Fréttir

Stjórn Bjargs skoðaði íbúðir í byggingu

7 jún. 2021

Hjá Bjargi íbúðafélagi hefur verið mikið og gott uppbyggingarstarf síðan það var stofnað af ASÍ og BSRB árið 2016. Stjórn Bjargs fékk nýverið leiðsögn Björns Traustasonar framkvæmdastjóra félagsins ásamt starfsmönnum þess um byggingarsvæði félagsins í Reykjavík og á Selfossi.

Hallgerðargata í Laugarneshverfi

Byrjað var á að skoða fallegt og skemmtilegt verkefni við nýja götu í Laugarneshverfi, Hallgerðargötu, sem kennd er við sögupersónu Íslendingasagna Hallgerði langbrók sem bjó í Laugarnesi. Þess má geta að Sjúkraliðafélagi keypti nýverið íbúð í Hallgerðargötu, sem hægt er að bóka inni á Orlofsvefnum. Götumyndin er litrík eins og sögupersónan sjálf. Gætt var að því að húsin væru umhverfisvæn og ódýr í bygginu en án þess að það kæmi niður á gæðum þeirra. Þau er að Norrænni fyrirmynd og passa vel að eldri húsunum í hverfinu. Bjarg íbúðarfélag reisti 80 íbúðir í Hallgerðargötu við Kirkjusand í Laugarnesi, allt tveggja til fimm herbergja íbúðir í tveggja hæða timburhúsum.

Einnig voru skoðaðar 74 íbúðir við Bátavog, sem áætlað er að verði afhentar á hausti komanda. Íbúðirnar eru í fjölbreyttum gerðum og stærðum. Allt frá stúdíóíbúðum upp í rúmgóðar 5 herbergja íbúðir. Allar íbúðirnar eru með góðum innréttingum og vel skipulagðar. Einnig var komið við í Úlfarsárdal, þar sem Bjarg byggir 82 leiguíbúðir, og á Selfossi þar sem Bjarg mun bjóða til leigu 28 íbúðir, þær fyrstu verða afhentar nú í júní og þær síðustu í október.

Bátavogur í Vogahverfi

Bjarg er leigufélag í eigu BSRB og ASÍ sem rekið er án hagnaðarsjónarmiða. Félaginu er ætlað að byggja upp og leigja út íbúðir fyrir tekjulægstu félagsmenn heildarsamtakanna tveggja. Hægt er að kynna sér starfsemi Bjargs betur á vef félagsins, þar sem einnig má sækja um íbúðir.

Til baka