Fréttir

Réttlát skipting og hagsæld allra

24 jan. 2023

Þegar rætt er um hagsæld er gjarnan verið að líta til meðaltala, það er samanlögðum tekjum eða eignum fólks er skipt á milli þeirra með jöfnum hætti í því skyni að gefa ímyndaða mynd af meðalstöðu hvers og eins. Það ætti að vera flestum ljóst að margir lifa ansi langt frá hinu svokallaða meðaltali, hvort sem litið er til Íslands eða alþjóðasamfélagsins. Við búum í heimi þar sem verðmætum er skipt með mjög misjöfnum hætti á milli fólks.

Kyn er ein vídd efnahagslegrar mismununar. Töluverður munur er á efnahagslegri stöðu einstaklinga þegar litið er til kyns. Því miður er enn sem komið er afar takmörkuðum upplýsingum safnað um önnur kyn en karla og konur. Konur hafa sögulega allra jafnan átt, og eiga enn, minni eignir en karlar og jafnframt eru þær með lægri tekjur. Þegar efnahagslegar þrengingar eiga sér stað, líkt og nú um stundir með hækkandi verðlagi, hefur það mun meiri áhrif á þá sem minna eiga og eru með lægri tekjur. Það er einfaldlega minni geta til þess að mæta auknum útgjöldum. Lífskjararannsókn Hagstofu Íslands fyrir árið 2021 sýnir að um 38 þúsund íslensk heimili, eða um fjórðungur, áttu á því ári erfitt með á ná endum saman. Það átti við um 52% einstæðra foreldra. Var þetta staðan áður en verðbólgan og vextir tóku að hækka. Þar sem konur eru að jafnaði með lægri tekjur en karlar og eru enn hlutfallslega oftar einstæðir foreldrar bendir allt til þess að fjárhagsstaða kvenna þrengist meira við núverandi aðstæður en karla.

Samfélag sem vill kenna sig við velferð ætti alltaf að hafa metnað og skýran vilja til að gera betur. Ekkert barn á að alast upp við fátækt og allir eiga að geta séð sér fyrir helstu nauðsynjum. Það að ítreka við fólk sem ekki nær að borga helstu nauðsynjar að það hafi það í reynd rosalega gott þar sem mikill jöfnuður sé hér á landi, hjálpar þeim lítið við að brúa bilið á milli tekna þeirra annars vegar og nauðsynlegra útgjalda hins vegar. Að skjóta skollaeyrum við stöðu þeirra hópa sem höllustum fæti standa hefur sögulega aukið gjá á milli stjórnvalda og almennings.

Pistil Heiðu Margrétar Björnsdóttirm, hagfræðings BSRB, má lesa í heild sinni á heimasíðu BSRB.

Til baka