Fréttir

Viðræður við SFV enn í gangi

19 ágú. 2020

Kjaraviðræðum við samningsaðila Sjúkraliðafélags Íslands hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) var vísað til ríkissáttasemjara þann 23. júní. Fundað var í júní, án árangurs, en samningafundir voru teknir upp að nýju eftir sumarfrí. Næsti fundur hefur verið boðaður þann 26. ágúst.

Rúmlega 300 sjúkraliðar starfa á stofnunum sem heyra undir Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) og eru þeir eðli málsins samkvæmt verulega óþreyjufullir eftir að samkomulag náist um kjarasamning.

Samkomulag hefur náðst um allflest meginatriði samningsins, en þó standa nokkrir þættir eftir.

Kjaramálanefnd Sjúkraliðafélagsins telur óhjákvæmilegt að reyna til þrautar að ná samkomulagi um yfirvinnuákvæði, röðun starfa, reynslu af viðlíka störfum og fræðslumál. Afar brýnt er að tryggja betur jafna stöðu starfsmanna sem vinna saman á stofnunum sem heyra undir SFV. Einnig er mjög mikilvægt að tryggja starfskjör nýútskrifaðra sjúkraliða þannig að laun þeirra lækki ekki þegar þeir hafa bætt við sig sjúkraliðanáminu.

Kjaramálanefnd hefur skilning á vaxandi óþolinmæði félagsmanna, enda er það óþolandi að samkomulag um samninga skuli dragast svona á langinn.

Ástæða er að minna á að enginn er að tapa vegna þessara löngu samningsviðræðna. Nýi kjarasamningurinn mun taka gildi frá 1. apríl 2019 og verðar kjarabæturnar því leiðréttar og uppfærðar til samræmis við ný ákvæði samningsins þegar hann verður undirritaður af kjaramálanefnd og samþykktur í atkvæðagreiðslu af félagsmönnum.

Með kveðju,

Sandra B. Franks

Til baka