Fréttir

Leiðréttum verðmætamat á störfum kvenna

5 okt. 2021

Sjúkraliðafélags Íslands hefur skilað inn umsögn um drög að skýrslu og tillögum starfshóps um verðmætamat kvennastarfa og endurmat á virði kvennastarfa.

Félagið fagnar útgáfu skýrslunnar og umsagnarferlinu í samráðsgáttinni. Launamunur kynjanna hefur verið til umræðu á Íslandi, og víðar, áratugum saman. Gripið hefur verið til ýmissa aðgerða í því skyni að ná fram launajafnrétti og rannsóknir sem gerðar hafa verið á launamun kynjanna sýna að laun karla eru almennt hærri en laun kvenna. Þessi kynbundni launamunur er meðal annars tilkominn vegna kynskipts vinnumarkaðar og þeirrar staðreyndar að konur og karlar gegna mismunandi störfum.

Laun eru almennt lægri hjá þeim starfsstéttum þar sem konur eru í meirihluta en bent hefur verið á að konur frekar en karlar vinna í nánum samskiptum við annað fólk sem veldur bæði tilfinningalegu álag og skapar óáþreifanleg verðmæti fyrir samfélagið. Hefðbundin karlastörf hins vegar fela oft í sér sköpun á áþreifanlegum verðmætum. Þessi munur ýtir undir ólíkt virðismat á þessum störfum. Sjúkraliðastéttin er ein þeirra stétta sem vinnur í nánum samskiptum við fólk og skapar óáþreifanleg verðmæti en um 98% sjúkraliða eru konur. Rekja má stóran hluta launamunar til kynskipts vinnumarkaður og kynjaskekkju í mati samfélagsins á hefðbundnum kvenna- og karlastörfum.

Við sjúkraliðar, þessi stóra kvennastétt, eigum tilkall til réttlátra launa fyrir þau störf sem við innum af hendi. Vanmat á störfum stéttarinnar hverfur ekki sjálfkrafa. Framangreind framganga stjórnvalda er þó sannarlega skref í rétta átt. Það þarf að grípa til aðgerða sem miða að því að mat samfélagsins á verðmæti þeirra starfa sem konur í meirihluta sinna verði sambærilegt mati á verðmæti þeirra starfa sem karlar í meirihluta sinna. Til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði þurfum við sem samfélag að ákveða að verðmæti starfa sé metið að jöfnu hvort heldur sem konur eða karlar sinni þeim.

Kvennastéttir eiga tilkall til réttlátra launa fyrir þau störf sem þær inna af hendi

Sjúkraliðafélag Íslands áreittar mikilvægi þess að aðkoma stéttarfélaga og starfsmanna að þróunarverkefni virðismatskerfi starfa. Án gagnsæis og aðkomu starfsfólks stéttarfélaga og félaga þeirra skapast ekki traust á því að kerfið sé sanngjarnt. Það er á ábyrgð atvinnurekanda að laun séu jöfn fyrir jafnverðmæt störf en mikilvægt er að starfsfólk treysti því að vel sé að málum staðið.

Hér má lesa umsögn Sjúkraliðafélags Íslands í heild sinni.

Til baka