Fréttir

Ályktanir 28. fulltrúaþings Sjúkraliðafélags Íslands

10 maí. 2019


Fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands fer með æðsta vald í málefnum félagsins.
Á 28. fulltrúaþingi félagsins, þann 7. maí 2019, var ályktað um þau mál sem heitast brenna á sjúkraliðum og beinast að kjaramálum, bættum starfsskilyrðum, menntamálum og heilbrigðisþjónustu.

Stytting vinnuvikunnar
Sjúkraliðafélag Íslands hefur um árabil beitt sér fyrir styttingu vinnuvikunnar, enda þekkja sjúkraliðar að afleiðingar af löngum vinnutíma og miklu vinnuálagi geta verið óafturkræfar og haft neikvæð áhrif á starfsumhverfi og fjölskyldulíf. Meginmarkmið með að stytta vinnutíma lýtur að betra fjölskyldulífi, bættu starfsumhverfi, aukinni starfsánægju, minni veikindum og aukinni framlegð.
28. fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands krefst þess að vinnuskylda í dagvinnu verði 35 klukkustundir á viku og vinnutími vaktavinnufólks 28 klukkustundir.
Nú er lag og grundvöllur þar sem öll tilraunaverkefni varðandi styttingu vinnuvikunnar hafa skilað frábærum árangri.

Átak til að fjölga sjúkraliðum
Undirmönnun á vinnustöðum veldur langvarandi álagi og þreytu, sem brýst svo fram í veikindum til lengri tíma. Kostnaður við mönnun eykst vegna skorts á starfsfólki, sem að hluta til er leystur með yfirvinnu/aukavöktum, en ljóst er að aukavaktir valda enn frekara álagi á starfsfólk. Það er því nauðsynlegt að auka hvata til að fjölga nemendum í sjúkraliðanámi, meðal annars með aukinni vitundarvakningu á mikilvægi þeirra viðfangsefna sem sjúkraliða sinna og faglegri ábyrgð.
28. þing Sjúkraliðafélag Íslands tekur undir áhyggjur heilbrigðisráðherra af skortinum á hjúkrunarfólki og fagnar áherslum ráðherrans á að bæta starfsumhverfið og hækka/leiðrétta laun þessara stétta. Sjúkraliðafélag Íslands treystir á stuðning heilbrigðisráðherra við gerð komandi kjarasamninga.
Fulltrúar á 28. þingi Sjúkraliðafélags Íslands fagna nýhöfnu samstarfi félagsins með fulltrúum Landspítalans, Fjölbrautaskólan¬s í Breiðholti og Fjölbrautaskólans við Ármúla. Samstarfið lýtur að stuðningi við almenna starfsmenn spítalans til að fara í sjúkraliðanám á sjúkraliðabrú. Skólarnir munu samræma námið við núverandi skipulag námsbrautarinnar.

Fagháskólanám
Í áratugi hefur fjöldi sjúkraliða farið í framhaldsnám í ákveðnum sértækum hjúkrunargreinum við Fjölbrautaskólann við Ármúla. Þörfin fyrir slíka sjúkraliða hefur verið mjög mikil á stofnunum um allt land. Sjúkraliðafélag Íslands hefur barist fyrir að framhaldsnámið verði kennt á fagháskólastigi. Komið var loforð frá fyrrverandi menntamálaráðherra um að námið hefðist í síðasta lagi haustið 2019. Vegna þessa hefur ekkert viðbótarnám/sérnám verið í boði við Fjölbrautaskólann við Ármúla undanfarin þrjú ár.
Háskólinn á Akureyri fékk 23,1 millj. kr. til þróunarverkefna um fagháskólanám í janúar 2018 þar sem hluti framlagsins rann til þróunar viðbótarnáms fyrir sjúkraliða. Vönduð skýrsla um nauðsyn, þörf, tilgang og innihald námsins liggur fyrir, en ekkert gerist.
28. fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands krefst þess að námið hefjist svo fljótt sem auðið er og í síðasta lagi á vorönn 2020 og að menntamálayfirvöld sýni stéttinni þá lágmarksvirðingu að námið verði sett í forgangs- og flýtimeðferð.

Heimahjúkrun og biðlistar
Stefna stjórnvalda er að fólk búi heima eins lengi og mögulegt er og njóti góðrar, þverfaglegrar heimahjúkrunar. Því má vera ljóst að þörf fyrir heimahjúkrun mun aukast jafnt og þétt með auknum fjölda aldraðra og fjölþættari heilsufarsvanda¬málum. Starfsemi heimahjúkrunar er veigamikill þáttur í lífi fjölmargra einstaklinga á hverjum tíma. Það er hagkvæmt úrræði miðað við mörg önnur sem bjóðast í heilbrigðiskerfinu þar sem starfsemin er sveigjanleg og yfirbygging lítil. Þá getur heimahjúkrun frestað eða komið í veg fyrir að grípa þurfi til kostnaðarsamra úrræða, eins og sjúkrahúsinnlagna eða varanlegrar vistunar á stofnun. Sjúkraliðar sinna kjarnastarfi heimahjúkrunar og því leggur 28. fulltrúaþingið áherslu á að framlag ríkisins til heimahjúkrunar verði ætíð í samræmi við umfang og þörf rekstrar.

Hjúkrunarrými og mönnun
Hjúkrunarrýmum mun fjölga á næstu árum þar sem opnun 790 hjúkrunarrýma er á framkvæmdaáætlun stjórnvalda til ársins 2023. Með fjölgun hjúkrunarrýma er einungis hálf sagan sögð því ekki fæst fagmenntað starfsfólk til að sinna þjónustunni. Í áraraðir hafa hjúkrunarheimili verið undirmönnuð af fagfólki. Allt að 70 – 80% þeirra sem þar starfa eru ófaglærðir. Íbúar hjúkrunarheimila eiga rétt á faglegri hjúkrun og umönnun, og njóta bestu mögulegrar heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma. Til að unnt sé að veita viðeigandi, faglega þjónustu á hjúkrunarheimilum þarf löggilt heilbrigðisstarfsfólk og þar eru sjúkraliðar meginkjarninn.
28. fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands gagnrýnir óviðunandi nálgun á rekstri hjúkrunarheimila og gerir þá kröfu að þeir sem lögðu grunn að velsæld okkar fái þar mannsæmandi þjónustu. Sjúkraliðafélag Íslands áréttar mikilvægi þess að tryggja þurfi gæði og rekstur heilbrigðisþjónustunnar sem veitt er á hjúkrunarheimilum.

 

 

 

 

 

 

 

Til baka