Fréttir

Vara við innleiðingu neysluskatts

2 nóv. 2011

alt

1.11.2011

Í kjölfar nýrrar skýrslu, þar sem m.a. kemur fram að Íslendingar eru næst feitasta þjóð í heimi, hefur velferðarráðherra boðað þjóðarátak í heilsu. Í framhaldinu gaf ráðherrann í skyn að til greina komi að beita skattkerfinu til að breyta neyslumynstri Íslendinga. Hafa sérstakir skattar á óhollari matvæli, til dæmis svokallaðir sykurskattar, verið nefndir í því samhengi og með slíkum sköttum eigi að reyna að stýra vali neytenda.

„Þótt þjóðarátak í heilsu sé í sjálfu sér göfugt markmið sem allir hljóta að geta stutt er ekki annað hægt en að vara við því að nota skattkerfið til að fá þjóðina til að lifa heilsusamlegra líferni. Eins og staðan er á Íslandi í dag megum við ekki við því að hrófla frekar við verðlaginu. Tilraunir til að stýra neyslu í gegnum hærri skatta munu alltaf hafa áhrif á vísitöluna sem leiðir til hækkunar verðlags. Á meðan við búum við verðtryggingu lána munu slíkar aðgerðir einungis auka enn á þunga skuldastöðu heimilana,“ segir Hilmar Ögmundsson hagfræðingur BSRB og bendir á að þótt markmiðið sé betri heilsa þjóðarinnar er því ekki hægt að framkvæma svona aðgerðir á meðan lán landsmanna eru beintengd við verðlag.

„Fyrir utan að slík aðgerð myndi hafa áhrif á allt verðlag í landinu sýna dæmin okkur að hækkanir umfram hina eiginlegu skatta fylgja gjarnan svona aðgerðum. Danir settu svokallaðan fituskatt á ákveðin matvæli fyrir ekki svo löngu síðan. Það hefur þegar sýnt sig að kaupmenn nýttu tækifærið og hækkuðu verð á vörum sem hinn nýi skattur náði til umfram sjálfa skattahækkunina. Það er erfitt fyrir neytendur að átta sig á því hvort hækkun skatta útskýri hækkandi vöruverð eða almennar hækkanir frá kaupmanni eða framleiðanda,“ segir Hilmar ennfremur. Betra væri þess vegna að lækka gjöld á hollari mat í stað þess að hækka gjöld á óhollan mat. En telja verður frekar ólíklegt að það verði niðurstaðan miðað við núverandi árferði.

„BSRB varar þess vegna við því að innleiða hverskyns neysluskatta því slíkt mun alltaf hafa áhrif á allt verðlag í landinu og hækka lán landsmanna,“ segir Hilmar að lokum.

Til baka