Fréttir

Ráðherra undirritar reglugerð um sjúkraliða.

22 maí. 2013

Fulltruating


Ráðherra Guðbjartur Hannesson hefur undirritað reglugerð um sjúkraliða.
Annars vegar 
um menntun, réttindi og skyldur sjúkraliða og skilyrði til að hljóta starfsleyfi. Hins vegar reglugerð um menntun, réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi.

 

Mikill styr hefur ríkt um reglugerðardrögin í alllangann tíma. Skrifað var undir reglugerðir allra annarra heilbrigðisstétta fyrir áramót, en ráðherra stöðvaði undirskrift á fyrrgreindum reglugerðum eftir að sjúkraliðar mótmæltu  því að kveðið væri sérstaklega á um að hjúkrunarfræðingar bæru faglega ábyrgð á hjúkrun.

Sjúkraliðafélag Íslands fundaði mörgum sinnum með fulltrúum ráðuneytisins og bentu á að með tillögunum væri verið að setja íþyngjandi  hömlur á störf sjúkraliða umfram það sem  fram kemur í lögunum.

Sjúkraliðar afhentu ráðherra 1135 undirskriftir sjúkraliða, þar sem þeir skoruðu á hann að taka málið til skoðunar. Einnig lagði félagið fram lögfræðiályt Gísla Guðna Hall, hrl. þar sem hann benti á að með tillögunum væri um að ræða brot á jafnræðisreglunni. Yfirstjórn velferðarráðuneytisins fundaði um málið og komst að því að þörf væri á að drögin yrðu endurskoðuð. 


Niðurstaða ráðherra var að undirrita reglugerðir sem Sjúkraliðafélagið gat sætt sig við og sagði ráðherra m.a. að því tilefni:

„Reglugerðirnar eru í samræmi við drög sem send voru formönnunum félaganna í gær að öðru leyti en því að í reglugerð hjúkrunarfræðinga er bætt við tilvísun í 10. gr. laga um heilbrigðisþjónustu; „“Um faglega ábyrgð hjúkrunarfræðinga fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum 10. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007“.
Af þessu tilefni vil ég taka fram að ég tel að reglugerðirnar séu í fullu samræmi við þann ramma sem heilbrigðisþjónustunni er settur í lögum og reglum og í fyrrgreindum reglugerðum felist engar breytingar á ábyrgð og starfssviði umfram það sem lög um heilbrigðisstarfsmenn fela í sér.

Mér er ljóst að það var orðið brýnt að undirrita þessar reglugerðir, einkum til þess að unnt væri að afgreiða starfsleyfi.“


Sjúkraliðafélag Íslands telur að mikið hafi áunnist með þessari niðurstöðu. Að öðrum kosti hefði stéttin farið aftur um 30 ár hvað starfsréttindi varðar. 

Til baka