Fréttir

Ræða formanns á 32. fulltrúaþingi

26 maí. 2023

Sandra B. Franks formaður

Góðir félagar – kæru sjúkraliðar

Það er mér mikil ánægja að bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin til fulltrúaþingsins, sem ég set nú í fimmta sinn sem formaður. Segja má að starfsárið hafi verið annasamt og viðburðarríkt. Enn og aftur skilaði það sögulegum árangri sem á eftir að hafa jákvæð áhrif á stéttina um ókomna tíð. Ég hef reynt að upplýsa sjúkraliða og almenning um starfið okkar í hverri viku með sérstökum pistlum sem við birtum á heimasíðunni okkar og á facebook síðu félagsins. Og ég skynja að sjúkraliðar meta þetta framtak.

Sjúkraliðafélagið er bæði í senn stéttarfélag og fagfélag. Við erum næststærsta aðildarfélag innan BSRB og við erum einnig næstfjölmennasta heilbrigðisstétt landsins. Við erum sex sem störfum á skrifstofunni og eru verkefnin okkar ansi fjölbreytileg. Allt frá flóknum og krefjandi samningaviðræðum og lagaþrætum, – yfir þægileg samtöl við sjúkraliða. 

Við vitum vel að heilbrigðiskerfið gengur ekki án okkar. Og það er meðal annars okkar hlutverk að upplýsa stjórnvöld um þá staðreynd. Við reynum að hafa áhrif á ákvarðanir stjórnvalda með reglulegum fundum með ráðherrum og forstjórum stofnana. Við rýnum einnig vel fyrirhugaðar laga- og reglugerðarbreytingar og reynum að tryggja rödd sjúkraliða við borðið. Við tökum slaginn þegar á þarf að halda, hvort sem það er í viðræðum um kjara- og stofnasamninga eða málefnum sem varða sjúkraliða sérstaklega.

Allavega, kæru félagar, þá markaði starfsárið enn og aftur gleðileg tímamót í sögu Sjúkraliðafélagsins. Því verður minnst í framtíðinni að á þessu starfsári luku fyrstu sjúkraliðarnir fagáskólanámi til diplómaprófs við Háskólann á Akrueyri. Fyrsti hópur sjúkraliða sem útskrifast af háskólastigi er sem sagt að líta dagsins ljós. Fyrir tveimur árum hófu þessir brautryðjendur diplómanám sitt og nú er komið að uppskeru. Brautskráning sérfræði sjúkraliða verður þann 10. júní nk.

Að mínu mati þurfum við að styrkja námsmöguleika sjúkraliða enn frekar. Við erum í góðum og uppbyggilegum samskiptum við menntastofnanir sjúkraliða, og nýverið bættist Háskóli Ísland að borðinu. En þar höfum lagt fram tillögur um mögulegt samstarf háskólanna um frekara námsleiðir á fagáskólastigi fyrir sjúkraliða. Ég hef þá trú að aukið nám sjúkraliða skilar sér ekki eingöngu í betri faglegri hæfni, heldur einnig möguleikum á framgangi í starfi og þar með hærri tekjum.

Við vitum að kröfur á heilbrigðisstarfsfólk eru alltaf að breytast og aukast. Aukin tæknivæðing, fjarheilbrigðisþjónusta og breyttar kröfur til þjónustunnar kalla á símenntun og viðbótarnám hjá sjúkraliðum rétt eins og hjá öðrum heilbrigðisstéttum. Stéttin hefur því svarað þessu ákalli og nú er það hlutverk stjórnvalda og vinnuveitenda að taka vel á móti þessum frábæra hópi.

Ríkisstjórnin og stjórnvöld hafa sýnt að vilji þeirra sé að efla sjúkraliðastéttina, meðal annars með auknum tækifærum til viðbótar- og símenntunar, – en einnig með breytingum á reglugerðum. Annars vegar er það reglugerð um sjúkraliða sem er nú í lokaumsagnarferli, og hins vegar reglugerð um val, geymslu og meðferð lyfja á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum, – sem einnig er í umsagnarferli. Og bindum við vonir við að þessar reglugerðarbreytingar verði staðfestar af heilbrigðisráðherra fyrir 10. júní.

Kæru sjúkraliðar

Eitt af meginhlutverkum sérhvers stéttarfélags er að gæta að kjörum félagsmanna sinna. Á það ekki síst við í árferði eins og nú er. Há verðbólga og háir vextir rýra kjör og kaupmátt almennings. Þess vegna skiptir máli að deila verðmætasköpuninni í samfélaginu út með réttlátum hætti. Opinberir starfsmenn eins og sjúkraliðar taka ekki einungis virkan þátt í verðmætasköpun hagkerfisins heldur gera þeir öðrum starfsmönnum kleift að skapa verðmæti.

Heilsulaus maður leggur minna til mælanlegrar landsframleiðslu en sá hrausti. Þá skapar hjúkrun og umönnun sjúkraliða á eldri borgurum landsins tækifæri fyrir aðstandendur að sinna sinni vinnu. Sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar og aðrar heilbrigðis- og velferðarstéttir eru því grunnurinn að hagvexti og verðmætasköpun hagkerfisins.

Rétt eins og sjúkraliðar vita voru nýir kjarasamningar við ríkið, Reykjavíkurborg, og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu samþykktir nýlega. Samningarnir eru til óvenju skamms tíma, og því standa eftir stór óútkljáð úrlausnarefni sem tekið verður á í næstu kjarasamningslotu, sem í raun er hafin. Í sjálfu sér er ekki heppilegt að semja oft til mjög skamms tíma en aðstæður í samfélaginu um þessar mundir kölluðu á slíkt.

Sjúkraliðafélagið lagði mikla áherslu á að verja kaupmáttinn og tryggja að samningur taki við af samningi. Lykilatriði er að launahækkanir skili sér strax til félagsmanna í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar, hárri verðbólgu og viðstöðulausum hækkunum Seðlabankans á stýrivöxtum. Í þessum samningum eru laun sjúkraliða að hækka að meðaltali um ca 9%. Þá hækkaði stórhátíðarálagið úr 90% og í 120% og úr 120% og í 165%.

Vaktahvatinn var sömuleiðis lítillega breyttur að þessu sinni en þó er ljóst að frekari breytinga á vaktahvatanum er þörf. Loks náðist samkomulag um útfærslu á fyrningu orlofs og sömuleiðis var gert áfangasamkomulag um jöfnun launa milli markaða. Tímasett verkáætlun var sett fram um önnur atriði sem unnið verður að á samningstímanum til undirbúnings fyrir næstu kjarasamninga.

Það er óhætt að segja að mikill tími hafi farið hjá félaginu í fundarhöld vegna samninga, og þá einkum vegna nauðsynlegrar uppfærslu á stofnanasamningum og starfslýsingum sjúkraliða. Við þá vinnu var lögð áhersla á að fjölga símenntunarþrepum og reynt að uppfæra röðunarkafla samhliða yfirfærslunni á nýja launatöflu. Jafnframt var lögð áhersla á að uppfæra starfslýsingar sem víða voru orðnar úreltar, og tryggja að sjúkraliðar með diplómapróf finni sér stað í samningunum.

Þetta geta verið ansi flóknar samningaviðræður því almennt séð fylgja ekki sérstakir fjármunir með þessum samningum. Hins vegar er ætlast til að stofnanasamningar kosti eitthvað. Skemmst er frá því að segja að eftir erfiðar samningaviðræður allt starfsárið tókst félaginu að tryggja nokkra kjarabætur fyrir sjúkraliða í gegnum þessa samninga. 

Kæru félagar,

Mönnunarmál eru iðulega rædd á fundum okkar við stjórnvöld. Skortur er á sjúkraliðum og það er ekki fyrirsjáanlegt að þeim fjölgi nema gripið verði til markvissra aðgerða. Eftirspurnin eftir þjónustu er stöðugt að aukast.

Fólki fjölgar, mannfjöldi á Íslandi hefur aukist, eða um tæplega 40 þúsund á síðustu fimm árum, sem er nær tvöfaldur íbúafjöldi Akureyrar. Jafnframt hefur árlegur fjöldi erlendra ferðamenna náð nýjum hæðum, og er talið að fjöldi þeirra sem heimsækir Ísland nái tæpum þremur milljónum innan tveggja ára!

Við vitum að ferðamenn sem heimsækja Ísland er hópur sem þarf stundum að leita eftir heilbrigðisþjónustu. Þá er það sérstakt áhyggjuefni að um 40% sjúkraliða fer á lífeyrisaldur á næstu 15 árum, en meðalaldur stéttarinnar er um 50 ár. Þessu til viðbótar fer núna um helmingur nýútskrifaðra sjúkraliða að starfa við annað en fagið og meira en helmingur sjúkraliða hafa í hugsað af alvöru að hætta í starfinu síðustu 12 mánuði. Ofan í þessa þróun mun fjöldi eldri borgara tvöfaldast næstu 25 árin. Það er því ljóst að nú er tíminn til að bregðast við með fleiri tækifærum fyrir sjúkraliða, og fjölga þeim ásamt því að fjölga öðru heilbrigðisstarfsfólki.

Ágætu þingfulltrúar

Hér á landi ríkir formlegt kynjajafnrétti sem þýðir að konur og karlar búa við lagalegt jafnrétti. Þrátt fyrir það er staðan samt þannig að enn mælist þó nokkuð kynjabil. Hér er því verk að vinna. Þessi barátta skiptir ekki síst sjúkraliða máli þar sem 97% þeirra eru konur.

Sá óhugnaður sem kynbundið ofbeldi er, hefur enn ekki tekist að uppræta. Þá búa konur ekki einungis við kynjamisrétti, heldur einnig við óréttlátt launamisrétti. Rétt er að minna á að atvinnuþáttaka kvenna er hvergi í heiminum eins mikil og hér á landi. Þó eru launamyndunarkerfin þannig úr garði gerð að konur fá lægri laun en karlar fyrir sambærileg störf, því iðulega eru störf sem unnin af konum minna metin en hefðbundin karlastörf.

Á ráðstefnu um launajafnrétti í vetur kom fram að kynbundinn launamunur á Íslandi er um 10%. Þar var bent á dæmi sem sýnir að kona með 650.000 kr. í laun á mánuði verður af tæplegri milljón á ári, sem telst vera um 45 milljónir á starfsævinni. Til viðbótar við það verða lífeyrisgreiðslur hennar lægri en ella. Ef við myndum stækka þennan hóp í 2.000 konur, sem er u.þ.b. sami fjöldi og starfandi kvenkyns sjúkraliðar á Íslandi, kemur í ljós að þessi hópur er snuðaður um tæpa 2 milljarða á ári.

Konur hafa staðið vaktina áratugum saman en á alltof lágum launum, aðeins vegna þess að þær eru konur. Umfangsmikil atvinnuþátttaka kvenna skapar ekki aðeins mikinn auð í íslensku samfélagi heldur eykur hún beinlínis framleiðni. Kynskiptur vinnumarkaðar kostar okkur öll. Þessi launamunur og ójafnrétti á vinnumarkaðinum dregur nefnilega bæði úr framleiðni og úr vexti.

Það er á forræði stjórnvalda að leiðrétta kynjamisrétti. Hins vegar er staðreyndin sú að með athafnaleysi sínu styðja stjórnvöld þetta augljósa launamisrétti. Við þessu þarf að bregðast. Það þarf að leiðrétta þennan kynbundna launamun, sem þýðir að hækka þarf laun hlutfallslega meira hjá hefðbundnum kvennastéttum. Sú leið er ekki einungis sanngjörn heldur styður hún við áform stjórnvalda um að konur og karlar búi við lagalegt jafnrétti og skilar auk þess hagkvæmri niðurstöðu fyrir samfélagið allt.

Verkalýðsbarátta snýst fyrst og fremst um bætt kjör. Lífskjör sem gera manni kleift að lifa mannsæmandi lífi. Í grunninn er verkalýðsbarátta mannréttindabarátta. Það eru mannréttindi að geta framfleytt sér og sínum á launum sem fást fyrir fulla vinnu. Fyrir of marga á Íslandi næst það alls ekki. Ísland er tíunda ríkasta land í heimi. Íslendingar vilja sanngjarnt skattkerfi sem dugar til að fjármagna heilbrigðiskerfi fyrir alla. Íslendingar vilja að hér sé gert betur í baráttunni gegn kynbundnum launamun. Íslendingar vilja gera betur gagnvart heilbrigðisstéttum hvort sem það er í kjörum eða starfsaðstæðum þessara stétta. Nú styttist í næstu kjarasamninga. Því er lag fyrir stjórnvöld að standa við stóru orðin og gera það sem þjóðin vill.

Kæru félagar,

Sjúkraliðar gegna lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustunni. Það vitum við. Við lifum í þeirri staðreynd að samborgarar okkar munu áfram veikjast og slasast, og allflest náum við að eldast og verða gömul. Þá er eins gott að einhver standi vaktina. Við sjúkraliðar gerum það. Við sinnum nærhjúkrun – sem Florence Nightingale var frumkvöðull að í stríðinu á Krímskaganum fyrir nær 200 árum. Við erum burðarstétt á spítölunum, á hjúkrunarheimilunum, og höldum uppi kjarnastarfsemi heimahjúkrunar.

Ég, sjúkraliðinn Sandra Franks, sinnti nærhjúkrun með sambærilegum hætti og Florence Nightingale. Hún er fagleg ættmóðir okkar sjúkraliða eins og annarra fagstétta hjúkrunar. Við verðum að minnast þess að Florence Nightingale er okkar. Ég nefni þetta nú, því hún gerði það sem við gerum nú, – það eru við, sjúkraliðar, sem eru sérfræðingar í nærhjúkrun og sinnum fólki öllum stundum, á sama tíma og aðrir halda jól, fara í sumarfrí og njóta samfunda með fjölskyldu og vinum. Við erum reiðubúin að standa vörð um heilbrigðiskerfið og leggja okkar að mörkum til að styðja það. En við krefjumst jafnréttis á vinnumarkaði.

Við sem samfélag viljum eiga gott heilbrigðiskerfi. En heilbrigðiskerfið er fátt annað en starfsfólkið sem þar vinnur og fólkið sem þangað leitar. Það þarf að hlúa betur kerfinu og meta vinnuframlag þeirra sem þar vinna að verðleikum. Það er óþolandi að enn sé til staðar launamunur milli kynja á Íslandi. Því þarf að breyta. Munum að samfélög eru mannanna verk. Oft er það eina sem hindrar okkur í átt að betra samfélagi fyrir alla, er viljinn til að breyta.

Það skortir ekki breytingavilja hjá forystu Sjúkraliðafélagsins. Við höfum nú þegar skerpt faglega og stéttarlega ásýnd okkar, enn við viljum ná lengra. Sjúkraliðar eru í sókn. Við lítum til framtíðar og viljum sjá hvar sjúkraliðastéttin verður í heilbrigðiskerfinu eftir tíu ár. Við erum tilbúin að hugsa útfyrir boxið og finna leiðir til að efla stéttina enn frekar.

Kæru félagar

Fyrir mig sem formann var starfsárið annasamt, krefjandi – en um leið frábærlega gefandi. Glæsileg frammistaða sjúkraliða í stefnumótunarfundi í gær, — og mun vera kynnt fyrir þinginu síðar í dag –  minnti mig á það hvað sjúkraliðar eru í reynd lausnamiðaðir og bjartsýnir, sem er svo einkennandi fyrir þessa stétt. Við erum að kortleggja framtíðarsýn félagsins og því við vitum hvert við stefnum.

Ég vil þakka ykkur kæru sjúkraliðar fyrir einstaklega jákvætt og gefandi samstarf á liðnu starfsári. Þið eruð sómi heilbrigðiskerfisins og fyrir mig eru það forréttindi að fá að vinna með ykkur. Með þessum orðum og vaxandi sjálfstrausti þessarar mikilvægu stéttar set ég þetta 32. fulltrúaþing Sjúkraliðfélags Íslands.

Kærar þakkir 😊

Til baka