Fréttir

Slæm andleg heilsa einstæðra foreldra og versnandi hagur launafólks

4 maí. 2023

Ný könnun Vörðu – rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins leiðir í ljós að þeim fer fjölgandi sem eiga erfitt með að ná endum saman og á sú lýsing nú við um tæpan helming vinnandi fólks á Íslandi samanborið við ríflega þriðjung í fyrra. Meira en helmingur einstæðra mæðra og ungra kvenna býr við slæma andlega heilsu og vaxandi húsnæðiskostnaður íþyngir leigjendum og ungu fólki.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Vörðu -Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins um lífsskilyrði launafólks. Almennt gefur skýrslan til kynna versnandi hag vinnandi fólks í landinu.

Ný skýrsla Vörðu gefur til kynna versnandi hag fólks í landinu

Samkvæmt rannsókninni býr tæplega fjórðungur einstæðra foreldra við efnislegan skort og allt að þriðjungur þeirra getur ekki greitt kostnað vegna félagslífs barna sinna. Um það bil helmingur einstæðra foreldra gæti ekki staðið undir óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að taka lán. Staða innflytjenda mælist markvert verri en innfæddra Íslendinga þriðja árið í röð.

Niðurstöður könnunarinnar sem var lögð fyrir félaga í aðildarfélögum ASÍ og BSRB sýna:

Tæplega helmingur vinnandi fólks á erfitt með að ná endum saman en var tæplega
þriðjungur í fyrra:

– Eitt af hverjum tíu býr við skort á efnislegum gæðum.
– Tæplega fjögur af hverjum tíu gætu ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án
þess að stofna til skuldar.
– Fjárhagsstaða kvenna er verri en karla á öllum heildar mælikvörðum.
– Tæplega tvö af hverjum tíu hafa ekki getað greitt kostnað vegna skipulagðra
tómstunda fyrir börnin sín vegna fjárskorts.

Fjárhagsstaða einstæðra foreldra er verst meðal vinnandi fólks:
– Ríflega sex af hverjum tíu í hópi einstæðra foreldra eiga mjög erfitt, erfitt eða
nokkuð erfitt með að ná endum saman.
– Tæplega fjórðungur býr við skort á efnislegum gæðum.
– Ríflega sex af hverjum tíu einstæðum mæðrum gætu ekki mætt óvæntum 80.000
kr. útgjöldum og tæplega fimm af hverjum tíu einstæðum feðrum.
– Tæplega þrjár af hverjum tíu einstæðum mæðrum geta ekki greitt kostnað vegna
félagslífs hjá börnum sínum sökum fjárskorts og ríflega tveir af hverjum tíu
einstæðum feðrum.

Þriðja árið í röð mælist staða innflytjenda mun verri en innfæddra Íslendinga:
– Ríflega helmingur innflytjenda á mjög erfitt, erfitt eða nokkuð erfitt með að ná
endum saman.
– Hærra hlutfall innflytjenda býr við skort á efnislegum gæðum en innfæddra.
– Ríflega fjögur af hverjum tíu búa við slæma andlega heilsu.

Þriðjungur launafólks býr við þunga byrði af húsnæðiskostnaði og er það hærra
hlutfall en í fyrra:

– Fjárhagsstaða leigjenda er verst. Ríflega helmingur leigjenda býr við þunga byrði
af húsnæðiskostnaði og sex af hverjum tíu eiga erfitt með að ná endum saman.

Blönduð húsnæðislán og lán á breytilegum vöxtum eru mest íþyngjandi:
– Ríflega helmingur launafólks með húsnæðislán á breytilegum vöxtum metur
fjárhagsstöðu sína verri en fyrir ári síðan.
– Hæst er hlutfall þeirra sem eru í eigin húsnæði með blönduð lán sem býr við
efnislegan skort.

Ríflega helmingur einstæðra mæðra og ungra kvenna býr við slæma andlega heilsu:
– Ríflega þrír af hverjum tíu alls launafólks býr við slæma andlega heilsu.
– Hæst er hlutfall einstæðra mæðra og ungra kvenna sem búa við slæma andlega
heilsu en sama á við um innflytjendur og einstæða feður.

Tæplega eitt af hverjum tíu mælist með starfstengda kulnun:
– Starfstengd kulnun er algengust meðal þeirra sem starfa í mötuneytum og á
veitingahúsum, í ræstingum, í fræðslustarfsemi og heilbrigðisþjónustu.

Minnihlutahópar verða í mun meira mæli fyrir réttindabrotum á íslenskum
vinnumarkaði:

– Ungt fólk, innflytjendur, fólk með annan húðlit en hvítan, samkynhneigt fólk og
fólk með skerta starfsgetu/fötlun verður oftar fyrir réttindabrotum.

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér.

Til baka