Fréttir

Velferðarðarráðherra heimsótti BSRB

20 sep. 2011


Velferðarráðherra ásamt framkvæmdanefnd BSRB og starfsmönnumGuðbjartur Hannesson, ráðherra velferðarmála, kom á fund framkvæmdanefndar BSRB í gær ásamt aðstoðarkonu sinni, Önnu Sigrúnu Baldursdóttur. Á fundinum var m.a. rætt um um kynbundin launamun, fæðingarorlof, velferðarkerfið og fjárlagagerðina sem framundan er.

Framkvæmdanefnd BSRB lýsti áhyggjum sínum af óútskýrðum launamun kynjanna sem m.a. birtist í nýrri launakönnun sem gerð var á vegum SFR og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Ráðherra deildi þessum áhyggjum og rætt var um hugsanlegar ástæður fyrir þessum óútskýra launamun og hvað mætti gera til að uppræta hann.

Einnig fjallaði framkvæmdanefnd BSRB um fæðingarorlof og hversu mikilvægt tæki fæðingarorlof og fæðingarorlofssjóður eru í jafnréttisbaráttunni. Fulltrúar BSRB bentu á að feður væru síður að taka fæðingarorlof nú miðað við fyrir nokkrum árum og hugsanlega væri það vegna þess að tekjuviðmið vegna fæðingarorlofs eru of lág.

Þá var auk þess rætt um velferðarkerfið og fjárlagagerð næsta árs auk þess sem fulltrúar BSRB viðruðu hugmyndir sínar um húsnæðismál og þá sérstaklega almennan leigumarkað sem Bandalagið telur mikilvæga viðbót í búsetumöguleikum landsmanna. Velferðarráðherra tók vel í tillögur BSRB og sagði fundarmönnum frá því sem hið opinbera væri að gera til að koma til móts við vaxandi eftirspurn eftir leiguhúsnæði.

Til baka