Fréttir

Stefnumótandi ályktanir fulltrúaþings

18 maí. 2022

Ályktun um heimahjúkrunar og heimaþjónustu

Heilbrigðisútgjöld vegna þeirra sem eru 65 ára og eldri eru um helmingur af öllum heilbrigðisútgjöldum hins opinbera. Fólk í þessum aldurshópi er þó einungis rúmlega 14% mannfjöldans. Í ljósi þess að fjöldi eldri borgara mun tvöfaldast á næstu 25 árum er ekki einungis þörf á auknum fjármunum í heilbrigðiskerfið heldur á stórauknu átaki í heimahjúkrun og heimaþjónustu.

Fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands krefst þess að stjórnvöld taki mið af væntanlegri  þörf og forgangsraði í þágu þessarar mikilvægu þjónustu. Aukin heimahjúkrun og öflug heimaþjónusta mætir þörf og vilja almennings og dregur úr kostnaði í dýrari úrræðum.

Sjúkraliðar gegna lykilhlutverki í þessari nærþjónustu við landsmenn og eru sem fyrr tilbúnir í öll krefjandi verkefni. Með aukinni menntun sjúkraliða á háskólastigi verður það hlutverk enn mikilvægara. Skorað er á stjórnvöld að huga mun betur að þessari mikilvægu þjónustu og bæta starfsumhverfi  þeirra sem henni sinna.

Sandra B. Franks formaður Sjúkraliðafélags Íslands

Ályktun um stefnumörkun í heilbrigðismálum

Langvarandi mönnunarvandi í heilbrigðiskerfinu er staðreynd, sem bregðast verður við af krafti.

Stjórnmálamönnum er tíðrætt um vandann og má skilja orð þeirra að til standi að bregðast við og bæta ástandið. Raunveruleikinn er því miður sá að í nýrri fimm ára fjármálaáætlun stjórnvalda kemur fram að árleg fjáraukning til heilbrigðismála til ársins 2026 verður einungis á bilinu 1,3% – 1,7%.  Á síðasta ári fjármálaáætlunarinnar lækka útgjöld til heilbrigðismála um 2% stig á milli ára. Því til viðbótar munu framlög til hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu lækka beinlínis næstu fimm árin þrátt fyrir mikla fjölgun eldri borgara.

Þessi áætlun er alls ekki í takt við fögur fyrirheit og mun ekki bæta stöðuna og er í raun skerðing á fjármagni til heilbrigðismála.

Fulltrúaþingið krefst þess að stjórnvöld opni augun fyrir alvarleika málsins og taki á vandanum áður en í óefni verður komið. Ellegar mun vandi heilbrigðiskerfisins aukast enn frekar í komandi framtíð.  

Ályktu um kynskiptan vinnumarkað

Enn á ný ályktar fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands um aðgerðir vegna launamunar sökum kynskipts vinnumarkaðar. Árangur hefur náðst í að vinna gegn kynbundnum launamun í viðlíka störfum. Hins vegar eigum við talsvert lengra í land þegar kemur að launamun sem er vegna kynskipts vinnumarkaðar. Rannsóknir sýna að störf sem eru að uppistöðu unnin af konum eru lægra launuð, en sambærileg störf unnin af körlum. Slíkt óréttlæti er ólíðandi með öllu.

Sjúkraliðar eru ein stærsta heilbrigðisstétt landsins þar sem 98% eru konur og bera því  mjög skarðan hlut vegna þessarar mismununar. 

Fulltrúaþingið krefst þess að gripið verði tafarlaust til aðgerða sem miða að því að verðmæti starfa sé metið að jöfnu burtséð frá hvað kyn sinnir þeim. Það er ekki nóg að tryggja sömu laun kynjanna fyrir sömu vinnu og sama menntastig. Það er tómt mál að tala um launajafnrétti kynjanna á meðan störf sem eru unnin af konum eru ver launuð en hefðbundin karlastörf.

Fulltrúaþingið krefst þess að í næstu kjarasamningum verði  þessi mismunun leiðrétt. 

Stefnumótandi ályktanir voru samþykktar samhljóða á 31. fulltrúaþingi Sjúkraliðafélags Íslands þann 12. maí 2022.

Til baka