Reglur orlofsheimilasjóðs Sjúkraliðafélags Íslands

1.gr. Heiti sjóðsins og markmið
Sjóðurinn heitir Orlofsheimilasjóður Sjúkraliðafélags Ísland. Markmið sjóðsins er að leigja/byggja og reka orlofshús fyrir félagsmenn.

2. gr. Stjórn sjóðsins
Orlofsheimilasjóður er eign Sjúkraliðafélags Íslands og fer stjórn félagsins með fjárreiður hans. Orlofsheimilanefnd gerir tillögur til framkvæmdastjórnar um framkvæmdir, aðrar fjárfestingar eða útgjöld sjóðsins og er bundin ákvörðun hennar.

3. gr. Hlutverk Orlofsheimila og ferðanefndar
Orlofsheimilasjóður skal vera í umsjá orlofsheimila- og ferðanefndar félagsins og gerir hún tillögur um ráðstöfun hans til framkvæmdastjórnar félagsins. Sjóðsstjórnin er bundin af ákvörðunum framkvæmdastjórnar.

4. gr. Kjör stjórnar sjóðsins
Orlofsheimilanefnd er kosin á fulltrúaþingi Sjúkraliðafélags Íslands til tveggja ára, skal hún vera tengiliður aðila sem tengjast sjóðnum, svo sem við stjórn félagsins, félagsmenn og aðra aðila sem hafa hagsmuna að gæta.

5. gr. Tekjur sjóðsins
Tekjur sjóðsins eru samningsbundnar greiðslur ríkisins, Reykjavíkurborgar og annarra atvinnurekenda sem hafa félagsmenn Sjúkraliðafélags Íslands í sinni þjónustu, svo og þau framlög úr aðalsjóði sem fulltrúaþing ákveður. Ennfremur leigutekjur af húsum sem félagið hefur til ráðstöfunar.

6. gr. Reikningar sjóðsins
Orlofsheimilasjóður hefur sérstakt reikningshald og er undanþegin fjárskuldbindingum félagsins. Ársreikningur sjóðsins skal endurskoðaður og lagður fram til samþykktar á fulltrúaþingi félagsins. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið.

7. gr. Reglur um úthlutun orlofshúsa
Úthlutun orlofshúsa og leigugjald fer eftir reglum sem Orlofsheimilanefnd ákveður. Leigjendur húsa bera ábyrgð á þeim og öllum búnaði þeirra, eins og kveðið er á um í leigusamningi.

8. gr. Breyting á reglum sjóðsins
Reglum Orlofsheimilasjóðs má aðeins breyta á fulltrúaþingi félagsins, og skulu gilda sömu reglur um breytingu þeirra og á lögum félagsins.

Úr lögum Sjúkraliðafélags Íslands
Hlutverk og skipan Orlofsheimila- og ferðanefndar:

“31.g. Fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands kýs þrjá félagsmenn og einn til vara til að starfa í orlofs- og ferðanefnd. Kjörtími nefndarinnar er tvö ár. Hlutverk hennar er að vinna að orlofsmálum félagsmanna með uppbyggingu orlofsheimila og skipulagningu sumarleyfisferða, sjálfstætt eða í samstarfi við BSRB og/eða önnur samtök launþega.”

Til baka