Fréttir

Leiðrétting launa í verkfalli 2015

1 jún. 2019

Sjúkraliðafélagi Íslands hefur borist svar frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu við fyrirspurn félagsins um hvað líði leiðréttingu vegna vangoldinna launagreiðslna til félagsmanna SLFÍ vegna verkfalls félagsins á árinu 2015.

Af 888 félagsmönnum SLFÍ skuldar ríkið 498 félagsmönnum samtals kr. 17.291.132 kr., en á inni hjá 390 félagsmönnum samtals kr. 1.756.068 kr.
Gert er ráð fyrir að endurútreikningar á grundvelli framangreindra forsenda komi til útborgunar þann 1. júní 2019. Vert er að nefna að við þetta tiltekna uppgjör mun ríkið ekki krefja þá um endurgreiðslu, sem teljast hafa fengið ofgreitt miðað við forsendur Hæstaréttar.

Við útreikninga gekk ráðuneytið út frá eftirfarandi forsendum dóms Hæstaréttar nr. 614/2017 um launagreiðslur í verkfalli ljósmæðra árið 2015:
-Tekur einungis til starfsmanna í vaktavinnu
-Frádráttur vegna verkfalls einungis heimill ef viðkomandi starfsmaður er með vinnuskyldu á sama tíma og boðað verkfall.
-Frádráttur skal reiknast miðað við reikniregluna:

 Fjöldi klst. í verkfalli *0,615% af mánaðarlaunum

Dæmi:
Reiknisaðferð skv. niðurstöðu Hæstaréttar:
4 klst. *0,615% = 2,46% af mánaðarlaunum.

Beiting reiknisaðferðar Hæstaréttar hefur í för með sér að ríkið ýmist skuldar eða á inni hjá þeim einstaklingum sem fengu launagreiðslur í verkfalli 2015.

Dómur Hæstaréttar í málinu er skýr, starfsmenn sem vinna utan lotuverkfalls eiga að fá greitt fyrir vinnuframlag sitt. Niðurstaðan er í samræmi við meginreglu vinnuréttar um gagnkvæmni ráðningarsambands. Aðferð ríkisins við að reikna út laun starfsmanna í verkfalli stenst hvorki ákvæði kjarasamnings né meginreglur vinnuréttar. Niðurstaða Hæstaréttar hefur fordæmisgildi gagnvart öðrum fagstéttum sem vinna vaktavinnu á Landspítalanum og sættu launaskerðingu líkt og ljósmæður í verkfallinu árið 2015. Ríkinu hafi borið að reikna þeim laun út frá því hversu hátt hlutfall vinnuskyldu sinnar starfsmenn inntu af hendi á verkfallstímanum. Dómurinn leiðréttir þá framkvæmd sem hefur viðgengist í áratugi hjá íslenska ríkinu að draga af launum fólks í verkfalli óháð raunverulegu vinnuframlagi.

Hér má lesa dóm Hæstaréttar í máli nr. 614/2017laun vegna vinnu í verkfalli.

Til baka