Fréttir

Ræða formanns á 30. fulltrúaþingi

19 maí. 2021

Sandra B. Franks formaður SLFÍ

Góðir félagar – kæru sjúkraliðar.
Það er mér mikil ánægja að bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin til fulltrúaþingsins, sem ég set nú í þriðja sinn sem formaður.

Þingið er líkt og á síðasta ári haldið í skugga heimsfaraldurs. Margt bendir þó til að framundan séu kaflaskil í glímunni við Covid-19. Íslendingum er að takast með samstilltu átaki að ráða niðurlögum veirunnar.

Íslendingar hafa staðið sig einna best allra þjóða í viðureign við veiruna. Það má ekki síst þakka einhuga átaki heilbrigðisstéttanna.
Þar lékuð þið, sjúkraliðar, mjög þýðingarmikið hlutverk. Það gildir bæði um þau sem stóðu í framlínu, en ekki síður hin sem unnu önnur mikilvæg störf. Það birtist til dæmis í því að í fyrra frestuðum við fulltrúaþinginu fram á haustið vegna óvissu um framvindu faraldursins. Nú stöndum við hins vegar í miðjum bólusetningaraðgerðum sem gefur okkur von um að senn verði boðaðar rýmri reglur um fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk.

Framlag stéttarinnar sýndi svart á hvítu að án sjúkraliða gengur heilbrigðiskerfið ekki upp. Glæsileg frammistaða ykkar, kæru félagar, bókstaflega lýsti upp stéttina. Í dag velkist enginn í vafa um að sjúkraliðar eru ómissandi burðarstétt. Ég segi einfaldlega, innilegar þakkir, kæru sjúkraliðar, fyrir einstaka og frábæra frammistöðu. Hennar verður lengi minnst í sögu félagsins. Ég er stolt af ykkur – og þakklát.

Fulltrúaþing eru ekki síst til að fara yfir liðið starfsár og móta stefnu til framtíðar. Hér leggjum við línur og metum hvernig forystu og félagi tókst að hrinda stefnumálum í framkvæmd.

Á síðasta fulltrúaþingi héldum við áfram ítarlegri stefnumótunarvinnu. Við samþykktum skýra stefnu í mörgum mikilvægum málaflokkum. Við í forystunni höfum fylgt henni eftir af krafti með sterkum stuðningi félagsmanna. Það er mér því gleðiefni að geta sagt í dag að á árinu unnust mikilvægir áfangasigrar.

Ég vil sérstaklega nefna fernt. Í fyrsta lagi eru það mikil tíðindi að í samvinnu við Sjúkraliðafélagið luku stjórnvöld þróun tveggja nýrra námsleiða á háskólastigi. Starfandi sjúkraliðar munu senn útskrifast með diplómapróf eftir tveggja ára nám við Háskólann á Akureyri. Önnur námsleiðin, á sviði öldrunar- og heimahjúkrunar, hefst í haust, þegar tuttugu sjúkraliðar setjast á háskólabekk. Hin er á sviði samfélagsgeðhjúkrunar og hefst haustið 2022.

Í öðru lagi er svo sérstakt fagnaðarefni að nú hafa ný fagráð komist á legg við allar heilbrigðisstofnanir landsins. Sjúkraliðar eiga nú í fyrsta sinn aðkomu að stefnumótun um hjúkrun með sama hætti og aðrar fagstéttir. Við viljum hins vegar sækja lengra fram. Á þessu þingi verður kynnt tillaga forystunnar um útvíkkun fagráðanna til hjúkrunarheimila.

Í þriðja lagi er nú í undirbúningi stofnun þverfaglegs landsráðs um stefnumótun varðandi mönnun og menntun heilbrigðisþjónustunnar. Svipuð hugmynd var efni í eitt af mínum fyrstu samtölum sem formanns við okkar ágæta heilbrigðisráðherra. Með landsráðinu er komið til móts við mönnunarstefnu sjúkraliða en fyrsti vísir að henni var helsta mál síðasta fulltrúaþings. Þróun mönnunarstefnunnar verður kjölfestan í stefnumótun sjúkraliða næstu árin og við munum hvorki spara fjármagn, tíma, né atgervi til að verða leiðandi í þeirri umræðu.

Í fjórða lagi þá lukum við líka sögulegum kjarasamningum um styttingu vinnuvikunnar við alla viðsemjendur okkar.

Af þessum fjórum áföngum marka tveir algjör kaflaskil fyrir stéttina. Hinn fyrri, innleiðing háskólanáms, hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana. Árangur okkar á þessu sviði er einstakur, því Ísland verður fyrsta landið á Norðurlöndum þar sem sjúkraliðar geta styrkt sérhæfingu sína enn frekar og útskrifast á háskólastigi.

Síðari áfanginn, stytting vinnuvikunnar, tel ég, að muni móta verkalýðsbaráttu komandi áratuga. Hann mun um langa framtíð verða skráður á spjöld verkalýðssögunnar sem upphaf nýrra tíma. Þá er okkur hollt að muna, að innan BSRB voru það við, sjúkraliðar, sem höfðum forystu um styttingu vinnuvikunnar.

Mig langar að fjalla stuttlega um báða þessa áfanga. Námsbraut á háskólastigi var árum saman baráttumál félagsins. Við náðum gegnumbroti á síðustu klukkutímum samingalotunnar 2019 með því að neita að semja við ríkið, nema við fengjum inn sterka bókun um fagháskólanám. Bókunin náðist fram. Sjúkraliðar sömdu.

Þeir samningar tryggðu, að aldrei í sögu félagsins hefur kaupmáttur sjúkraliða verið jafn mikill og núna.

Það reyndist hins vegar þrautaganga að slíta fjármagn út úr ríkisvaldinu til að standa við loforðin um námsbraut á háskólastigi. Það tókst þó að lokum með miklu harðfylgi. Ég vil segja það alveg skýrt að þar munaði um stuðning tveggja sterkra kvenna í ríkisstjórn, þeirra Svandísar Svavarsdóttur, sem ávarpar okkur síðar á þessu þingi, og Lilju B. Alfreðsdóttur.

Fyrir það vil ég fyrir hönd sjúkraliða færa þeim bestu þakkir. Sjúkraliðar munu ekki gleyma þeirra liðsinni.

Ég, og Birna Ólafsdóttir, okkar fremsta manneskja í menntamálum félagsins, tókum svo sæti í sérstökum vinnuhópi sem mótaði og útfærði nýju námsbrautina. Þar reyndust sjúkraliðar líka eiga hauk í horni, í Arnrúnu Höllu Arnórsdóttur, formanni hópsins og doktorsnema, sem á sínum tíma skrifaði skýrsluna sem segja má að sé fræðilegur grundvöllur námsins. Hún á sérstakar þakkir skildar fyrir stuðning hennar við frumkvæði félagsins að þessum nýja menntamöguleika sjúkraliða.

Viðbótarmenntun á háskólastigi svarar kalli atvinnulífsins eftir aukinni fagþekkingu starfsfólks, og mætir um leið vaxandi kröfum sjúkraliða um framhaldsnám. Hún verður okkur stökkpallur til aukinnar sóknar innan heilbrigðiskerfisins.

Kæru félagar.
Áhersla félagsins á styttingu vinnuvikunnar án lækkunar launa er svar við eðlilegum kröfum nútímans um meiri tíma fyrir fjölskylduna og minna álag í starfi, sem oft er mjög krefjandi og líkamlega slítandi.

Innleiðingin hefur krafist gríðarlegrar vinnu, bæði af hálfu trúnaðarmanna, skrifstofu félagsins, auk sjúkraliða sjálfra. Verkefnið var risavaxið enda nær breytingin til níu þúsund opinberra starfsmanna. Fyrir dagvinnufólk þurfti að útfæra nýtt fyrirkomulag á hverjum vinnustað, meðan eitt kerfi þarf að útfæra fyrir alla sem vinna á vöktum.

Útgangspunkturinn var að stytting vinnuvikunnar á ekki að leiða til breytinga í launum. Það felur í sér að t.d. 80% starf í vaktavinnu verður eftir breytinguna metið í launum sem fullt starf hjá þeim sem eru með þyngri vaktabirgði. Þetta hefur verið baráttumál okkar sjúkraliða um langt skeið.

Vinnuvika vaktavinnufólks fer úr 40 stundum niður í 36 stundir. Á einu ári nemur styttingin því heilum mánuði í vinnu. Í sumum tilvikum getur vinnuvikan styst enn frekar, allt niður í 32 stundir. Allflestir sjúkraliðar hafa í gegnum tíðina verið í 80 til 90% hlutastarfi, enda reynslan sýnt að þar liggja þolmörkin fyrir vaktavinnufólk í okkar mikilvægu störfum.

Með breytingunum geta sjúkraliðar því í raun unnið jafnmargar stundir og áður, en starfshlutfallið, sem áður var 80 til 90%, breytist og verður nú metið sem fullt starf. Launin hækka í reynd sem því nemur. Kostnaðaraauki ríkisins vegna styttri vinnuviku er því áætlaður þrír til fjórir milljarðar króna, eða sem nemur 7% af heildarlaunakostnaði starfsmanna á vöktum. Það er kjaraávinningur okkar vegna styttingarinnar.

Margir sjúkraliðar voru eðlilega hugsi yfir innleiðingarferlinu og spurðu: Hvernig virkar nýja launamyndunin? Hvað verður um kaffitímagreiðslurnar? Hvernig fer með 11 stunda hvíldartímann? Afhverju er bannað að vinna kvöldvakt/morgunvakt? Af hverju má ekki vinna sjö næturvaktir í röð? Afhverju eru vaktirnar styttar niðrí 7 tíma, 6 tíma, jafnvel 5 tíma? Hvað er með vaktskrárnar? Hvað eru jöfn vinnuskil? Af hverju má ekki safna upp rauðum dögum og taka þá út sem vetrarfrí? Hvað er vaktahvati og hvernig virkar hann?

Stöðluð svör og tilbúið fræðsluefni gátu eðlilega ekki svarað öllum spurningum félagsmanna. Um leið kom Covid-19 í veg fyrir hefðbundið kynningarferli þegar kynningarþörfin var mest. Skjáfundir, persónuleg samskipti á facebook og í tölvupóstum, auk símtala, voru því helsti farvegur upplýsingamiðlunar frá skrifstofu félagsins.

Við þessar aðstæður stóðu starfsmenn á skrifstofunni sig einstaklega vel. Fyrir það vil ég þakka þeim sérstaklega í dag.

Innleiðingin mæddi þó ekki síður á okkar frábæru trúnaðarmönnum. Þeir voru lykilfólk á hverjum vinnustað við innleiðingu á styttingu vinnuvikunnar, og stóðu hvarvetna fast á okkar hlut þegar stjórnendur skildu ekki, eða rangtúlkuðu samningana. Við þetta tækifæri vil ég því færa trúnaðarmönnum sjúkraliða, sérstakar þakkir fyrir ótrúlega vaska frammistöðu í einu mikilvægasta verkefni félagsins.

Kæru félagar. Ég vil ræða hér þrjú mál, sem brýnt er að við setjum í forgang.

Í fyrsta lagi mönnunarmálin. Það er til stórra vansa að engin bindandi lágmarksviðmið eru til um mönnun stofnana. Við höfum gagnrýnt þetta stefnuleysi, m.a. í ályktun á síðasta fulltrúaþingi. Eftirlitsstofnanir eru okkur sammála – eins og kom fram í úttekt Ríkisendurskoðunar á sínum tíma.

Sömuleiðis gagnrýni ég hversu lítill skilningur virðist á mikilvægi sjúkraliða innan kerfisins. Engin úttekt, engin íslensk rannsókn, hefur verið gerð um fylgni milli hlutfalls sjúkraliða og gæða þjónustunnar. Þó eru skýrar vísbendingar um að þegar fagfólk skortir á hjúkrunarheimilum minnka gæði þjónustunnar. Þar hljóta sjúkraliðar að skipta verulegu máli þar sem nærhjúkrun er nær alfarið á okkar hendi.

Ég spyr,

  • Hvað kostar það samfélagið í beinhörðum fjármunum ef stofnanir skortir sjúkraliða?
  • Hvað kostar það sjúklinga og aldraða í lífsgæðum ef of fáir sjúkraliðar eru til að annast þá og hjúkra?

Í samfélagi sem vill vera í fremstu röð um heilbrigðisþjónustu er óboðlegt að geta ekki svarað þessum lykilspurningum.

Það eru hagsmunir skattborgaranna að vita hvað skortur á sjúkraliðum kostar þá í auknum útgjöldum. Það eru mannréttindi sjúklinga, ekki síst aldraðra, að vita hvað sá skortur kostar þá í lífsgæðum.

Í þessu samhengi skiptir það máli að skýrar vísbendingar eru um fylgni á milli gæðavísa á hjúkrunarheimilum og hlutfalls sjúkraliða. Sama gildir um hjúkrunarfræðinga. Það eru einfaldlega vondir stjórnunarhættir og skortur á framtíðarsýn að skoða þetta ekki til hlítar.

Ég skora því á stjórnvöld að gera ítarlega úttekt þar sem tengsl gæðavísa við hlutfall sjúkraliða, og annarra fagstétta, eru ítarlega rannsökuð. Nýja stefnu um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu verður meðal annars að byggja á niðurstöðum slíkra rannsókna.

Nýtt þverfaglegt landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu verður ekki marktækt nema það beiti sér fyrir vandaðri úttekt á tengslum milli gæða þjónustunnar og mönnunarhlutfalls menntaðra fagstétta, eins og sjúkraliða.

Í öðru lagi þurfa sjúkraliðar að skerpa áherslur á forgangsrétt stéttarinnar til sérhæfðra hjúkrunar- og umönnunarstarfa sem byggast á skilgreindum kröfum um menntun okkar. Þessi réttur er undirstaða okkar sem stéttar og kemur í veg fyrir að stjórnendur ráði ófaglært fólk í okkar störf. Forgangsrétturinn er því líka trygging sjúklinga fyrir gæðum þjónustunnar. Hann tryggir að þeim sé aðeins sinnt af starfsfólki sem uppfyllir menntunarkröfur laganna um nærhjúkrun.

Þess vegna er það skýlaus krafa okkar að undanþáguákvæði í reglugerð, sem stjórnendur skjóta sér á bak við, verði afnumið. Það var gert gagnvart hjúkrunarfræðingum og við hljótum að gera kröfu um hið sama fyrir sjúkraliða. Það er einföld leið til að bæta úr skorti á sjúkraliðum: Hún felst í að bæta kjör þeirra, en ekki með því að ráða ófaglært fólk á lægri launum í þeirra störf.

Í þriðja lagi tel ég að Sjúkraliðafélagið eigi að taka upp baráttu fyrir því að nýsamþykkt lög um fagráð á heilbrigðisstofnunum verði útvíkkuð, og fagráð með aðild sjúkraliða verði líka sett upp innan hjúkrunarheimila.

Sjúkraliðar hafa alltaf barist fyrir auknu öryggi sjúklinga. Í nýlegum úttektum Embættis landlæknis um hjúkrunarheimili koma fram dæmi um að á hjúkrunarheimilum starfi hvorki gæðastjórnandi né sérstök gæðastjórn. Í sumum tilvikum eru ekki verkferlar til staðar þegar bregðast þarf við slæmri niðurstöðu úr RAI mælingum, og stundum ekki heldur neinn umbótahópur sem á að vinna að viðeigandi úrbótum. Dæmi eru líka um að þó umbótahópar sé til staðar hafi aðrir starfsmenn ekki verið upplýstir um af tilvist þeirra.

Þessi staða kallar beinlínis á að fagráð verði líka sett upp á hjúkrunarheimilunum þar sem við, með fulltrúum annarra heilbrigðisstétta, getum nýtt okkar reynslu til að leggja fram tillögur um úrbætur sem tryggja betur gæði og öryggi þjónustunnar.

Það er líka okkar hlutverk, eins og ættmóðir hjúkrunar, Florence Nightingale, kenndi í verki.

Kæru félagar.
Ein dýrmætasta lífsreynsla mín sem formanns og sjúkraliða var á síðastliðnum vetri þegar ég skráði mig sem bakvörð í framlínu á Covid-deild Landspítalans. Ég gerði það bæði af því það vantaði sjúkraliða í framlínu – og líka af því mér fannst mikilvægt sem formanni félagsins að upplifa af eigin raun það mikla álag sem fylgir því að starfa með Covid-smitaða sjúklinga.

Ég var kölluð inn á lungnadeildina í Fossvogi eftir að smitið kom upp á Landakoti. Henni hafði þá verið breytt í Covid-deild. Álagið birtist í margvíslegum myndum. Allar sjúkrastofur á deildinni voru orðnar einangrunarstofur. Við, sem hjúkruðum smituðum, urðum að vera í þessum óþægilega hlífðarfatnaði, sem var ekki aðeins mjög krefjandi fyrir okkur, heldur ekki síður fyrir sjúklingana. Nándin, sem þeim og okkur er svo mikilvæg, hvarf.

Starfsfólkið lifði í ótta við mögulegt smit. Það óttaðist að bera smit inn á deildina, inn á heimili sín eða smita samstarfsfélaga. Óttinn braust fram í því að milli vakta einangraði fólk sig og fór í sjálfskipaða sóttkví. Það skar á öll félagsleg tengsl fyrir utan nánustu fjölskyldu, og stundum hana líka. Þetta er álag sem fólk skynjar ekki nema upplifa það sjálft.

Erlendis er nú að koma fram að þetta félagslega álag – sem var miklu meira en ég átti von á – getur brotist út með margvíslegu móti síðar meir, til dæmis í síþreytu, depurð og að lokum kulnun í starfi. Við þurfum því að fylgjast vel með líðan framlínufólks, og bjóða upp á úrræði til að koma í veg fyrir langvinnar afleiðingar af miklu álagi í framlínunni.

Starfið á Covid-deildinni fyllti mig af stolti yfir sjúkraliðastéttinni og hversu vel hún stóð sig. Ég var stolt af æðruleysinu, úthaldinu, og stolt af því hvernig sjúkraliðar stóðu sig við að hjúkra fárveikum Covid-sjúklingum við afar krefjandi aðstæður.

Faraldurinn felur sannarlega í sér dauðans alvöru. Ég veit það er skrítið að segja þetta en á hverri vakt upplifði ég gleði yfir því að sjá með eigin augun hversu vel mitt fólk, mín stétt, mínir einstöku sjúkraliðar stóðu sig í fremstu víglínu.

Góðir félagar.
Ég hika ekki við að segja að í dag er Sjúkraliðafélag Íslands  eitt öflugasta stéttarfélagið í heilbrigðisgeiranum. Við höfum þurft að berjast fyrir öllu. Í þeirri baráttusögu skipti máli að eiga öflugt og reynt forystufólk.  

Það vill svo til að í þeirri sögu eru ákveðin kaflaskipti núna.

Ein af okkar sterkustu stoðum, já, ein af eldsálum félagsins, Birna okkar Ólafsdóttir, mun í lok þessa mánaðar láta af störfum sem skrifstofustjóri hjá Sjúkraliðafélagi Íslands. Hún er ekki bara einn af frumkvöðlum og stofnendum félagsins, heldur hefur Birna starfað hjá okkur óslitið í 35 ár og alltaf staðið í fremstu víglínu. Fyrir mig, formann sem var blaut á bak við bæði eyru, voru það sérstök forréttindi að fá að starfa með Birnu, njóta reynslu hennar, leiðsagnar, og vináttu.

Félagið á eftir að þakka henni síðar á fundinum fyrir ómetanlegt framlag. Í þessari ræðu vil ég hins vegar þakka henni persónulega fyrir frábært samstarf síðustu þrjú árin, og segi frá dýpstu hjartans rótum:

Takk fyrir ómetnalegt samstarf Birna mín, takk fyrir að taka mér svona vel, við mun aldrei gleyma þínu mikla framlagi.

Kæru félagar.
Fyrir mig sem formann var starfsárið annasamt, krefjandi – en um leið frábærlega gefandi.

Sjúkraliðar eru í sókn.
Við höfum eflst sem stétt og uppskorið viðurkenningu samfélagsins á faglegu mikilvægi okkar sem lykilstétt í hjúkrun.

Við höfum náð sögulegum áföngum í réttindabaráttu sjúkraliða,

  • Það eru söguleg tímamót að hafa náð fram styttingu vinnuvikunnar.
  • Það eru söguleg tímamót að hafa náð fram námi á háskólastigi.
  • Það eru söguleg tímamót að sjúkraliðar eiga nú formlega aðild að fagráðum og taka þannig þátt í fyrsta sinn í að móta framtíðarsýn hjúkrunar á Íslandi.

Á þessu starfsári hefur okkur tekist að skerpa og styrkja faglega og stéttarlega ásýnd okkar.

Við erum í öflugri stefnumótun.
Við ætlum ekki að vera hornreka – heldur hornsteinn.
Við ætlum að hafa jákvæð og mótandi áhrif á þróun heilbrigðisgeirans.
Sjúkraliðar eru í sókn. – Við ætlum að halda því áfram!

Kæru félagar – kæru sjúkraliðar.

Ég vil að lokum þakka ykkur það traust sem þið sýnduð mér með endurkjöri án mótframboðs.

Ég vil þakka ykkur einstaklega jákvætt og gefandi samstarf á liðnu starfsári.
Þið eruð sómi heilbrigðiskerfisins og fyrir mig eru það forréttindi að fá að vinna með ykkur.

Kærar þakkir.

Til baka