Fréttir

Reglugerð nr. 897/2001 um menntun, réttindi og skyldur sjúkraliða

22 júl. 2011

1. gr

Rétt til þess að kalla sig sjúkraliða og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn, sem til þess hefur leyfi heilbrigðisráðherra.

 

2. gr

Leyfi samkvæmt 1. gr. má veita þeim, sem lokið hefur námi frá skóla hér á landi sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið viðurkennir.
Leyfi má og veita þeim sem lokið hefur hliðstæðu námi erlendis. Áður en slíkt leyfi er veitt skal leita umsagnar Sjúkraliðafélags Íslands og Hjúkrunarráðs.

 

3. gr

Starfsvettvangur sjúkraliða er á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum, heilsugæslustöðvum og öðrum heilbrigðisstofnunum.
Sjúkraliði starfar á hjúkrunarsviði og vinnur undir stjórn þess hjúkrunarfræðings sem fer með stjórn viðkomandi stofnunar, deildar eða hjúkrunareiningar og ber ábyrgð á störfum sínum gagnvart honum.
Sjúkraliði starfar einkum við almenna og sérhæfða umönnun sjúkra og við þau hjúkrunarstörf sem hann hefur menntun og faglega færni til að sinna. Við mat á faglegri færni skal tekið tillit til viðbótarmenntunar sem sjúkraliði hefur aflað sér.

 

4. gr

Ekki er heimilt að ráða aðra en sjúkraliða til sérhæfðra umönnunar- og hjúkrunarstarfa samkvæmt 3. mgr. 3. gr., nema áður hafi verið auglýst eftir sjúkraliðum. Hafi verið auglýst eftir sjúkraliðum á síðustu sex mánuðum án árangurs er þó ekki skylt að auglýsa að nýju. 

 

5. gr.

Sjúkraliða er skylt að gæta þagmælsku um atriði, sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum og eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt hann láti af störfum.

 

6. gr.

Sjúkraliða ber að þekkja skyldur sínar, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar er varða starfið.

 

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. lögum um sjúkraliða nr. 58/1984 og öðlast gildi nú þegar.

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið,
26. nóvember 2001

Jón Kristjánsson.

Til baka