Fréttir

Látið reyna á rétt fólks í sóttkví í orlofi fyrir dómi

10 jan. 2022

BSRB mun í samstarfi við önnur heildarsamtök launafólks höfða mál gegn ríki og sveitarfélögum vegna túlkunar á því hvernig ber að standa að greiðslum fyrir starfsfólk sem þarf að fara í sóttkví þegar það er í orlofi.

Bæði ríkið og sveitarfélögin telja að starfsfólk sem er í orlofi en þarf að fara í sóttkví eigi að ganga á orlofsdaga sína á meðan það er í sóttkví. BSRB og önnur samtök launafólks telja hins vegar að starfsfólk eigi rétt á að fresta orlofstöku sé því gert að sæta sóttkví.

BSRB, Alþýðusamband Ísland, Bandalag háskólamanna, Félag Íslenskra hjúkrunarfræðinga, Kennarasamband Íslands og Læknafélag Íslands sendu seint á síðast ári erindi á Kjara- og mannauðssýslu ríkisins til að freista þess að skýra réttarstöðu starfsfólks sem gert hefur verið að sæta sóttkví í orlofi sínu. Í svari frá Kjara- og mannauðssýslu kom fram að ekki yrði horfið frá þeirri túlkun að starfsfólk geti ekki frestað orlofi sé því gert að sæta sóttkví.

Þar sem ekki hefur tekist að ná sátt um túlkun á lögum í þessu máli er ekki um annað að ræða en að höfða mál til að fá úr því skorið hvort túlkun samtaka launafólks eða ríkis og sveitarfélaga í þessu máli er í samræmi við lög.

Til baka