Fréttir

Ný reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstétta

28 maí. 2020

Heilbrigðisráðherra hefur sett nýja reglugerð sem felur í sér innleiðingu Evróputilskipunar um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og Sviss. Reglugerðin öðlaðist gildi 27. maí. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð mennta- og menningarmálaráðherra um sama efni nr. 461/2011.

Markmið reglurgerðarinnar er að einstaklingi, sem hefur aflað sér faglegrar menntunar og hæfis til starfs í einu af aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eða Sviss, er heimilt að stunda það starf hér á landi með sömu réttindum og skyldum og íslenskir þegnar. Sækja þarf um viðurkenningu til að gegna starfi til hlutaðeigandi stjórnvalds hér á landi. Við afgreiðslu umsóknar skal gengið úr skugga um að fagleg menntun og hæfi umsækjanda uppfylli skilyrði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB.

Reglugerð þessi gildir þegar lagt er mat á hvort ríkisborgari á Evrópska efnahagssvæðinu eða Sviss uppfyllir skilyrði um menntun og starfsreynslu til þess að gegna lögvernduðu starfi hér á landi. Reglugerðin á einnig við þegar aðili óskar eftir að veita þjónustu á sviði sem fellur innan lög­verndaðs starfs.
Heimilt er að beita málsmeðferðarreglum reglugerðarinnar gagnvart ríkisborgurum annarra ríkja en aðildarríkja samningsins um Evrópska efnahagssvæðið

Vinna við meðfylgjandi reglugerð hefur staðið yfir um alllangt skeið en hún er m.a. mikilvægur liður í framkvæmd nýrra laga um breytingu á lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi.

Helstu nýmæli reglugerðarinnar felast í eftirtöldum atriðum:

  • Upptöku evrópsks fagskírteinis (e. European Professional Card, EPC) fyrir einstakar starfsgreinar sem ætlað er að greiða fyrir för starfsmanna á innri markaðnum og auðvelda viðurkenningu á faglegri menntun.
  • Tilteknu fyrirkomulagi varðandi viðvaranir, en aðildarríkin eiga að tilkynna lögbærum yfirvöldum aðildarríkjanna þegar starfsréttindi eru takmörkuð í heild eða að hluta innan þriggja daga.
  • Möguleikum starfsnámsnemenda á að fá viðurkennt vinnustaðanám innan löggiltra starfsgreina sem fer fram annars staðar en í heimalandinu.

Reglugerðin gerir ráð fyrir að þeir einstaklingar, sem fá viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, búi yfir þeirri tungu­mála­kunnáttu sem nauðsynleg er til að geta lagt stund á starfið á Íslandi. Athugun þessi getur aðeins farið fram eftir útgáfu evrópsks fagskírteinis skv. 8. gr. reglugerðarinnar, eða eftir að viðurkenning hefur verið veitt. Athugun á tungumála­kunnáttu er heimil ef starfsgreinin sem um ræðir varðar m.a. lýðheilsu og öryggi sjúklinga.

Reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi.

Til baka