Fréttir

Kvenréttindadagurinn19. júní. Frumvarp um jafnlaunastaðal kynnt

20 jún. 2012

alt
Kvenréttindadagurinn var haldinn hátíðlegur í gær 19. júní. Haldinn var fundur á Grand hóteli Reykjavík þar sem  kynnt var frumvarp til laga um jafnlaunastaðal. Á síðustu árum hefur mikil óánægja verið með það að ekki hafi gengið eftir að eyða óútskírðum  launamun kynjanna. Atvinnurekendur hafa svarað því að erfitt sé um vik þar sem skortur sé á tæki til þess að sjá til þess að konur og karlar séu með jöfn laun. 
Til þess að koma á móts við þessar ábendingar hefur staðall um launajafnrétti verið þróaður. Þetta kom fram hjá Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra er hún opnaði fyrir umsagnir um frumvarpið um jafnlaunastaðal sem ætlaður er sem tæki í baráttunni gegn launamun kynjanna. Staðallinn er afrakstur starfs aðila vinnumarkaðarins í samvinnu við stjórnvöld og Staðlaráð Íslands. Fulltrúi BSRB í tækninefnd um jafnlaunakerfi er Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur bandalagsins. Slíkur staðall hefur ekki verið gerður áður og hefur vakið mikla athygli annarra landa, einkum nágrannaþjóða okkar. Aðdraganda starfsins má rekja til þess að árið 2008 samþykkti Alþingi að fela þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra (nú velferðarráðherra) að sjá til þess að þróað verði sérstakt vottunarkerfi á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og framkvæmd stefnu um jafnrétti við ráðningar og uppsagnir í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins með bráðabirgðaákvæði við lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Sama ár gerðu Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins (SA) með sér samkomulag um að þróað yrði vottunarferli sem fyrirtæki geti nýtt sér og feli í sér vottun á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og jafna möguleika kynjanna til starfa og starfsþróunar.
Óskað var eftir því að  Staðlaráð Íslands hefði umsjón með gerð staðals um framkvæmd stefnu um launajafnrétti og jafna möguleika kynjanna til starfa og starfsþróunar sem gæti nýst sem undirstaða vottunar. Erindið var samþykkt af stjórn Staðlaráðs og var stofnuð tækninefnd um jafnlaunakerfi 26. nóvember 2008. Tækninefndin skipaði vinnuhóp sem sá um að semja staðalfrumvarpið sjálft og naut hann liðsauka nokkurra sérfræðinga til að semja viðauka staðalsins.

Afrakstur þriggja og hálfs árs starfs er frumvarpið um jafnlaunakerfi sem nú er opið öllum sem óska aðgangs til umsagnar. Hægt er að óska eftir tímabundnum rafrænum aðgangi að frumvarpinu að staðlinum ÍST 85Jafnlaunakerfi – Kröfur og leiðbeiningar á umsagnartíma, frá 19. júní til 20. september 2012. Slíkur aðgangur er án endurgjalds en umsóknarblaðið er að finna hér.

Athugasemdir við frumvarpið ber að senda til Guðrúnar Rögnvaldardóttur hjá Staðlaráði Íslandsgudrun@stadlar.is fyrir 20. september 2012.

Til baka