Fréttir

Sjúkraliðar í sókn!

12 júl. 2020

Á nýliðnum vetri náðum við sjúkraliðar mikilvægum áföngum í baráttu okkar fyrir auknum réttindum og bættum kjörum. Ég vil sérstaklega undirstrika fjóra þætti sem styrktu stöðu stéttarinnar verulega.

Tímamótasamningar

Aðstæður á vinnumarkaði voru mjög erfiðar í vetur. Covid-19 fárið var í algleymi og mikil stífni í viðsemjendum okkar. Eigi að síður tókst félaginu í krafti mikillar samheldni að landa tímamótasamningi. Hann fól í sér góðar launahækkanir en jafnframt mikilvæga og sögulega áfanga varðandi styttingu vinnuvikunnar og menntunarleiðir stéttarinnar.

Á samningstímabilinu munu laun hækka að meðaltali um 24%. Launahækkun á þeim tíma verður um 90 þúsund kr. á mánuði. Mikilvægur áfangi náðist einnig með heimild um sérstakar greiðslur vegna óvanalegs tímabundins álags. Á heimildina hefur þegar reynt vegna Covid-19 faraldursins en fyrr í sumar voru sjúkraliðum á Landspítala greiddar út sérstakar álagsgreiðslur. Jávæðar breytingar voru einnig gerðar á ávinnslu orlofs þannig að sjúkraliðar yngri en 37 ára fá nú jafnmarga orlofsdaga og þeir sem eldri eru.

Sögulegur áfangi: Styttri vinnuvika – betri vinnutími!

Sögulegasti áfanginn var þó vinnutímabreytingin sem fól í sér styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar. Hún felur í sér mikilvæga kjarabót fyrir vaktavinnufólk, en langflest í okkar stétt, eða 90%, vinna á vöktum. Fallist var á þá kröfu að 80% vinna í krefjandi vaktavinnu jafngildi 100% vinnuframlagi. Vinnuskylda fer því niður í 36 stundir á viku, en jafnframt er möguleiki á að stytta vinnutímann allt niður í 32 stundir. Vinnutímabreytingin á að taka gildi næsta vor, eða í síðasta lagi 1. maí 2021.

Stytting vinnuvikunnar hjá dagvinnufólki verður útfærð með öðrum hætti. Þar sem unnið er í dagvinnu mun styttingin byggja á samtali starfsfólks og stjórnenda um hvernig megi nýta tímann betur. Það verður að talsverðu leyti undir vinnustöðunum komið, og þarmeð starfsfólki, hversu hratt styttingin verður tekin upp. Styttri vinnuvika á að vera komin í gang um næstu áramót, eða í síðasta lagi 1. janúar 2021. Í breytingaferlinu mun forysta félagsins, og skrifstofan, veita sjúkraliðum upplýsingar og allan þann stuðning sem hægt er.

Starf sjúkraliða er að jafnaði erfitt og krefjandi. Markmiðið með styttri vinnuviku og betri vinnutíma er að bæta lífskjör sjúkraliða með hærri launum og góðu samræmi milli vinnu og einkalífs. Hvoru tveggja styður við bætt fjölskyldulíf.

Diplómanám fyrir sjúkraliða

Á lokaspretti kjarasamninganna gerði forysta félagsins að úrslitakröfu að ríkið féllist á bókun með skýrum fyrirheitum um diplómanám á háskólastigi fyrir sjúkraliða við Háskólann á Akureyri. Lítil hreyfing varð á málinu fyrr en eftir mikinn eftirrekstur af hálfu Sjúkraliðafélagsins. Í kjölfar funda forystu félagsins með tveimur ráðherrum gaf ríkisstjórnin út tímamótayfirlýsingu um að námsleiðin hæfist í haust.

Sérstök verkefnahópur undirbýr aðfaranám við Háskólann á Akureyri í haust og leggur samhliða grunn að tveggja ára diplómnámi sem hefst haustið 2021. Formaður Sjúkraliðafélagsins situr í verkefnahópnum, og félagið hefur skipað bakhóp sjúkraliða henni til halds og trausts. Fast verður fylgt eftir óskum sjúkraliða um þróun og fjölbreytni námsins.

Diplómanámið felur í sér algjör kaflaskil í menntasögu sjúkraliða. Það opnar sjúkraliðum ný tækifæri, bætir gæði hjúkrunar á Íslandi og styrkir verulega sess stéttarinnar innan heilbrigðiskerfisins.

Hjúkrunarráð lagt niður

Sjúkraliðar eru mikilvægasta hjúkrunarstéttin við nærhjúkrun en hefur samt verið haldið utan við hjúkrunarráð Landspítalans þó það eigi að vera ráðgefandi um stjórnun spítalans. Óskum sjúkraliða um aðild var hafnað. Mörg í okkar röðum, þar á meðal ég, hafa litið á þetta sem niðurlægingu gagnvart sjúkraliðastéttinni. Sjúkraliðar hafa barist fyrir fagráðum þar sem allar stéttir eiga aðild á jafnræðisgrundvelli. Það er því fagnaðarefni að Alþingi samþykkti nýlega að leggja hjúkrunarráð niður og taka í staðinn upp fagráð á öllum heilbrigðisstofnunum landsins. Sjúkraliðar munu því í framtíðinni hafa sömu möguleika til að koma viðhorfum sínum á framfæri og aðrar mikilvægar fagstéttir í hjúkrun.

Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands.

Til baka