Fréttir

Um 85 prósent vilja álagsgreiðslur fyrir framlínufólk

31 ágú. 2021

Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill að ríki og sveitarfélög greiði því starfsfólki sem hefur verið í framlínunni í baráttunni gegn heimsfaraldrinum aukagreiðslur fyrir það álag sem það hefur verið undir. Þetta sýna niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem könnunarfyrirtækið Prósent gerði fyrir BSRB.

Um 85 prósent landsmanna vilja að framlínufólkið, til dæmis heilbrigðisstarfsfólk, lögregla, sjúkraflutningamenn og aðrir, fái greitt aukalega fyrir það álag sem fylgt hefur faraldrinum. Um níu prósent sögðust hvorki fylgjandi né andvíg slíkum aukagreiðslum og aðeins um sex prósent voru andvíg því að greiða framlínufólkinu álagsgreiðslur.

„Starfsfólk almannaþjónustunnar hefur verið undir gríðarlegu álagi síðastliðna átján mánuði og enn sjáum við ekki fyrir endann á þessum faraldri. Við getum ekki gert þá kröfu á þennan stóra hóp fólks að þau leggi endalaust á sig fyrir okkur hin án þess að fá greiðslur í samræmi við þetta mikla álag,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá íslensku þjóðina þjappa sér með þessum hætti að baki þeim sem staðið hafa vaktina í heimsfaraldrinum. Þjóðin er með þessu að segja að þakklætið eitt og sér dugi ekki til heldur þurfi að umbuna framlínufólkinu okkar með sérstökum álagsgreiðslum,“ segir Sonja.

Konur vilja frekar álagsgreiðslur
Talsverður munur er á afstöðu fólks eftir kyni. Þannig vill mun hærra hlutfall kvenna greiða framlínufólki álagsgreiðslur, alls um 92 prósent samanborið við 78 prósent karla. Þá vilja marktækt fleiri íbúar höfuðborgarsvæðisins slíkar greiðslur, um 88 prósent, en um 80 prósent íbúa á landsbyggðinni eru sömu skoðunar.
Lítill munur er á afstöðu fólks eftir tekjum, utan við það að þeir sem hafa hæstar tekjur, 800 þúsund krónur á mánuði eða meira, vilja síður greiða aukalega fyrir álag í heimsfaraldrinum.

Þegar afstaða fólks er skoðuð eftir því hvaða flokk það myndi kjósa yrði gengið til kosninga nú má sjá að mikill meirihluti allra flokka vill álagsgreiðslur til framlínufólks. Stuðningsfólk tveggja flokka skera sig nokkuð frá öðrum, þeir sem ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og Miðflokkinn. Þannig vilja um 70 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins álagsgreiðslur og 75 prósent kjósenda Miðflokksins.

Hlutfall þeirra sem vilja álagsgreiðslur fyrir framlínufólk er mun hærra meðal stuðningsfólks annarra flokka. Hæst er það meðal þeirra sem styðja Samfylkinguna, 96 prósent, Sósíalistaflokk Íslands, 95 prósent, og meðal stuðningsfólks Vinstri grænna og Pírata, 94 prósent. Ekki er marktækur munur á svörum milli stuðningsfólks þessara flokka.

Nánar má lesa um könnunina á heimasíðu BSRB.

Til baka