Fréttir

Sífellt fleiri taka þátt í verkfalli opinberra starfsmanna í Noregi

31 maí. 2012

Sífellt fleiri taka þátt í verkfalli opinberra starfsmanna í Noregi

Frétt af heimasíðu BSRB 
Verkfall opinberra starfsmanna í NoregiÞann 25. maí síðastliðinn lagði mikill fjöldi opinberra starfsmanna niður störf í Noregi þar sem viðsemjendur þeirra vildu ekki veita launahækkanir í samræmi við hækkanir á almennum vinnumarkaði. Mörg af þeim stéttarfélögum sem nú eru í verkfalli eru systursamtök félaga innan BSRB.

Boðað hefur verið að fleiri starfsstéttir muni taka þátt í verkfallinu um komandi helgi en nú þegar hefur verkfallið haft mikil áhrif á leikskóla, grunnskóla, fangelsi, heilbrigðisstofnanir sem og aðrar opinberar stofnanir. Nú síðast bættust hafsögumenn í hóp þeirra sem lagt hafa niður störf þannig að illa hefur gengið að halda skipaumferð og starfsemi hafna óraskaðri. Flugvallarstarfsmenn munu svo að óbreyttu taka þátt í verkfallinu frá og með morgundeginum þannig að búast má við miklum röskunum á flugsamgöngum í kjölfarið.

Fjöldi útifunda var haldin í Noregi í gær þar sem opinberir starfsmenn í verkfalli og stuðningsfólk þeirra kom saman til að sína samstöðu. Efnt var til útifunda í Bergen, Bodö, Kristjanssandi, Narvik, Ósló, Tromsö, Álasundi og í öllum stærstu þéttbýliskjörnum Noregs í dag. Frekari aðgerðir eru svo fyrirhugaðar um helgina. Mjög misjafnt er eftir landssvæðum hvaða starfsstéttir eru í verkfalli en flest stéttarfélögin sem boðað hafa verkföll eru systursamtök félaga innan BSRB.

„Þær launahækkanir sem ríkisstjórnin hefur boðið okkur hafa knúið okkur til að fara í verkfall,“ segja forsvarmenn Unio, sem eru á meðal stærstu heildarsamtaka stéttarfélaga í Norgi. „Noregur nýtur sérstöðu í efnahagslegi tilliti í Evrópu og á þessu ári hefur almenni vinnumarkaðurinn samþykkt 4% launahækkun. Tilboð ríkisstjórnarinnar til opinbera geirans var talsvert lægra en það. Nú sést glöggt að þeir sem eru í vinnu hjá ríki og sveitarfélögum eiga einir að bera kostnaðinn af því að halda norsku efnahagslífi í jafnvægi. Unio vill meina að opinberir starfsmenn geti ekki einir axlað þessa ábyrgð og því hefur tilboð ríkisstjórnarinnar þvingað fram verkfall,“ er meðal þess sem segir í tilkynningu frá Unio.

„Aukið launabil milli opinbera og almenna geirans mun draga úr getu opinbera geirans til að ráða til sín hæfasta starfsfólkið. Það er alvarlegt fyrir velferðarríkið Noreg. Þetta er líka alvarlegt fyrir orðspor sósíaldemókratísku ríkisstjórnarinnar. Til að þetta launabil verði ekki enn meira er nauðsynlegt fyrir ríki og sveitarfélög að bjóða betri samninga en þegar hefur verið gert,“ segir einnig í tilkynningu Unio.

Skoðanakannanir sýna að sjö af hverjum tíu Norðmönnum styðja verkfallið þrátt fyrir að það bitni á starfsemi leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og einnig háskóla. Skólar ásamt fjölda opinberra stofnanna og þjónustuaðila hafa annað hvort þurft að loka alfarið eða starfa með mjög takmörkuðum hætti vegna verkfallsins. Verkfallið hefur einnig haft áhrif á bókasöfn, hjúkrunarheimili, heimahjúkrunarþjónustu og raunar flest allt sem starfsmenn ríkis og sveitarfélaga starfa við. Auk þess hafa fangaverðir og lögreglumenn á frívöktum tekið virkan þátt í kröfugöngum og mótmælum frá því að verkfallið skall á.

Náist samningar ekki fyrir helgi mun verkfallið hafa enn víðtækari áhrif á norskt samfélag þar sem fleiri starfsstéttir hafa boðað verkstöðvun á morgun og um helgina
.

Til baka