Fréttir

Opinberir starfsmenn í lykilhlutverki eftir faraldurinn

23 jún. 2021

Endurskipuleggja þarf umönnunarstörf og berjast gegn einkavæðingu

Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur sýnt fram á mikilvægi opinberra starfsmanna og eytt goðsögnum á borð við þær að auðvelt og hagkvæmt sé að einkavæða almannaþjónustu og að ekki sé réttlætanlegt að auka útgjöld í samfélagsleg málefni. Opinberir starfsmenn munu einnig gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að koma samfélaginu út úr kreppunni sem faraldurinn kallaði yfir heimsbyggðina.

„Klappið hefur ekki leitt til þess að laun hafi hækkað eða starfsaðstæður batnað og við þurfum að halda áfram að berjast fyrir því að það verði raunin.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu PSI, alþjóðlegra heildarsamtaka opinberra starfsmanna, sem BSRB á aðild að, á alþjóðlegum degi opinberra starfsmanna, sem haldinn er 23. júní ár hvert.

Kynjasjónarmið verða að vera í forgrunni þegar unnið verður úr afleiðingum heimsfaraldursins í almannaþjónustunni. Í yfirlýsingunni er einnig kallað eftir því að umönnunarstörf verði endurskipulögð og endurhugsuð, barist verði gegn einkavæðingu og hagnaðardrifnum rekstrarformum í almannaþjónustu. „Í heimsfaraldrinum hefur almenningur endurmetið hvað það er sem skiptir máli; fjölskylduna, heilsuna, menntun og stöðugleika og hversu mikið þessi atriði reiða sig á opinbera þjónustu,“ segir í yfirlýsingunni. Þar segir jafnframt að það dugi ekki að klappa fyrir framlínufólkinu og þakka þeim fyrir.

PSI mun einnig berjast fyrir auknu gagnsæi í skattamálum svo þær gríðarháu fjárhæðir sem fyrirtæki fela í skattaskjólum verði skattlagðar með sanngjörnum hætti og nýtist til að endurbyggja almannaþjónustuna. Í yfirlýsingunni er ákvörðun G7-ríkjanna um að lágmarsskattur á fyrirtæki verði 15 prósent gagnrýnd og kallað eftir því að hlutfallið verði hækkað í að minnsta kosti 25 prósent.

Til baka