Fréttir

Kjörsviði samfélagsgeðhjúkrunar við HA

15 mar. 2022

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í fagháskólanám fyrir starfandi sjúkraliða við Háskólann á Akureyri. Námið er ætlað sjúkraliðum sem vilja auka þekkingu sína og efla starfshæfni í geðheilbrigðisþjónustu, endurhæfingu og heimahjúkrun. Nám á kjörsviði samfélagsgeðhjúkrunar hefst haustið 2022 og hægt að sækja um námið til 5. júní n.k.

Efla sjálfstæði sjúkraliða
Kjörsvið samfélagsgeðhjúkrunar er 60 ECTS eininga sveigjanlegt nám sem dreift er á tvö ár og er því gert ráð fyrir að samhliða náminu séu nemendur í sjúkraliðastöðum innan heimahjúkrunar, endurhæfingar- eða geðdeilda. Áherslan í náminu er á viðbótar klíníska færni, styrkingu fagmennsku, og aukna samskipta-, fræðslu- og stjórnunarhæfni. Meginmarkmið kjörsviðs samfélagsgeðhjúkrunar er að styrkja og auka þekkingu og færni starfandi sjúkraliða á þörfum einstaklinga með geðsjúkdóma og fjölskyldna þeirra. Áhersla er á geðhjúkrun, fjölskylduhjúkrun og persónumiðaða nálgun í heildrænni umönnun skjólstæðinga og aðstandenda þeirra. Náminu er ætlað að bæta þekkingu á notkun mismunandi aðferða til samskipta og tryggja þannig gæði í meðferð og fræðslu. Einnig er lögð áhersla á aukna þekkingu á geðsjúkdómum og lyfjafræði tengda þeim, aukna færni sjúkraliða sem hópstjóra og þátttakenda í þverfaglegum teymum. Námið veitir þekkingu á skipulagi og virkni þjónustukerfa sem eru í boði fyrir þennan hóp, auk notkunar velferðartækni. Tilgangurinn er að mennta sjúkraliða til fjölþættra starfa innan heilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga með geðsjúkdóma og fjölskyldur þeirra, svo sem á geðdeildum, endurhæfingardeildum og við heimahjúkrun og víkka starfsmöguleika þeirra innan sem utan heilbrigðiskerfisins.

Unnið hefur verið að nýju kjörsviði samfélagsgeðhjúkrunar innan námsbrautar fagnáms til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða innan Heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Námsbrautin bíður uppá fagnám á háskólastigi til diplómaprófs fyrir útskrifaða og starfandi sjúkraliða á tveimur kjörsviðum. Fyrsta sérhæfing námsbrautarinnar, var á kjörsviði öldrunar- og heimahjúkrunar.
Það nám hófst haustmisserið 2021 og voru 20 nemendur teknir inn. Núna verður boðið uppá annað kjörsvið innan námsbrautarinnar, í samfélagsgeðhjúkrun og verða 20 nemendur teknir inn í það nám haustið 2022. Haustið 2023 verða síðan teknir nemendur inn á bæði kjörsviðin, 20 nemendur á hvort kjörsvið.

Allar nánari upplýsingar veitir Hafdís Skúladóttir brautarstjóri í netfanginu hafdis@unak.is
Nánari upplýsingar um námið í samfélagsgeðhjúkrun er að finna á heimasíðu Háskólans á Akureyri.

Til baka