Fréttir

Jafnlaunastaðall mikilvægt verkfæri í baráttunni við óútskýrðan launamun

29 sep. 2011


Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRBElín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, var í viðtali í Fréttablaðinu í gær þar sem m.a. var fjallað um sérstakan starfshóp sem ríkisstjórnin mun skipa í samráði við heildarsamtök ríkisstarfsmanna í kjölfar útgáfu jafnlaunastaðals. Þessi starfshópur á að fylgja eftir áherslum um að uppræta kynbundinn launamun meðal ríkisstarfsmanna.

Þetta kemur fram í bréfi sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra rituðu Elínu Björgu Jónsdóttur, formanni BSRB, í lok maí síðastliðins. Í bréfi ráðherranna segir einnig að stjórnvöldum sé ljóst að vinna starfshópsins kunni að leiða til þess að sýnt verði fram á óútskýrðan launamun sem bregðast þurfi við á viðeigandi hátt. „Það þýðir ekkert annað en að það verði að greiða þann mun,“ segir Elín í viðtali við Fréttablaðið.

BSRB lagði til við gerð kjarasamninga síðastliðið vor að stofnaður yrði „jafnréttislaunapottur“ sem hafi það að markmiði að útrýma kynbundnum launamun fyrir jafnverðmæt störf. Með jafnréttislaunapotti er átt við að ef atvinnurekandi greinir kynbundinn launamun starfsmanna hefur hann fjármagn í launapotti til að leiðrétta hann. Með slíku átaki yrði eitt skref tekið til jöfnunar á launamun kynjanna sem enn er við lýði. Ríkisvaldið treysti sér ekki að svo stöddu til að taka þessar hugmyndir inn í kjarasamninga. Hins vegar var vel tekið í hugmyndina og ákveðið að hún yrði þróuð áfram.

„Við höfðum í aðdraganda kjarasamninganna, farið á fund þessara ráðherra og kynnt fyrir þeim hugmynd SFR um svokallaða jafnréttislaunapotta sem eru að norskri fyrirmynd. Úr þeim er greitt til stétta þar sem konur eru að minnsta kosti 60 prósent starfsmanna og launamunur kynjanna mælanlegur. Við reyndum að fá ríkisstjórnina með okkur í vinnu um útfærslu á þessu meðan verið væri að leiðrétta muninn. Við fengum það ekki í gegn. Við fengum hins vegar viljayfirlýsingu um að til viðbótar jafnlaunastaðlinum yrði tekið mið af þeim línum sem verkalýðshreyfingar í Noregi og Svíþjóð hafa lagt.“

Þriggja ára vinnu að jafnlaunastaðli er að ljúka í þessari viku og í kjölfarið verður starfshópurinn kallaður saman á allra næstu vikum til að leggja lokahönd á verkið. Fulltrúi BSRB í hópnum er Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB. Þegar jafnlaunastaðallinn hefur verið gefinn út munu stjórnvöld skipa starfshóp sem fylgja á eftir áherslum um að uppræta kynbundinn launamun meðal ríkisstarfsmanna. Í starfi sínu á starfshópurinn að hafa að leiðarljósi að veita ríkisstofnunum aðstoð við að tileinka sér þá aðferðafræði sem jafnlaunastaðallinn byggir á og innleiða hann eftir því sem við á. Starfshópurinn, sem á að skila áfangaskýrslu í upphafi árs 2012 og 2013, á jafnframt að horfa til þeirra aðferða sem stjórnvöld, stéttarfélög og aðrir aðilar vinnumarkaðarins í Noregi og Svíþjóð hafa gripið til í baráttunni gegn launamun kynjanna.

„Ég bind miklar vonir við að þessi jafnlaunastaðall verði mikilvægt verkfæri í baráttunni við að uppræta óútskýrðan launamun kynjanna,“ segir Elín Björg
.

Til baka