Fréttir

Samkomulag um framlengingu á kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga samþykkt

18 okt. 2023

Nýverið náði kjaramálanefnd Sjúkraliðafélagsins samkomulagi um framlengingu á kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Samkomulagið snérist ekki um beinar launahækkanir að þessu sinni, þar sem hækkun á launatöflunni var samþykkt síðastliðið vor. Sambandið var ekki til viðræðu um frekari launahækkanir í þessum stutta samningi.

Samkomulag náðist um breytingar á starfaröðun sjúkraliða og aukið framlag í Orlofsheimilasjóð og Starfsmenntasjóð félagsins, sem mun að sjálfsögðu nýtast sjúkraliðum. Þá var samkomulag um að vinna að innleiðingu á starfsmati og skoða betur mat á menntun. Efni þessa kjarasamning snérist um að samræma gildistíma samningsins til 31. mars 2024, eða jafns á við það sem Sjúkraliðafélagið hefur gert við aðra launagreiðendur.

Í kjölfar samkomulagsins var efnt til kynningarfundar um kjarasamninginn á teams, og hann settur í atkvæðagreiðslu. Kjarasamningurinn var samþykktur og hefur niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verið send til ríkissáttasemjara. Kjarasamninginn má nálgast á heimasíðu Sjúkraliðafélagsins, sjá hér: Kjarasamningur SIS og SLFI, gildir til 31. mars 2024.

Kjaramálanefnd Sjúkraliðafélagsins vinnur að kappi við undirbúning fyrir komandi kjaraviðræður, sem verða í vor, þegar allir okkar samningar verða lausir. Ef þú ert með ábendingar um áherslur eða efni kjarasamninga sem þú vilt koma á framfæri við kjaramálanefndina, sendu þá upplýsingar um það á netfangið slfi@slfi.is.

Til baka