Veikindaréttur

Réttur starfsmanna til launa í veikindum fer eftir starfsaldri þeirra og ráðningarformi.

Hver er veikindaréttur sjúkraliða sem ráðinn er ótímabundið hjá ríkinu, sveitarfélagi eða SFV?

Starfsmenn sem ráðnir eru ótímabundið hjá hinu opinbera, sveitarfélagi eða SFV eiga rétt á að halda fullum launum í veikindum í ákveðinn tíma sem tekur mið af starfsaldri. Starfsmaður heldur launum svo lengi sem veikindadagar hans verða ekki fleiri á 12 mánuðum en eftirfarandi:
0-3 mánuði í starfi: 14 dagar
Næstu 3 mánuði í starfi: 35 dagar
Eftir 6 mánuði í starfi: 119 dagar
Eftir 1 ár í starfi: 133 dagar
Eftir 7 ár í starfi: 175 dagar
Eftir 12 ár í starfi: 273 dagar
Eftir 18 ár í starfi: 360 dagar

Átt er við almanaksdaga en ekki vinnudaga, þ.e. virka daga eða daga sem falla á vaktskrá.

Hver er veikindaréttur sjúkraliða sem ráðinn er í tímavinnu hjá ríkinu, sveitarfélagi eða SFV?

Tímavinnufólk á styttri veikindarétt en þeir sem eru ráðnir til starfa á mánaðarlaunum og er veikindaréttur þeirra eftirfarandi:

Á 1. mánuði í starfi: 2 dagar
Á 2. mánuði í starfi: 4 dagar
Á 3. mánuði í starfi: 6 dagar
Eftir 3 mánuði í starfi: 14 dagar
Eftir 6 mánuði í starfi: 30 dagar

Hér er átt við almanaksdaga en ekki vinnudaga og starfsmenn halda sínum launum.

Veikindaréttur miðast við 12 mánuði aftur í tímann. Þannig ef starfsmaður veikist er talið 12 mánuði aftur og þeir veikindadagar sem hann hefur tekið á því tímabili dragast frá.

Lausn frá störfum vegna heilsubrests

Um lausnarlaun er fjallað í kjarasamningum opinberra starfsmanna.
Leysa má starfsmanninn frá störfum vegna heilsubrests þegar hann hefur verið samfellt frá vinnu vegna veikinda eða slysa launalaust í jafnlangan tíma og hann átti rétt á að halda launum. Skal það gert með bréfi þar sem starfsmanninum er jafnframt skýrt frá því að hann fái greidd lausnarlaun sem eru föst laun í 3 mánuði.

Hver er réttur eftirlifandi maka til launa látins starfsmanns?
Maki látins starfsmanns rétt á föstum launum (föst laun eru mánaðarlaunin og föst yfirvinna en ekki t.d. bílastyrkur eða óregluleg yfirvinna) í þrjá mánuði og síðan er gert upp við hann það sem er áunnið eins og orlof, hlutdeild í desemberuppbót, orlofsuppbót o.s.frv.

Nánar er fjallað um lausnarlaun hér.

Veikindi, slys og uppsagnarfrestur

Starfsmenn njóta sömu kjara á uppsagnarfresti eins og áður og á það einnig við um veikindarétt. Ef veikindi standa lengur en uppsagnarfresti nemur skiptir máli hvort veikindin hafi hafist fyrir eða eftir uppsögn.

Ef veikindi hefjast fyrir uppsögn ber starfsmanni réttur til greiðslu samkvæmt áunnum veikindarétti þó svo að veikindi standi lengur en uppsagnarfrestur eða biðlaunaréttur. Starfsmaður á þannig rétt til launa eins lengi og óvinnufærni stendur, óháð því hversu lengi uppsagnarfrestur stendur, eða þar til veikindaréttur hans er fullnýttur.

Ef veikindi hefjast eftir uppsögn lýkur veikindarétti um leið og ráðningarsambandinu lýkur formlega við starfslok. Þá stendur bara eftir starfslokauppgjör vegna áunninna réttinda, svo sem orlofs og frítökuréttar.

Ef starfsmaður hefur lent í vinnuslysi, slysi á leið til eða frá vinnu eða atvinnusjúkdómi verður réttur hans til launa ekki skertur með uppsögn og heldur starfsmaður launagreiðslum svo lengi sem slysaréttur hans nær og óvinnufærni stendur.

Hlutaveikindi

Í kjarasamningum hjá ríki og sveitarfélögum er heimildarákvæði um hlutaveikindi. Það ákvæði er einnig að finna hjá mörgum þeim ohf. fyrirtækjum og sjálfseignarstofnunum sem aðildarfélög BSRB semja við en almennt er ekki slíkt ákvæði í kjarasamningum á almenna markaðnum.

Starfsmenn þurfa leyfi yfirmanns til að vinna skert starfshlutfall og oft er um að ræða tímabundið ástand. Ákvæðinu er t.d. oft beitt þegar starfsmaður hefur verið frá vinnu um lengri tíma og fær aðlögunartíma þegar hann kemur til baka til starfa, með því að vinna skert starfshlutfall í nokkrar vikur.

Þegar starfsmaður er í hlutaveikindum eru veikindi talin líkt og um tvo starfsmenn sé að ræða. Hann fær því laun fyrir það hlutfall sem hann vinnur, en veikindagreiðslur fyrir hitt hlutfallið og dragast þeir frá áunnum veikindarétti hans.

Fæ ég þá daga greidda sem fara í að sækja læknisþjónustu utan heimabyggðar?

Það eru engin ákvæði í kjarasamningum um greiðslur til starfsmanna þegar þeir fara til læknis í vinnutíma, en raunin er sú að vinnuveitendur leyfa fólki almennt að skreppa frá vegna slíkra erinda eða annarra sem útilokað er að sinna nema á vinnutíma, án þess að draga frá launum þess eða að fara fram á að viðkomandi vinni af sér.

Á að telja veikindadaga þegar starfsmaður hefur tæmt veikindarétt sinn?

Alla veikindafjarvist ber að skrá hvort sem hún er launuð eða ólaunuð.

Á stofnun að halda skrá um veikindadaga starfsmanna?

Halda skal skrá yfir veikindadaga starfsmanns við hverja stofnun. Ef starfsmaður flyst milli starfa, skal leggja saman veikindadaga hans í báðum störfum eftir því sem við á.
Við túlkun á ákvæðinu er rétt að líta til þess hvort við mat á ávinnslurétti starfsmanns beri að taka tillit til þess starfs sem viðkomandi gegndi áður, þ.e. hvort hann hafi starfað hjá annarri ríkisstofnun, hjá sveitarfélagi eða sjálfseignarstofnun sem kostuð er að meirihluta til af almannafé. Ef svo er þá er rétt að leggja saman veikindadaga hans í báðum störfum.

Ber að greiða starfsmanni kostnað vegna útgjalda sem starfsmaður hefur orðið fyrir af völdum slyss á vinnustað?

Samkvæmt kjarasamningum fjármálaráðherra, bæði við stéttarfélög opinberra starfsmanna og önnur stéttarfélög, ber að greiða starfsmanni þau útgjöld, sem hann hefur orðið fyrir af völdum slyss á vinnustað og slysatryggingar almannatrygginga bæta ekki, skv. 27. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Af þessu leiðir að starfsmaður skal áður en hann leitar til vinnuveitanda síns snúa sér til Sjúkratrygginga Íslands vegna útgjalda sem hann hefur orðið fyrir vegna slyssins.

Flokkast forföll frá vinnu vegna fegrunaraðgerða undir veikindi?

Nei, lýta- og/eða fegrunaraðgerðir teljast ekki sjúkdómur í vinnurétti. Starfsmaður á því ekki rétt til greiðslna vegna veikinda þegar hann er forfallaður frá störfum vegna slíkra aðgerða.

Geta veikindi hamlað því að starfsmanni sé sagt upp störfum vegna aldurs?

Nei, aldurshámark ríkisstarfsmanna er 70 ár. Segja skal starfsmanni upp störfum þegar hann nálgast þann aldur þannig að starfslok hans verði næstu mánaðamót eftir að hann nær 70 ára aldri. Það breytir engu í þessu sambandi þó að starfsmaður sé frá störfum sökum veikinda og nái ekki að tæma veikindarétt (veikindadaga) áður en starfslok hans verða.

Getur starfsmaður tekið orlof hálfan dag ef hann hefur verið veikur og kemur með vottorð þess efnis að hann getur aðeins unnið 1/2 daginn?

Í kjarasamningum er heimildarákvæði sem heimilar að starfsmaður, með leyfi forstöðumanns, vinni skert starf vegna slyss eða veikinda. Þetta er heimildarákvæði og upphaflega var heimildin til þess hugsuð að starfsmaður sem verið hefur frá í lengri tíma vegna veikinda eða slyss, fengi aðlögunartíma þegar hann kæmi aftur til starfa og gæti í áföngum tekið upp fullt starf að nýju t.d. með því að vinna hálft starf fyrstu vikurnar.
Starfsmaðurinn getur ekki talist að hálfu veikur og að hálfu frískur í orlofi. Fari starfsmaður sem verið hefur í hlutaveikindum í frí telst það að fullu til orlofstöku nema að læknir votti að starfsmaður geti ekki notið orlofs en þá telst fríið að fullu til veikinda.

Hefur mismunandi starfshlutfall áhrif á veikindaréttinn?

Nei, það er það starfshlutfall sem viðkomandi er í þegar hann veikist sem ræður því hvert starfshlutfallið er á meðan laun eru greidd í veikindum. Starfsmaður gæti t.d. hafa verið í 100% starfi í einhver ár og verið kominn í 50% starf þegar hann veikist. Hann fær greidd 50% laun þann tíma sem hann á rétt á greiðslu launa í veikindum. Hið sama á við ef starfsmaður í 50% starfi er t.d. nýlega kominn í 100% starf þegar hann veikist. Hann fær greidd 100% laun þann tíma sem hann á rétt á greiðslu launa í veikindum.

Hvað er til ráða ef starfsmaður skilar ekki læknisvottorði þegar hann er frá störfum vegna veikinda, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli stjórnanda?

Tilkynni starfsmaður um veikindi þá ber honum að skila læknisvottorði skv. þeim reglum sem kveðið er á um í kjarasamningum. Geri hann það ekki er heimilt samkvæmt 16. gr. starfsmannalaganna að draga frá launum hans allt að tvöföldum þeim tíma sem hann hefur verið frá starfi. Þá kemur til álita að skora á hann bréflega að mæta strax til starfa eða sanna veikindi sín með læknisvottorði ella sé litið svo á að hann sé hættur störfum og að launagreiðslur til hans verði stöðvaðar.

Hvenær endurnýjast veikindaréttur starfsmanns sem tæmt hefur veikindarétt sinn ef hann á rétt á 360 dögum?

Veikindaréttur stofnast á ný á þeim degi þegar starfsmaður telst eiga einn ónýttan veikindadag miðað við síðustu 12 mánuði (365 daga). Þegar viðkomandi kemur aftur til starfa hefur hann á sjöunda degi nýtt 359 daga af þeim 360 sem hann á rétt á. Hann á því einn ónýttan dag miðað við síðustu tólf mánuði.
Veikist hann á áttunda degi á hann einn ónýttan dag, sama gildir á níunda degi og þannig koll af kolli þar til hann eftir atvikum tæmir rétt sinn, sem tekur 360 almanaksdaga. Starfsmaðurinn á þannig rétt á launuðum veikindadögum hafi hann nýtt færri daga en 360 á síðustu tólf mánuðum, þó með mögulegum takmörkunum vegna sérlega langra eða endurtekinna veikinda.

Hvernig er meðaltal yfirvinnustunda reiknað þegar fyrri veikindi eru inn á 12 mánaða viðmiðunartímabilinu?

Eftir fyrstu viku veikinda eiga starfsmenn í flestum tilvikum rétt á hærri greiðslum. Auk mánaðarlauna og fastra greiðslna á starfsmaður rétt á að fá greitt meðaltali þeirra yfirvinnustunda sem hann fékk greiddar síðustu 12 mánaðarleg uppgjörstímabil yfirvinnu eða síðustu 12 almankasmánuðina. Hafi starfsmaður verið veikur á viðmiðunartímabilinu ber að taka þær yfirvinnustundir sem honum voru greiddar í veikindunum með í útreikninginn á meðaltali yfirvinnustunda vegna seinni veikinda.

Hvernig er talning veikindadaga?

Í veikindum skal telja fjölda þeirra almanaksdaga sem starfsmaður er veikur en ekki einungis virka daga eða væntanlega vinnudaga samkvæmt vinnuskipulagi. Þannig að þegar starfsmaður er veikur frá miðvikudegi til mánudags þá eru laugardagur og sunnudagur taldir með.
Ekki skal telja klukkustundir eða vinnustundir sem viðkomandi er fjarverandi vegna veikinda. Telja skal alla nýtta veikindadaga á síðustu 12 mánuðum.
Dæmi um almenna talningu veikindadaga: Dagvinnumaður er veikur frá og með mánudeginum 1. september og mætir aftur til starfa miðvikudaginn 17. september. Viðkomandi telst þá hafa nýtt 16 veikindadaga (en ekki 12 sem er fjöldi vinnudaga á sama tímabili), enda eru veikindadagar taldir í almanaksdögum og laugardagar og sunnudagar á veikindatíma því taldir með.
Ávallt skal telja veikindadaga síðustu 12 mánaða. Ef sami starfsmaður veikist aftur í 4 daga í mars bætast þeir við fyrrtalda 16 daga, þ.e. samtals nýttir veikindadagar eru 20.
Veikindarétturinn endurnýjast ekki fyrr en fyrstu veikindi starfsmannsins falla úr 12 mánaða talningunni. Þannig hafa veikindafjarvistir áhrif á veikindarétt í heilt ár.
Dæmi um talningu veikindadaga þessa starfsmanna á 13 mánaða tímabili er þá með eftirfarandi hætti.

Mánuður Veikindadagar Dagafjöldi í mánuðinum Samtals nýttir veikindadagar
September 2022  1.- 16.  16  16
Október  Engir  0  16
Febrúar 2023  Engir  0  16
Mars  2.-5.  4  16+4 = 20
Apríl  Engir  0  20
Ágúst  Engir  0  20
September 2023  Engir  0  4
Hvernig fer með greiðslu veikindalauna vegna vinnuslyss sem gerist undir lok tímabundinnar ráðningar, til dæmis sumarstarfsmanns?

Vinnuslys sem verða í lok tímabundinnar ráðningar breyta því ekki að starfssambandinu lýkur á þeim tíma sem ákveðið var í ráðningarsamningi. Á hinn bóginn skerðist ekki réttur starfsmanns til greiðslu veikindalauna (slysalauna) allt að þeim tíma sem réttur hans samkvæmt kjarasamningi kann að standa til.

Hvernig reiknast réttur þeirra sem eru ráðnir árlega/endurtekið í 9 mánuði á ári?

Réttur til launa í veikindum er bundinn við ráðningartímann. Ef starfsmaður er t.d. ráðinn frá 1. september til 31. maí þá á hann engann veikindarétt tímabilið júní, júlí og ágúst, jafnvel þó hann sér ráðinn aftur tímabundið í september. Oft er hann jafnvel á atvinnuleysisbótum eða ræður sig til starfa annars staðar yfir sumarið.

Starfsmaður er beðinn um að vinna aukavakt en veikist og getur ekki unnið hana, ber stofnun að greiða honum laun fyrir vaktina?

Nei, samkvæmt kjarasamningi skal greiða honum auk mánaðarlauna fyrir vinnuframlag eða vinnutíma sem er fyrirfram ákveðinn vinnutími samkvæmt reglubundnum vöktum eða reglubundinni vinnu, sem staðið hefur í 12 mánuði eða lengur eða er ætlað að standa a.m.k. svo lengi.

Styrktar- og sjúkrasjóðir

Flest aðildarfélög BSRB hafa sameinast um einn styrktar- og sjúkrasjóð, Styrktarsjóð BSRB. Sjóðirnir veita sjúkradagpeninga ef starfsmenn hafa tæmt rétt sinn hjá vinnuveitanda og fjölmarga styrki, svo sem vegna sjúkraþjálfunar, krabbameinsleitar, gleraugnakaupa, líkamsræktar og fleira. Frekari upplýsingar um styrki má finna á vef Styrktarsjóðs BSRB og á vefsíðum nefndra aðildarfélaga.

Á starfsmaður rétt á launum ef hann er frá vinnu vegna veikinda barna, maka eða annarra nákominna?

Í kjarasamningum er fjallað um rétt starfsmanna vegna veikinda barna. Starfsmaður á rétt á að vera frá vinnu samtals 12 vinnudaga á hverju almanaksári vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri ef annarri umönnun verður ekki við komið. Þessi réttur skerðir ekki önnur réttindi samkvæmt veikindakafla kjarasamnings.

Ef barn undir 16 ára aldri lendir í alvarlegum veikindum sem veldur sjúkrahúsvistun má nýta framangreindan rétt vegna þess samkvæmt kjarasamningum aðildarfélaga BRSB og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Starfsmaður á ekki rétt til launa í forföllum frá vinnu vegna veikinda maka eða annarra nákominna.

Til baka