Fréttir

Kvennaverkfall boðað 24. október

16 okt. 2023

Á fjórða tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og launafólks blása til heils dags kvennaverkfalls þann 24. október næstkomandi.

Sjúkraliðafélag Íslands hvetur alla sjúkraliða sem geta að leggja niður störf. Sleppa á öllu sem gæti talist til starfa hvort sem er átt við launaða vinnu, eða ólaunaða líkt og umönnun barna, sinna heimilinu eða þriðju vaktina svokölluðu. Sjúkraliðar hvattir til mæta á útifundi á Arnarhóli eða í sinni heimabyggð og sýna samstöðu í verki.

Þótt mikið hafi áunnist frá árinu 1975 hefur ekki verið orðið við þeirri meginkröfu að störf kvenna séu metin að verðleikum. Atvinnutekjur kvenna eru enn 21% lægri en karla og hefðbundin kvennastörf eru talsvert verr launuð en karlastörf. 97% sjúkraliða eru konur og sjúkraliðar, sem og annað fólk sem starfar við þjónustu við veikt fólk, fatlaða og aldraða, eru á einna lægstu launum í íslensku samfélagi. Atvinnuþátttaka kynjanna er svipuð — en ábyrgð þeirra á heimilishaldi og umönnun er enn afar ójöfn. Þá verður ekki beðið lengur eftir róttækum aðgerðum gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi sem yfir 40% kvenna verða fyrir á lífsleiðinni, en trans fólk, þ.m.t. kvár, konur með fötlun og konur af erlendum uppruna verða fyrir enn meira ofbeldi en aðrir hópar.

Upplýsingar um kvennaverkfall er að finna hér.

Til baka