Fréttir

Sjúkraliðar – til hamingju með 1. maí!

1 maí. 2021

Sandra B. Franks formaður SLFÍ

Í dag höldum við upp á alþjóðlegan baráttudag launafólks, 1. maí, líkt og í fyrra við óvenjulegar samfélagslegar aðstæður. Covid faraldurinn hefur markað djúp spor hvarvetna um allt samfélagið. Þrátt fyrir það er byrjað að létta til og við finnum fyrir jákvæðum straumum. Um víða veröld eru bólusetningar hafnar og á Íslandi stendur heilbrigðisstarfsfólk loksins betur varið fyrir veirunni. Það gefur okkur von um að framundan eru betri tímar. Víða um heim stendur fólk  í sambærilegri baráttu og við á Íslandi, en við miklu verri aðstæður. Við stöndum líka með þeim því  baráttan gegn Covid er alþjóðlegt viðfangsefni. 

Lykilstarfsmenn 

Nýliðinn vetur sýndi með skýrum hætti hversu mikilvægt heilbrigðiskerfið er velferð þjóðarinnar.  Íslendingar geta og eiga að vera  stoltir af öflugu og fórnfúsu starfsfólki almannaþjónustunnar.  Sjúkraliðar sýndu það enn og aftur að þeir gegna lykilstörfum innan heilbrigðisþjónustunnar. Um allt land hafa þeir staðið vaktina og tekist á við ógnvekjandi aðstæður vegna Covid. Álagið var á köflum gríðarlegt, bæði á sjúkraliða og annað  starfsfólk  heilbrigðiskerfisins. Gleymum ekki fjölskyldum þeirra. Á tímabili stóð þetta tæpt, en öll vorum við saman í þessu og færðum fórnir. Við skulum heldur ekki fjölskyldum þessa fólks sem fór ekki varhluta af hinu mikla álagi og færði sömuleiðis fórnir.

Þegar kallað var eftir fagfólki í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar létu sjúkraliðar ekki sitt eftir liggja. Fjölmargir sjúkraliðar, sem störfuðu ekki lengur sem slíkir, skráðu sig sem bakverði og voru kallaðir til starfa. Sjálf stóð ég vaktina á Covid deild Landspítalans á yfirlýstu neyðarstigi. Ég upplifði þar samtakamáttinn og baráttuandann sem einkenndi starfsemina. Stolt fylgdist ég með samstarfsfélögum mínum skipuleggja fjölskyldulífið að þörfum spítalans. Síðastliðið ár sannar að bakverðirnir og öll sjúkraliðastéttin eru til taks þegar óvættur eins og Covid-19 sprettur upp. 

Krefjandi innleiðingarferli 

Veturinn var sjúkraliðum líka þungur vegna innleiðingar á styttri vinnuviku sem samið var um í síðustu kjarasamningum. Um er að ræða sögulega  og umfangsmikla kerfisbreytingu á vinnutíma sem ekki hefur verið hróflað við í nær hálfa öld. Útfærslan á þessum breytingum er ólík hjá dagvinnufólki og vaktavinnufólki, og hefur breytingin hjá vaktavinnufólki  krafist   mikils undirbúnings. Styttri vinnuviku hjá sjúkraliðum í dagvinnu tók gildi um um síðustu áramót þar sem samið var um að vinnutíminn styttast um allt að fjórar klukkustundir á viku. 

Í vaktavinnu verður vinnuvikan stytt að lágmarki um fjórar klukkustundir, en að hámarki um átta miðað við fullt starf hjá þeim sem eru með þyngstu vaktabyrðina. Á vaktavinnustöðum þar sem manna þarf vaktir hluta úr sólarhring eða allan sólarhringinn mun styttingin kalla á aukin útgjöld frá launagreiðendum. Á mörgum vaktavinnustöðum verður til mönnunargat og þá þarf að fjölga stöðugildum. Það hefur verið vitað frá upphafi og var gert ráð fyrir því í kostnaðarmati áður en kjarasamningar voru undirritaðir. Þá er sérstaklega kveðið á um það að starfsfólk eigi ekki að lækka í launum við þessar breytingar. 

Krefjandi innleiðingarferli þessara umfangsmiklu kerfisbreytinga er loksins að ljúka. Breytingarferlið mun engu að síður halda áfram og þróist í takt við breytta vinnustaðamenningu. Breytingin tekur gildi í dag, 1. maí, baráttudegi launafólks. Það er sannarlega vert að gleðjast yfir því. 

Samstaða launafólks

Framundan eru áframhaldandi krefjandi tímar. Kerfisbreyting um vinnutíma er breytingaferli sem krefst þess að fólk sýni sveigjanleika og umburðarlyndi. Við þurfum að taka höndum saman um þetta samvinnuverkefni og hjálpast að svo við öll getum notið ávinningsins af styttri vinnuviku. 

Við sjúkraliðar þurfum áfram að standa  þétt saman því samhliða krefjandi breytingum stöndum við áfram vaktina gegn Covid um leið og við  treystum á bólusetta framtíð. Sjúkraliðar vinna krefjandi starf, sem oft er ekki metið að verðleikum. Við höfum metnað fyrir okkar starfi, viljum eiga kost á meiri fagmenntun, meiri ábyrgð, og fá laun í samræmi við vinnuframlag. Breytingar á vinnutíma skila okkur drjúgum árangri, en baráttunni er hvergi nærri lokið. 

Til hamingju með baráttudag launafólks – til hamingju með 1. maí! 

Til baka