Fréttir

Orlofsíbúðir í Reykjavík boðnar sjúkraliðum í Grindavík

17 nóv. 2023

Eins og kunnugt hafa Grindvíkingar þurft að yfirgefa heimili sín vegna náttúruhamfara. Óvíst er hvenær neyðarstigi Almannavarna verður aflétt og hvort eða hvenær Grindvíkingar geta snúið aftur heim. Vegna þessa hefur verið lokað fyrir útleigu á íbúðunum í Reykjavík fram yfir áramót, og er leitast við að rýma þær ef mögulegt er.

Óskað er eftir að þeir sem nú þegar eiga bókaða íbúð og mögulega geta afturkallað leiguna hafi samband við skrifstofu félagsins. Unnið er að því að hnika til bókunum þannig að hægt sé að losa eina eða tvær íbúðir, og bregðast þannig við sárri neyð Grindvíkinga.

Þeir sem eiga brýnt erindi til Reykjavíkur, s.s. vegna læknisheimsókna, og eru með bókaða íbúð, eru vinsamlega beðnir um að hafa samband við skrifstofuna með tölvupósti á netfangið slfi@slfi.is. Kannað verður hvort endurgjaldslaus dvöl á hóteli muni henta í stað orlofsíbúðar.

Þessi aðgerð hefur verið í undirbúningi síðustu daga en forsvarsfólk Sjúkraliðafélags Íslands hefur meðal annars fundað með Almannavörnum, Rauða krossinum og Framkvæmdasýslu ríkiseigna.

Það er von okkar að félagsmenn sýni þessum aðgerðum umburðarlyndi og skilning. Hugur okkur allra er hjá Grindvíkingum.

Bestu kveðjur, starfsfólk Sjúkraliðafélags Íslands

Til baka