Fréttir

Ráðherra úthlutaði styrkjum vegna nema í starfsþjálfun

31 okt. 2011


31.10.2011

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra fyrr í dagMennta- og menningarmálaráðuneyti úthlutaði í fyrsta skipti  styrkjum í dagtil fyrirtækja og stofnana vegna nema í starfsþjálfun. Styrkirnir eiga að gera fleiri nemendum sem taka starfsþjálfun sem hluta af starfsnámi á framhaldsskólastigi kleift að ljúka tilskilinni þjálfun á vinnustað. Nokkuð hefur borið á því í efnahagsþrengingum undangenginna ára að nemendur hafi átt erfitt með að komast á námssamning og ljúka námi sínu. Með styrkjum til vinnustaðanáms er leitast við að hvetja fyrirtæki og stofnanir til þess að taka við nemendum í starfsþjálfun og gera þeim kleift að ljúka starfsnámi sínu. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkir styrkir eru veittir af almannafé en samtök á vinnumarkaði hafa lengi kallað eftir því að fyrirtæki og stofnanir fái þóknun fyrir að annast þá kennslu eða þjálfun á vinnustað sem er skilyrði fyrir því að nemendur fái lokið starfsnámi að fullu. Birna Ólafsdóttir, formaður fræðslunefndar Sjúkraliðafélags Íslands er fulltrúi BSRB í nefnd um vinnustaðanámssjóð en auk hennar eru fulltrúar frá KÍ, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, ASÍ, Fjármálaráðuneytinu og Félagi íslenskra framhaldsskólanema í nefndinni.

Stutt samkoma var haldin af þessu tilefni í dag þar sem Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hélt ræðu þar sem m.a. kom fram að 65 umsóknir bárust um framangreinda styrki frá fyrirtækjum og stofnunum að þessu sinni. Alls verður hægt að úthluta 57 milljónum króna í styrki til umsækjenda í þessari lotu og njóta um 170 nemendur góðs af.

Í ár eru styrkirnir veittir af mennta- og menningarmálaráðuneytinu en á næsta ári verður stofnaður sérstakur vinnustaðanámssjóður um þetta málefni og þannig á að koma til móts við kostnað fyrirtækja og stofnana sem annast kennslu eða þjálfun starfsnámsnemenda. Á árunum 2012-2014 verður alls 450 milljónum króna varið til verkefnisins.

Formaður BSRB tók einnig til máls á samkomunni og óskaði Elín Björg öllum hlutaðeigandi hjartanlega til hamingju með áfangann enda mun framtakið gera mun fleiri nemendum en ella kleift að komast að í starfsnámi. Þá vill BSRB sérstaklega benda á úthlutunarreglur styrkja til vinnustaðanáms og hvetur bandalagið alla til að kynna sér málið og hvort þeir geti ekki nýtt sér sjóðinn til að taka við nemendum í starfsþjálfun á sínum vinnustað. Fyrirtæki og stofnanir sem taka nema í vinnustaðarnám geta sótt um 20 þúsund á viku fyrir hvern nema í allt að 24 vikur á ári.

Til baka