsherjaratkvæðagreiðslu meðal félagsmanna til fjögurra ára. Kjörnefnd skal auglýsa eftir frambjóðendum til formannskjörs eigi síðar en í janúarlok meðal félagsmanna. Ef einn er í framboði er hann sjálfkjörinn.
Frambjóðendur skulu senda kjörnefnd skriflega tilkynningu um framboð sitt a.m.k. 30 dögum fyrir fulltrúaþing. Einungis félagsmenn með fulla aðild að félaginu, sem ekki hafa gerst brotlegir við siðareglur félagsins, eru kjörgengir í embætti formanns. Hljóti tveir frambjóðendur jafnmörg atkvæði skal kosið aftur á milli þeirra.
Láti formaður af embætti áður en kjörtímabili lýkur tekur framkvæmdastjórn ákvörðun um lausn málsins, þar til nýr formaður er kosinn.
25. gr.: Hæfisskilyrði formanns og framkvæmdastjórnar
Formaður og annað stjórnarfólk skulu vera lögráða, fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu þremur árum hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög, sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, svo sem lögum um tekjuskatt, virðisaukaskatt og tryggingagjald, eða lögum um heilbrigðisstarfsfólk. Missi formaður eða stjórnarmaður hæfi samkvæmt þessari grein skulu þeir láta af störfum samstundis.
8. KAFLI – FJÁRMÁL
26. gr.: Fjármál
Fulltrúaþing ákveður árlega gjöld félagsmanna í félagssjóð og annast félagið innheimtu þeirra. Heimilt er að draga félagsgjaldið frá launum félagsmanna. Fulltrúaþing skal ennfremur ákveða fagfélagsgjöld og annast félagið innheimtu þeirra.
Hafi félagsmaður ekki greitt gjöld sín til félagsins í tvö ár, missir hann öll félagsleg réttindi þar til skuldin er greidd eða um hana samið. Félagar í lífeyrisdeild eru undanþegnir greiðslu félagsgjalda. Sjóði félagsins skal ávaxta í viðurkenndum fjármálastofnunum.
27. gr.: Endurskoðun og ársreikningar
Framkvæmdastjórn skal ráða endurskoðanda eða endurskoðunarfélag til þess að endurskoða reikningsskil félagsins. Ársreikningar Félagssjóðs, Orlofsheimilasjóðs, Starfsmenntasjóðs, Minningar- og styrktarsjóðs, Verkfalls- og vinnudeilusjóðs skulu liggja fyrir undirritaðir eigi síður en tveimur vikum fyrir fulltúaþing.
28. gr.: Sjóðir í eigu félagsins
Auk Félagssjóðs á Sjúkraliðafélag Íslands Verkfalls- og vinnudeilusjóð, Orlofsheimilasjóð, Minningar- og styrktarsjóð og Starfsmenntasjóð, auk Starfsþróunarsjóð og Fræðslusjóð. Um starfsemi sjóðanna skal setja reglur sem staðfesta skal á fulltrúaþingi. Sjúkraliðafélag Íslands á að auki hlutdeild í Styrktarsjóð BSRB.
Úr Félagssjóði skal greiða kostnað vegna starfsemi og reksturs félagsins. Reikningsár félagsins er almanaksárið.
9. KAFLI – NEFNDIR KJÖRNAR Á FULLTRÚAÞING
29. gr.: Kjörnefnd
Fulltrúaþing kýs þrjá fulltrúa og einn til vara í kjörnefnd til tveggja ára. Hlutverk nefndarinnar er að:
- hafa yfirumsjón með kjöri fulltrúa á fulltrúaþing, kanna kjörbréf þeirra og skila áliti sínu í upphafi þings, samanber ákvæði 17. gr. laga félagsins.
- undirbúa og stjórna allsherjaratkvæðagreiðslu um verkfallsboðun samkvæmt 15. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
- undirbúa og stjórna allsherjaratkvæðagreiðslu um kjarasamninga og frestun eða loka verkfalls samkvæmt ákvörðun félagsstjórnar og kjaramálanefndar.
- sjá um allsherjaratkvæðagreiðslu um kjör formanns samkvæmt 19. gr.
- undirbúa og annast aðrar atkvæðagreiðslur eða kosningar sem stjórn eða fulltrúaþing, felur kjörnefnd sérstaklega.
- úrskurða um úrslit í atkvæðagreiðslum og kosningum, um vafaatkvæði og önnur ágreiningsatriði sem upp koma í atkvæðagreiðslum sem hún annast.
30. gr.: Kjaramálanefnd
Fulltrúaþing kýs átta félagsmenn beinni kosningu til að starfa í kjaramálanefnd. Kjörtímabil nefndarinnar er tvö ár. Kosning í nefndina skal fara fram árlega og kosnir fjórir fulltrúar hverju sinni. Endurkjör er heimilt. Formaður SLFÍ er sjálfkjörinn í nefndina og er formaður hennar. Tveir nefndarmanna skulu tilnefndir og valdir úr hópi starfandi félagsmanna á landsbyggðinni, þ.e. utan höfuðborgarsvæðisins. Kjaramálanefnd skal í samráði við félagsstjórn og trúnaðarmannaráð annast:
- Undirbúning kröfugerðar vegna kjarasamninga.
- Fylgjast með efnahags- og kjaramálum og veita félagsmönnum upplýsingar um þau efni.
- Taka ásamt félagsstjórn, ákvörðun um allsherjaratkvæðagreiðslu um boðun verkfalla, samanber ákvæði 38. gr. laga þessa.
- Undirskrift kjarasamninga skal gerð með fyrirvara um samþykki félagsmanna að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu. Við breytingu á kjarasamningi á samningstímabilinu er ekki skylt að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu.
- Heimilt er, með samþykki kjaramálanefndar og félagsstjórnar félagsins að afgreiða kjarasamninga á almennum félagsfundi.
31. gr.: Siðanefnd
Siðanefnd skal skipuð þremur félagsmönnum auk varamanns. Nefndin skal kjörin til tveggja ára með beinni kosningu á fulltrúaþingi félagsins. Stjórnarmenn eru ekki kjörgengir til setu í Siðanefnd. Siðanefnd er umsagnaraðili ef ástæða þykir til að víkja félagsmanni úr félaginu á grundvelli 10. gr. laganna. Siðanefnd skal setja siðareglur félagsins og starfsreglur Siðanefndar.
32. gr.: Laganefnd
Laganefnd skipuð þremur félagsmönnum auk varamanns, skal kosin á fulltrúaþingi til tveggja ára. Hlutverk laganefndar er að taka til umsagnar tillögur um breytingar á lögum sem stjórn berast. Tillögur laganefndar um breytingu á lögum félagsins eða tillögur annarra sama efnis skulu sendar þingfulltrúum a.m.k. tveimur vikum fyrir boðað fulltrúaþing, samanber 14. gr.laganna.
33. gr.: Ritnefnd
Ritnefnd skipuð þremur félagsmönnum, auk varamanns skal kosin á fulltrúaþingi til þriggja ára. Hlutverk ritnefndar er að koma að útgáfu tímaritsins.
34. gr.: Orlofsheimila- og ferðanefnd
Orlofsheimila- og ferðanefnd skipuð þremur félagsmönnum, auk varamanns skal kosin á fulltrúaþingi til tveggja ára. Hlutverk nefndarinnar er að vinna að orlofsmálum félagsmanna með uppbyggingu orlofsheimila og skipulagningu orlofsferða.
35. gr.: Fræðslunefnd
Fræðslunefnd skipuð þremur félagsmönnum og einum til vara, skal kosin á fulltrúaþingi til tveggja ára. Hlutverk nefndarinnar er að stuðla að aukinni menntun félagsmanna.
36. gr.: Uppstillingarnefnd
Uppstillingarnefnd skipuð fimm félagsmönnum auk tveggja til vara, skal kosin á fulltrúaþingi til fjögurra ára. Kjörtími skal fylgja kjörtíma formanns félagsins. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um félaga í stjórn, nefndir, ráð og önnur störf eða embætti sem fulltrúaþing kýs, þ.m.t. fulltrúa félagsins á bandalagsþing og aðalfundi BSRB.
37. gr.: Umboð starfsnefnda
Starfsnefndir kjörnar af fulltrúaþingi, skulu starfa í umboði og á ábyrgð stjórnar félagsins.
10. KAFLI – ATKVÆÐAGREIÐSLUR
38. gr.: Ákvörðun um boðun verkfalls
Félagsstjórn, trúnaðarmannaráð og kjaramálanefnd skulu í umboði fulltrúaþings taka ákvörðun um allsherjaratkvæðagreiðslu um boðun verkfalls. Ákvörðun um boðun verkfalls skal tekin í leynilegri almennri atkvæðagreiðslu meðal þeirra félagsmanna sem samningurinn tekur til samanber 15. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Til þess að samþykkja verkfallsboðun þarf a.m.k. helmingur þeirra félagsmanna sem starfa hjá þeim sem verkfallið beinist gegn, að hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslunni og meirihluti þeirra samþykkja hana.
39. gr.: Atkvæðagreiðsla um kjarasamning
Kjarasamningur skal samþykktur fyrir hönd félagsins af til þess bærum aðilum með fyrirvara um samþykki félagsmanna, sem fengið skal með allsherjaratkvæðagreiðslu. Einstökum svæðis- eða sérdeildum innan Sjúkraliðafélags Íslands skal heimilt að afgreiða kjarasamning, með atkvæðagreiðslu á almennum félagsfundi, að fengnu samþykki stjórnar og kjaramálanefndar, enda beinist kjaradeilan eingöngu gegn þeim viðsemjanda sem í hlut á, á viðkomandi starfsvettvangi eða félagssvæði. Um kjarasamninga skal fara fram leynileg almenn atkvæðagreiðsla meðal þeirra starfsmanna sem samningurinn tekur til. Úrslitum ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða. Kjörskrá skal miða við félagatal Sjúkraliðafélags Íslands í þeim mánuði sem allsherjaratkvæðagreiðslan fer fram.
11. KAFLI – TRÚNAÐARMENN – TRÚNAÐARMANNARÁÐ
40. gr.: Trúnaðarmenn
Á hverjum vinnustað þar sem félagsmenn vinna skal valinn trúnaðarmaður með réttindum og skyldum samkvæmt V. kafla laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Val trúnaðarmannsins skal þegar tilkynna til skrifstofu Sjúkraliðafélags Íslands. Trúnaðarmaður skal kosinn til tveggja ára. Kosningu skal lokið fyrir 1. október. Hætti trúnaðarmaður störfum áður en kjörtímabil hans lýkur, skal kjósa trúnaðarmann í hans stað. Berist ekki tilkynning til skrifstofu Sjúkraliðafélags Íslands um val trúnaðarmanns í stað þess sem hættir, skal félagsstjórnin eða framkvæmdastjórnin í umboði hennar skipa trúnaðarmann án tilnefningar og tilkynna það stjórn viðkomandi svæðisdeildar, vinnufélögum og stjórnanda vinnustaðarins.
41. gr.: Trúnaðarmannaráð
Trúnaðarmannaráð skal starfrækt á vegum og vettvangi Sjúkraliðafélags Íslands. Formaður félagsins er samhliða formaður Trúnaðarmannaráðsins. Í trúnaðarmannaráði eru allir kjörnir eða skipaðir trúnaðarmenn félagsins. Að auki eiga seturétt á fundum trúnaðarmannaráðs með málfrelsi og tillögurétt félagsstjórn, formenn deilda og kjaramálanefnd.
Trúnaðarmannaráð skal kallað saman a.m.k. einu sinni á ári og skal það að jafnaði standa yfir í einn dag. Formaður trúnaðarmannaráðs kallar það saman til fundar og stýrir fundum þess. Formaður kemur ályktunum og samþykktum trúnaðarmannaráðsins á framfæri við félagsstjórn og aðra eftir atvikum og fylgir þeim eftir. Formaður skal kalla trúnaðarmannaráðið saman ef a.m.k. 25% trúnaðarmanna krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni. Fulltrúaþing setur trúnaðarmannaráði starfsreglur samkvæmt tillögum félagsstjórnar.
12. KAFLI – LAGABREYTINGAR
42. gr.: Lagabreytingar
Lögum félagsins má aðeins breyta á fulltrúaþingi. Úrslitum um lagabreytingar ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða, enda sitji fundinn a.m.k. 2/3 hluti kjörinna fulltrúa. Á fulltrúaþingi er heimilt að leggja fram breytingartillögur við löglega frambornar tillögur til lagabreytinga, enda feli breytingatillaga ekki í sér óskyld efni við upphaflegu tillöguna. Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórn Sjúkraliðafélags Íslands eigi síðar en sex vikum fyrir fulltrúaþing.
Lög félagsins eins og þau eru hér birt, voru samþykkt eftir heildarendurskoðun á lögum félagsins, á 29. fulltrúaþingi Sjúkraliðafélags Íslands, þann 10. september 2020. Með samþykkt laga þessa falla eldri lög Sjúkraliðafélags Íslands úr gildi.
Fulltrúaþingi 12. maí 2022 og samþykkt þannig breytt.
Fulltrúaþingi 16. maí 2024 og samþykkt þannig breytt.
Viðauki I. Skipulag svæðisdeilda í samræmi við heilbrigðisumdæmin.