Fréttir

Ræða formanns á 29. fulltrúaþingi

11 sep. 2020

Góðir félagar – kæru sjúkraliðar,

Fulltrúaþingið, sem ég set með þessum orðum mínum og ávarpa nú í annað sinn sem formaður, er haldið í skugga mestu heilbrigðiskreppu sem riðið hefur yfir heiminn í heila öld. Þingið átti upphaflega að halda í maí, en var frestað vegna Covid-19. Hér á landi er annarri bylgju farsóttarinnar því miður ekki lokið. Margir sjúkraliðar eru í framlínu og flestir gegna viðkvæmum störfum. Í ljósi þessa er því fulltrúaþing Sjúkraliðafélagsins haldið sem fjarfundar-þing í fyrsta sinn. Þegar farsóttin stóð sem hæst munaði svo sannarlega um framlag sjúkraliða. Frammistaða ykkar, kæru félagar, vakti alls staðar aðdáun. Okkar ágæti menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, sló naglann á höfuðið þegar hún sagði á Alþingi að í glímunni við Covid-19 hefðu sjúkraliðar verið ómissandi. Án sjúkraliða hefði árangurinn ekki orðið jafn frábær og raun bar vitni. Ég segi sem formaður ykkar: Þið eigið öll þakkir skildar fyrir frammistöðuna. Ég er virkilega stolt af ykkur.

Góðir félagar,
Síðasta starfsár var sannarlega viðburðaríkt. Það skilaði sögulegum árangri. Á þremur sviðum náðum við tímamótaáföngum. – Þeir varða styttingu vinnuvikunnar, – fagmenntun á háskólastigi – og ný fagráð í stað gömlu hjúkrunarráðanna. Hvað bein lífskjör varðar náðu sjúkraliðar góðum kjarasamningum í mars við mjög erfiðar aðstæður vegna Covid. Þeir samningar marka söguleg tímamót. Í þeim náðist marktæk stytting vinnuvikunnar. Og enn meiri stytting fyrir vaktavinnufólk. Sú áhersla skipti mestu máli fyrir sjúkraliða, þar sem um 90% stéttarinnar vinna á vöktum. Vinnuvika vaktavinnufólks mun styttast um 10%. Hún fer úr 40 stundum niður í 36 stundir. Á einu ári nemur styttingin heilum mánuði í vinnu. Í sumum tilvikum getur vinnuvikan styst enn frekar, allt niður í 32 stundir á viku.

Allflestir sjúkraliðar eru í 80 til 90% hlutastarfi þar sem mjög erfitt er fyrir sjúkraliða að vinna til lengri tíma í fullu starfi á vöktum. Þess vegna voru það við, sjúkraliðar, sem höfðum forystu um styttingu vinnuvikunnar innan BSRB. Stytting vinnuvikunnar var í algjöru samræmi við kröfur sjúkraliða,- um heilsubetra og fjölskylduvænna vinnuumhverfi. Innleiðinging á styttingu vinnuvikunnar er kerfisbreyting sem kallar á samvinnu og samstöðu í okkar röðum. Trúnaðarmenn okkar á hverjum vinnustað verða lykilfólk í þeirri vinnu. Á næstu mánuðum verður það helsta verkefni stéttarfélagsins að standa þétt við bakið á þeim.

Stytting vinnuvikunar fyrir fólk í dagvinnu er nú í undirbúningi hjá stjórnendum og yfirstjórnum stofnana og verður kynnt fyrir starfsmönnum á allra næstu vikum. Hún á að vera komin til framkvæmda um næstu áramót. Nýtt fyrirkomulag fyrir fólk sem vinnur á vöktum þarf að vera komið í gang fyrir 1. maí á næsta ári. Samráð með trúnaðarmönnum og fulltrúum á vinnustöðum vegna þeirra breytinga er nú þegar í undirbúningi. Í kjarasamningunum náðust líka fram góðar launahækkanir. Þær verða að meðaltali um 24% á samningstímanum sem er góð niðurstaða miðað við lífskjarasamningana. Mánaðarlegar launahækkanir verða um 90 þús krónur á samningstímanum, og í sumum tilvikum mun meiri. Sömuleiðis náðist fram mikilvægt heimildarákvæði sem tryggir í framtíðinni álagsgreiðslur við sérstakar aðstæður. Á það hefur þegar reynt vegna Covid-19. Í sumar fengu sjúkraliðar sem féllu undir ákvæðið kjarabót vegna framlags þeirra í Covid-fárinu. Það hefur varla farið framhjá nokkrum að búast megi við verulegum skakkaföllum í efnahagslífinu í kjölfar Covid-19. Þríþættar kjarabætur – í gegnum styttingu vinnuvikunnar, góðar launahækkanir og sérstakar álagsgreiðslur – verða því sterk kjaraleg viðspyrna fyrir sjúkraliða í þeim þrengingum sem stjórnvöld telja handan við hornið.

Góðir félagar,
Við höfum árum saman barist hart fyrir fagmenntun á háskólastigi og ekki alltaf mætt skilningi. Á síðasta spretti kjarasamninganna í mars, þegar verkfall vofði yfir, settum við hnefann í borðið og kröfðust bókunar um að háskólanámi yrði komið á fót. Ég ætla ekki að þreyta ykkur á því að telja upp alla þá fundi og símtöl sem ég átti með ráðherrum í kjölfarið. Í stuttu máli, glufan sem við náðum í samingunum á síðustu metrunum, dugði til að sprengja fyrirstöðu kerfisins. Í dag höfum við haft fullan sigur! – Í fyrsta sinn býðst nú sjúkraliðum fagnám á háskólastigi. Það er því sannarlega ástæða til að gleðjast! Fyrsta skrefið verður tekið strax á þessu ári með sérstöku undirbúningsnámi við Háskólann á Akureyri. Næsta haust, árið 2021, hefst svo 60 eininga diplómanám fyrir sjúkraliða við Háskólann. Um þessar mundir vinnur verkefnahópur hörðum höndum að því að ljúka gerð námskrár og ítarlegrar lýsingar á öllum námskeiðum sem verða í boði í diplómanáminu. Þeirri vinnu á að vera lokið fyrir 1. október næstkomandi. Í vinnuhópnum sit ég fyrir hönd Sjúkraliðafélagsins ásamt Birnu okkar Ólafsdóttir. Við munum beita okkur fyrir því að námsleiðin við Háskólann á Akureyri feli í sér fjölbreyttar leiðir til sérhæfingar sjúkraliða, eins og á sviði öldrunar- og heimahjúkrunar, geð- og samfélagshjúkrunar og í framtíðinni á fleiri sviðum. Ég tel líka að í framtíðinni eigi rannsóknir í nærhjúkrun sem miða að því að bæta gæði hjúkrunar að tengjast diplómanáminu. Þær eiga ekki síst að beinast að hlutverki sjúkraliða. Á því er full þörf eins og ég vík að síðar.

Kæru félagar,
Félagið gerði nýlega könnun á áhuga félagsmanna á nýja diplómanáminu. Niðurstöðurnar voru mjög afgerandi. Alls svöruðu 643 könnuninni. Af þeim höfðu 82% áhuga á að fara í námið. Þorstinn í aukna menntun speglast í því að 66% vilja helst hefja námið strax á næsta ári. Langmestur áhugi er á öldrunarhjúkrun og heilsugæslu og heimahjúkrun, eða 42%. – Um 22% hafa mestan áhuga á geð- og samfélagshjúkrun. Fyrir okkur sem nú erum að undirbúa námsleiðina er líka mjög gagnlegt að sjá að hátt hlutfall, eða 55%, telja eftirsóknarvert að eiga kost á nokkurra vikna undirbúningsnámi, einkum til að efla sig í faglegri ensku og tölvufærni. Merkilegasta niðurstaðan er þó líklega sú að um fjórðungur starfandi sjúkraliða hefur áhuga á að bæta við sig 60 eininga diplómanámi í faginu. Það er ótrúlega hátt hlutfall – og sýnir að félagið er á hárréttri leið með mikilli áherslu sinni á háskólanám fyrir sjúkraliða. Diplómanámið við Háskólann á Akureyri felur í sér að nú er í fyrsta sinn í boði samfelld námsleið fyrir sjúkraliða frá framhaldskólastigi yfir á háskólastig. Þetta mun í senn skerpa faglega ásýnd stéttarinnar, – efla færni sjúkraliða – og gera þeim kleift að axla aukna ábyrgð í starfi og taka að sér aukin stjórnunarhlutverk.

Kæru sjúkraliðar,
Stofnun fagráða með aðild sjúkraliða er þriðji sögulegi áfanginn sem sjúkraliðar fagna á árinu. Um leið verða gömlu hjúkrunarráðin lögð niður. Lögum samkvæmt voru hjúkrunarráðin ráðgefandi þegar hjúkrunarstefnan var mótuð innan stofnana. Þrátt fyrir að sjúkraliðar séu sannarlega orðnir ómissandi hjúkrunarstétt fyrir löngu var stéttinni alla tíð meinuð þátttaka í ráðunum. Mér er minnisstætt að mitt fyrsta verk sem formaður var að skrifa rökstudda beiðni um aðild sjúkraliða að hjúkrunarráði Landspítala. Sú beiðni hlaut ekki afgreiðslu ráðsins. Við skulum orða hlutina umbúðalaust: Þetta var niðurlæging gagnvart okkur sem stétt. Þetta var eitt af því sem var notað til að halda sjúkraliðum niðri sem hjúkrunarstétt. Mér sveið það líka fyrir okkar hönd þegar hjúkrunarráð Landspítalans gerði ekki ráð fyrir aðild sjúkraliða að alþjóðlegri hjúkrunarviku í minningu þess að 200 ár voru liðin frá fæðingu Florence Nightingale. Sú niðurstaða endurspeglaði að hjúkrunarráðin voru algjörlega komin úr takti við tímann.

Sjúkraliðar sinna í dag nærhjúkrun. Það er einmitt sú tegund hjúkrunar sem Florence Nightingale var frumkvöðull að. Ég, sjúkraliðinn Sandra B. Franks, sinnti nærhjúkrun með sambærilegum hætti og hún. Florence Nigthingale er þannig fagleg ættmóðir sjúkraliða eins og margra annarra fagstétta á heilbrigðissviði. Í mínum huga var þetta höfnun og táknrænt fyrir hversu úrelt hjúkrunarráðin voru orðin. Þessvegna fögnum við sjúkraliðar því innilega í dag að stefna okkar um ný fagráð allra heilbrigðisstétta er orðin að veruleika. Nýju fagráðin tryggja að sjúkraliðar munu í fyrsta sinn koma að mótun hjúkrunarstefnu jafnfætis öðrum hjúkrunarstéttum. Við þurfum að koma inn á þennan nýja vettvang með vel mótuð og jákvæð markmið. Fyrir fulltrúaþinginu liggur því ítarleg tillaga um hvernig Sjúkraliðafélagið ætti að standa að undirbúningi nýju fagráðanna.

Góðir sjúkraliðar,
Ég lít á mig sem þjónandi forystu. Enginn er fullkominn leiðtogi og til að ná rétta tóninum, finna réttu fjölina, þarf þjónandi forysta að hlusta. Ég hef í vaxandi mæli notað síðu félagsins á facebook til að miðla stöðu mála hratt og vel. Viðbrögð ykkar í gegnum hana hafa reynst mér mjög dýrmæt.

  • En get ég gert betur?
  • Á  forystan að beita sér með öðrum hætti?
  • Þarf skrifstofa félagsins að taka sig á?

Ég þarf ykkar viðhorf. Ég hef því ákveðið að leggja til að félagið ráðist í þjónustukönnun. Í henni verða félagsmenn spurðir hvernig þeim líkar þjónusta félagsins, störf formanns, skrifstofunnar, úrlausn erinda, og hvað megi betur fara. Ég hvet ykkur eindregið til að taka þátt þegar könnunin berst ykkur. Svör ykkar eru mikilvæg til að við getum bætt þjónustu félagsins.

Góðir sjúkraliðar,
Ég vil að lokum ræða þrjú mál, sem brýnt er að við setjum í forgang. Hið fyrsta er forgangsréttur sjúkraliða til sérhæfðra starfa. Hann var skýrt orðaður í sérlögunum frá 1984 og undirstrikaður í reglugerð um menntun, réttindi og skyldur sjúkraliða frá árinu 2013. Ákvæðið segir skýrum orðum að stjórnendum heilbrigðisstofnana sé óheimilt að ráða aðra en sjúkraliða til sérhæfðra umönnunar- og hjúkrunarstarfa nema áður hafi verið auglýst eftir sjúkraliðum. Þrátt fyrir þetta fæ ég sem formaður æ fleiri ábendingar frá sjúkraliðum um að verið sé að ráða fólk í störf sem ekki hefur til þess viðeigandi menntun né reynslu. Við þessu verður félagið að sporna. Annars munum við aðeins sjá stjórnendur fara lengra inn á þessa braut – ekki síst á tímum niðurskurðar. Hér er ekki einungis um hagsmunamál sjúkraliða að ræða. Lögverndun starfsheitis og forgangsréttur sjúkraliða voru líka leidd í lög til að tryggja skjólstæðingana, – þannig að hjúkrun og umönnun verði aðeins veitt af starfsfólki sem hefur til þess hæfni í krafti menntunar og starfsreynslu. Forgangsrétturinn tryggir því sjúklingum að þjónustan sem þeir fá nái lágmarksgæðum. Hann er því grundvallarþáttur í öflugu heilbrigðiskerfi. Stjórnendur heilbrigðisstofnana eiga því alltaf – og undanbragðalaust – að fylgja ákvæðinu um forgangsréttinn. Félagið mun ekki líða það að aðrir en sjúkraliðar verði ráðnir í störf á þeirra starfssviði. Við verðum að tryggja að það verði aldrei gert nema búið sé að reyna til þrautar að fá í störfin fólk með menntun sjúkraliða. Á því hefur verið misbrestur. Í tillögu sem liggur fyrir þinginu lýsir Sjúkraliðafélagið því skýrt yfir að við munum slá skjaldborg um forgangsréttinn. Hann er undirstaða stéttarinnar, og verður varinn með kjafti og klóm.

Í öðru lagi þarf félagið að marka skýra stefnu um mönnun heilbrigðiskerfisins. Þar ríkir því miður algert stefnuleysi af hálfu stjórnvalda. Engin lágmarksviðmið eru í lögum eða reglum af hálfu hins opinbera. Það eina sem er til eru viðmiðunarreglur frá Embætti landlæknis sem eru ekki bindandi. Þetta var gagnrýnt í úttekt Ríkisendurskoðunar fyrir nokkrum misserum. Þessar reglur um viðmið fela ekki heldur í sér neinar leiðbeiningar um hlutfall sjúkraliða. Ég gagnrýni það sérstaklega. Allar marktækar rannsóknir sýna að hlutfall fagmenntaðs starfsfólks skiptir sköpum um gæði þjónustunnar. Í úttektum frá Embætti landlæknis kemur til dæmis fram að á íslenskum hjúkrunarheimilum eru alveg skýr tengsl á milli skorts á fagfólki og lélegra gæða. Það er hins vegar sláandi að þeir sem sjá um úttektir og eftirlit með heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum virðast ekki gera sér grein fyrir hversu miklu lykilhlutverki sjúkraliðar gegna á okkar tímum innan heilbrigðiskerfisins. Þannig er enga íslenska rannsókn að finna sem beinlínis skoðar fylgni á milli gæða þjónustu og hlutfalls sjúkraliða. Þetta gagnrýni ég líka harðlega. Þetta skilningsleysi á mikilvægi sjúkraliða er furðulegt, ekki síst í ljósi skýrslu sem embætti landlæknis gerði við mótun mönnunarviðmiða árið 2015 fyrir hjúkrunarheimili. Þar koma fram skýrar vísbendingar um að gæði þjónustunnar, mælt út frá áhrifum mönnunar á útkomu RAI-gæðavísa, ráðast ekki síður af fjölda sjúkraliða en annarra fagstétta. Ég segi því sem formaður Sjúkraliðafélagsins: Það er löngu tímabært að eftirlitsstofnanir skoði gæði og kostnað í hjúkrunarþjónustu í tengslum við hlutfall sjúkraliða af mönnun. Opinbera kerfið – Embætti landlæknis og Ríkisendurskoðun – þurfa að skoða hvað það kostar samfélagið í lífsgæðum og fjármunum ef stofnanir eru undirmannaðar af sjúkraliðum.

Í framtíðinni mun þörfin fyrir fólk með okkar sérhæfingu stóraukast. Heilbrigðiskerfið hér á landi hefur alltaf þróast með sama hætti og á öðrum Norðurlöndum. Þar, eins og hér á landi, heldur meðalævin áfram að lengjast og þörf fyrir hjúkrun og umönnun aldraðra vex að sama skapi. Meðal frændþjóðanna er því svarað með stóraukinni áherslu á heimahjúkrun og heimaþjónustu. Ástæðan er einföld: Það er langódýrasta leiðin og við viljum öll vera heima sem lengst.

Á Norðurlöndum hafa fjárveitingar til þessara þátta stóraukist. Þær eru nú sem hlutfall af landsframleiðslu 8 – 15 sinnum hærri en hjá Íslendingum. Það sama mun gerast hér á landi. Þörfin fyrir sjúkraliða á Íslandi mun því aukast verulega á næstu árum og áratugum. Mönnun hjúkrunar og umönnunar mun því verða eitt stærsta viðfangsefni heilbrigðiskerfisins á næstu árum. Við þurfum að hafa áhrif á hvernig mönnunarmálin þróast. Í því liggja miklir hagsmunir stéttarinnar. Við þurfum því sem stétt að koma af myndugleika inn í umræðuna um mönnun helbrigðisgeirans í framtíðinni. Sjúkraliðar þurfa að taka jákvætt frumkvæði. Fyrsta skrefið að því er að undirbúa ítarlega stefnumörkun af hálfu félagsins. Tillaga um það kemur til afgreiðslu síðar á þessu þingi.

Þriðji þátturinn sem ég vil reifa er krafan um að aukin menntun stéttarinnar verði metin til meiri ábyrgðar, nýrra starfsleiða, og bættra kjara. Fáar stéttir í heilbrigðiskerfinu hafa hafi sýnt jafn mikinn metnað til að auka færni sína í starfi eins og við sjúkraliðar. Hátt á sjöunda hundrað sjúkraliða sækja árlega sérhæfð námskeið á vegum Framvegis – okkar frábæru símenntunarstöðvar. Þetta er ótrúlega hátt hlutfall. Þessu til viðbótar hefur fjórðungur stéttarinnar lýst áhuga á háskólanámi í faginu eins og ég rakti fyrr. Sagan sýnir hins vegar að aukin menntun sjúkraliða hefur ekki verið metin að verðleikum. Arnrún Halla Arnórsdóttir, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, fjallar um þetta í skýrslu sem kom út í febrúar 2019 um Fagnám á háskólastigi fyrir sjúkraliða. Þar kemur skýrt fram, að stjórnendur í heilbrigðiskerfinu hafa ekki svarað aukinni menntun stéttarinnar með nýjum starfslýsingum, nýjum starfsleiðum eða nýjum tækifærum til aukins starfsframa.

Fyrsta verk mitt sem fulltrúa félagsins í verkefnahóp um undirbúning diplómanámsins var því að óska eftir – og fá samþykkt – að fulltrúi frá atvinnulífinu – þeirra sem stjórna innan heilbrigðiskerfisins – kæmi inn í hópinn. Það gerði ég vegna þess að það er mjög mikilvægt fyrir okkur að stjórnendur í kerfinu geri sér grein fyrir því nýja atgervi sem verður til með háskólamenntuðum sjúkraliðum. Þeir verða að skilja að með þeim verður til ný auðlind innan kerfisins. Sjúkraliðar eru nefnilega vannýtt auðlind. Eitt af svörunum við mönnunarvanda kerfisins er að veita sjúkraliðum aukna ábyrgð í starfi. Ég nefni til dæmis við lyfjagjafir og aukin stjórnunarstörf við teymavinnu. Þannig er hægt að frelsa kraftinn sem býr í sjúkraliðum og kerfið er ekki að nota.

Við eigum ekki að vera hrædd við að taka að okkur aukna ábyrgð. En kerfið þarf að veita okkur svigrúm til þess. Það er til lítils ef sjúkraliðar mennta sig með sérhæfðum námskeiðum hjá Framvegis og með háskólanámi ef stjórnendur í heilbrigðiskerfinu svara því ekki með nýjum starfsleiðum, auknum starfsframa og umbun í samræmi við aukna menntun. Þetta verður einn af áhersluþáttum okkar á komandi misserum og árum.

Góðir félagar,
Sjúkraliðar eru sem stétt í mikilli sókn. Á undanförnum árum höfum við eflst og birst sem lykilstétt í hjúkrun. Ég hika ekki heldur við að segja að í dag erum við eitt öflugasta stéttarfélagið í heilbrigðisgeiranum. Við eigum sannarkega glæsta baráttusögu. Í gegnum hana höfum við þurft að berjast fyrir öllu og aldrei fengið neitt ókeypis. Þegar betur gengur skulum við ekki gleyma þeim sem lögðu grunn að okkar kraftmikla stéttarfélagi í dag. Ég nefni þar einkum forvera minn Kristínu Á Guðmundsdóttur, sem leiddi okkar félag í 30 ár. Mitt annað starfsár sem formaður ykkar var annasamt og krefjandi. Mínir fyrstu kjarasamningar voru eldskírn. En vinnan var ekki til einskis. Við náðum góðum samningum sem þið samþykktuð með góðum meirihluta. Við náðum líka sögulegum áföngum í réttindabaráttu sjúkraliða:

  • Það eru tímamót að hafa náð fram í fyrsta skipti í sögunni styttingu vinnuvikunnar.
  • Það eru tímamót að nú eigum við í fyrsta skipti kost á háskólanámi fyrir sjúkraliða.
  • Það eru tímamót að standa von bráðar í fyrsta sinn jafnfætis öðrum hjúkrunarstéttum í nýjum fagráðum.

Á þessu starfsári höfum við því skerpt faglega og stéttarlega ásýnd okkar. Sjúkraliðar eru í sókn! – Ég held að Florence Nightingale væri stolt af okkur í dag. Ég vil að lokum, kæru félagar, þakka ykkur dásamlegt samstarf á liðnu starfsári. Það verður hver manneskja betri af því að vinna með fólki eins og ykkur.

Kærar þakkir.

Til baka