Fréttir

Vinna við kjarakönnun BSRB er hafin fyrir árið 2013

8 feb. 2013

 

alt


Vinna við kjarakönnun BSRB fyrir árið 2013 er nú farin af stað og mega félagsmenn bandalagsins eiga von á því að haft verði samband við þá á næstu vikum vegna þess. Þetta er annað árið í röð sem að slík könnun er framkvæmd og því þekkja margir hvernig fyrirkomulagið er. Fólki er gefinn kostur á að svara kosningunni rafrænt á netinu og munu þeir sem tóku þátt í fyrra fá könnunina senda á netfang sitt. Capacent, sem er framkvæmdaraðili könnunarinnar, mun svo hafa samband við þá sem eru að taka þátt í gerð könnunarinnar í fyrsta sinn til að fá þeirra samþykki og aðrar nauðsynlegar upplýsingar.

 

Byggt hefur verið á reynslu síðasta árs við framkvæmd könnunarinnar í ár. Fyrir vikið eru spurningarnar aðeins færri hjá flestum aðildarfélögum. Að mestu er spurt um sömu atriði og í fyrra til að ná samanburði á helstu atriðum s.s. launaþróun, álagi og vinnutíma.

 

Rétt er að benda fólki á að farið verður með allar upplýsingar sem trúnaðarmál og könnunin er framkvæmd af BSRB til að fá betri yfirsýn yfir kjaramál félagsmanna bandalagsins. Könnunin hefur reynst vera öflugt tæki í réttindabaráttunni og þess vegna er mikilvægt að þátttaka í könnuninni sé með besta móti.

 

Meðal þess sem síðasta könnun sýndi glögglega fram á var að álag á opinbera starfsmenn hefur aukist mikið á milli ára og að margir hafa ekki enn fengið leiðréttingar launa sinna vegna kjaraskerðinga í kjölfar efnahagshrunsins. Eins sýndi könnunin fram á mikinn kynbundinn launamun hjá ríki og sveitarfélögum fyrir utan mikilvægar upplýsingar um grunnlaun, yfirvinnu, vinnutíma og líðan í starfi svo nokkur atriði séu talin til.

 

Það er ósk BSRB og aðildarfélaga bandalagsins að félagsmenn taki beiðni okkar um þátttöku í könnuninni með opnum hug svo að niðurstöður hennar verði sem áreiðanlegastar og gagnist okkur þannig sem best í áframhaldandi baráttu okkar fyrir bættum hag félagsmanna bandalagsins.

 

Til baka