Fréttir

Samkeppni um nafn á íbúðaleigufélagi

7 okt. 2016

 

Hus i byggingu

 

BSRB og Alþýðusamband Íslands efna til samkeppni um nafn á íbúðaleigufélagi sem leigja mun út íbúðir til fólks með lágar- og meðaltekjur og verður rekið án hagnaðarmarkmiða. Höfundur bestu tillögunar fær 50 þúsund krónur í verðlaun.

Nýtt íbúðafélag ASÍ og BSRB mun starfa í nýju íbúðakerfi sem verið er að taka upp hér á landi. Kerfið byggir á danskri fyrirmynd og er því ætlað að verða hagstæður og öruggur valkostur fyrir fólk á leigumarkaði.

Íbúðfélagið er sjálfseignastofnun sem starfar samkvæmt lögum um almennar íbúðir og er rekin án hagnaðarmarkmiða. Skilyrði er að íbúðirnar verði leigðar út til fólks með lágar- og meðaltekjur.

Íbúðafélagið hefur undirritað viljayfirlýsingu við Reykjavík og Hafnarfjarðabær um lóðir fyrir 1.150 íbúðir á næstu fjórum árum. Undirbúningur framkvæmda vegna 180 íbúða mun hefjast á þessu ári.  Samhliða þessum fyrstu skrefum vinnur íbúðafélagið að lausn fyrir sveitafélög á landsbyggðinni.

Félagið óskar eftir tillögum um nafn á félaginu. Nafnið skal vera þjált í notkun og ýta undir jákvæða ímynd félagsins.

Tillögum um nöfn þarf að skila inn í síðasta lagi fyrir miðnætti þann 16. október. Tillögur má senda á netfangið asi@asi.is eða bsrb@bsrb.is. Frjálst er að senda inn fleiri en eina tillögu. Óskað er eftir því að nafn og símanúmer þess sem leggur fram tillöguna fylgi í tölvupóstinum.

Íbúðafélagið mun veita 50 þúsund króna verðlaun fyrir bestu tillöguna.  Ef fleiri en einn leggja til vinningsnafnið verður vinningshafinn dreginn út.

BSRB og ASÍ hvetja alla til að leggja höfuðið í bleyti og senda tillögur að nafni á nýju íbúðafélagi fyrir miðnætti 16. október.

Til baka