Fréttir

Sjúkraliðar vilja í háskólanám

10 sep. 2020

Sjúkraliðar hafa árum saman barist fyrir námsbraut á háskólastigi. Í erfiðum kjarasamningum liðins vetrar var krafan um hana gerð að úrslitaatriði. Fullur sigur vannst að lokum. Ný námsbraut mun því hefjast við Háskólann á Akureyri. Undirbúningsnám byrjar strax í haust og á næsta ári hefst tveggja ára sjúkraliðanám sem lýkur með diplómagráðu.

Afgerandi könnun
Fyrir skömmu sendi Sjúkraliðafélagið út spurningalista til félagsmanna til að kanna áhuga á diplómanáminu. Niðurstöðurnar eru birtar í dag á árlegu fulltrúaþingi félagsins sem streymt er á síðu þess á Facebook. Niðurstöðurnar eru mjög afgerandi:

Alls svöruðu 643 könnuninni. Af þeim höfðu 82,27% áhuga á að skrá sig í nýju námsbrautina. Í dag eru alls um 2.200 sjúkraliðar starfandi í greininni. Merkasta niðurstaðan var því að næstum fjórðungur þeirra lýsti áhuga á að efla sig í starfi með 60 ECTS eininga diplómanámi.

Innan stéttarinnar er uppsöfnuð löngun eftir aukinni menntun. Í könnuninni birtist hún í að 65,79% svarenda vilja helst hefja námið strax á næsta ári. Sami vilji til mennta og framfara í starfi endurspeglast í því að ár hvert skrá sig á sjöunda hundrað sjúkraliða í sérhæfð námskeið hjá símenntunarstöðinni Framvegis.

Úr könnuninni má jafnframt lesa að hátt hlutfall sjúkraliða, eða 55,37%, telur eftirsóknarvert að eiga kost á nokkurra vikna undirbúningsnámi. Mestur áhugi var á að efla sig í faglegri ensku og tölvufærni.

Samfélagssviðin heilla
Í könnuninni var spurt á hvaða hjúkrunarsviðum sjúkraliðar vilja helst sérhæfa sig. Langmestur áhugi reyndist vera á öldrunarhjúkrun, heilsugæslu og heimahjúkrun. Alls vilja 41,84% mennta sig á þeim sviðum. Næstvinsælast er geð- og samfélagshjúkrun, en 21,77% vilja búa sig undir þess háttar hjúkrunarþjónustu. Áhugi á öðrum sviðum skoraði lægra.

Af sjúkraliðum sem hafa áhuga á háskólanámi í greininni hafa 38,41% stúdentspróf. Næstum fjórðungur þeirra, eða 9,18%, hafa lokið háskólanámi í öðrum greinum. Þess má geta að í dag útskrifast sjúkraliðar með svipaðan fjölda framhaldsskólaeininga og þeir sem hafa almennt stúdentspróf. Á framhaldsskólastiginu taka hins vegar sjúkraliðarnir sterkan grunnkjarna úr heilbrigðistengdum greinum. Þeir hafa að því leytinu betri undirbúning fyrir sjúkraliðanám á háskólastigi en ætla má að almennt stúdentspróf veiti. Sjúkraliðafélagið stefnir að því að allir félagsmenn með starfsleyfi frá Embætti landlæknis séu gjaldgengir í námið.

Athyglisverðar niðurstöður birtust einnig í tengslum starfsaldurs og áhuga á háskólanámi. Mestur áhugi reyndist meðal þeirra sem hafa unnið skemur en fimm ár í greininni. Úr þeim hópi koma 31,57% áhugasamra sjúkraliða. Ætla má að það séu yngstu aldursflokkar stéttarinnar.

Enn athyglisverðara er þó að jafnstórt hlutfall – 31,1% – kemur úr röðum þeirra sem hafa starfað sem sjúkraliðar í meira en 10 ár. Næstum þriðjungur þeirra, 9,64%, hefur starfað í greininni í 20 ár eða lengur.

Sjúkraliðar – vannýtt auðlind
Einbeittur vilji til að bæta færni í starfi með aukinni þekkingu, einkennir stéttina. Hann birtist í því háa hlutfalli sjúkraliða sem ár hvert lýkur sérhæfðum námskeiðum hjá símenntunarstöðinni Framvegis. Önnur birtingarmynd er sú staðreynd að fjórðungur starfandi sjúkraliða er áhugasamur um háskólanám í greininni.

Aukið menntastig sjúkraliða hefur hins vegar ekki verið metið að verðleikum. Stjórnendur í heilbrigðiskerfinu hafa ekki svarað því með nýjum starfsleiðum og aukinni ábyrgð. Þeir sem efast um það ættu að lesa skýrslu Arnrúnar Höllu Arnórsdóttur frá febrúar 2019 um „Fagnám á háskólastigi fyrir sjúkraliða.“

Betri nýting á menntun og sérhæfingu sjúkraliða á ákveðnum sviðum, er eitt af svörunum við mönnunarvandanum sem blasir við kerfinu. Stjórnendur verða að skilja að aukinni menntun stéttarinnar verður að svara með því að fela henni aukna ábyrgð og gefa sjúkraliðum tækifæri á auknum starfsframa. Þannig er hægt að frelsa kraftinn sem býr í sjúkraliðum og kerfið nýtir ekki í dag.

Sandra B. Franks,
formaður Sjúkraliðafélags Íslands

Grein formanns Sjúkraliðafélags Íslands var birt í Fréttablaðinu 10. september 2020

Til baka