Orlofsréttur

Hver er minn réttur til orlofs?

Orlofsréttur skiptist í tvennt. Annars vegar er um að ræða rétt starfsmanns til að taka sér leyfi frá störfum og hins vegar rétt til launagreiðslna á meðan orlofinu stendur. Samkvæmt 1. gr. orlofslaga skulu allir sem starfa í þjónustu annarra gegn launum, eiga rétt á orlofi og orlofslaunum. Lögbundið lágmarksorlof skal að lágmarki vera tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári og reiknast hálfur mánuður eða meira sem heill mánuður en skemmri tími telst ekki með. Það telst til vinnutíma þó maður sé frá vegna veikinda eða slysa meðan hann fær greitt kaup eða hann er í orlofi. Sunnudagar og aðrir helgidagar teljast ekki orlofsdagar né heldur fyrstu fimm laugardagar í orlofi.

Hve langur er orlofsréttur minn?

Frá sumari 2021 eiga allir sem taka laun samkvæmt kjarasamningum Sjúkraliðafélags Íslands rétt til 30 orlofsdaga miðað við fullt starf. Orlofsrétturinn reiknast alltaf hlutfallslega út frá starfshlutfalli og starfstíma. Þegar starfsmaður í vaktavinnu fer í orlof, skal hann fá óyggjandi upplýsingar um hvenær honum beri að mæta á vakt að orlofi loknu. Miðað skal að jafnaði við að vaktskrá haldist óbreytt.

Auk þess hafa aðildarfélög BSRB samið um aukinn orlofsrétt í kjarasamningum. Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, sem tóku gildi 1. september 2018, banna mismunun á grundvelli aldurs og því var gerð krafa um það í kjarasamningum að allir fái hæsta mögulega orlofsrétt, sem er 30 orlofsdagar.

Það þýðir, eins og áður segir, að frá og með 2021 munu allir eiga slíkan rétt.

Hvenær er orlofstímabilið?

Samkvæmt orlofslögunum er orlofsárið frá 1. maí til 30. apríl. Í kjarasamningum félaga innan BSRB er tímabil sumarorlofs almennt frá 1. maí til 15. september. Hjá flestum félögum á starfsmaður rétt á því að fá allt sitt orlof á því tímabili og að minnsta kosti 15 daga samfellda.

Sé orlof eða hluti orlofs tekið utan sumarorlofstímabils, að skriflegri beiðni yfirmanns, lengist sá hluti orlofs sem tekinn er utan tímabilsins um 25%.

Hver ákveður orlofstímabilið mitt?

Atvinnurekandi ákveður í samráði við starfsmann hvenær orlof skuli veitt. Hann skal verða við óskum starfsmanna um hvenær orlof skuli veitt, að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar. Að lokinni könnun á vilja launþegans skal atvinnurekandi tilkynna svo fljótt sem unnt er og í síðasta lagi mánuði fyrir byrjun orlofs hvenær orlof skuli hefjast, nema sérstakar ástæður hamli.

Í áliti réttindanefndar BSRB frá 23. september 2003 kemur fram að forstöðumanni stofnunar er samkvæmt framangreindu skylt að hafa samráð við starfsmann um orlofstöku en í samráði felst hins vegar ekki áskilnaður um samþykki starfsmanns. Þar af leiðandi hefur forstöðumaður lokaorð um hvenær starfsmaður tekur orlof sitt, en þó á þeirri forsendu einni að starfsemi stofnunar krefjist þess og er eðlilegt að fyrir því séu færð rök. Að þessu skilyrði fullnægðu ber starfsmanni að hlíta því. Í áliti réttindanefndar var þeirri spurningu svarað hvort atvinnurekandi gæti virt að vettugi óskir starfsmanna um orlofstíma. Réttindanefnd taldi að þrátt fyrir að atvinnurekandi hefði lokaorðið þyrftu málefnaleg rök að liggja til grundvallar afstöðu hans og bæri atvinnurekanda að gera grein fyrir þeim.

Hver er réttur minn þegar ég veikist í orlofi?

Geti starfsmaður ekki vegna veikinda farið í orlof skal hann tilkynna yfirmanni sínum strax um veikindi eða slys og framvísa læknisvottorði. Svo að veikindi í orlofi séu greiðsluskyld af atvinnurekanda er ekki nægilegt að læknir viðkomandi votti að um veikindi sé að ræða. Veikindi í orlofi þurfa að vera með þeim hætti að ekki sé hægt að njóta orlofsins vegna þeirra.

Að uppfylltu framangreindu getur starfsmaður þá krafist orlofs á öðrum tímum en orlofstímabilinu, en þó ekki síðar en svo að orlofi hans sé lokið fyrir næsta orlofsár. Geti starfsmaður ekki vegna veikinda farið í orlof fyrir þann tíma á hann rétt á að fá orlofslaun sín greidd ef hann sannar veikindi sín á sama hátt og að ofan greinir.

Fyrning orlofs

Orlofstöku skal alltaf vera lokið fyrir lok orlofsársins. Einu frávik þeirrar reglu að orlofi skuli lokið fyrir lok orlofsársins er alla jafna að finna í 4. kafla kjarasamninga en svo að heimilt sé að fresta orlofi lengur en sem nemur orlofsárinu þarf að uppfylla eitt af tveimur skilyrðum. Þannig er það gert að skilyrði að starfsmaður óski eftir að fresta orlofinu og yfirmaður gefi samþykki sitt eða að orlofinu sé frestað að ósk yfirmanns, sjá einnig Héraðsdóm Reykjavíkur í máli nr. E-1956/2000.

Er heimilt að fresta orlofi milli ára?

Samkvæmt lögum um orlof er óheimilt að flytja orlof milli ára. Hins vegar er heimilt að flytja orlof til næsta árs samkvæmt kjarasamningum við ríkið og Reykjavíkurborg ef starfsmaður gat ekki tekið orlof vegna skriflegrar beiðni yfirmanns síns. Þá geta starfsmönnum sem voru annað hvort veikir eða í fæðingar- og foreldraorlofi á sumarorlofstímabilinu geymt sitt orlof til næsta árs, óháð því hvort þeir eru starfsmenn ríkisins, Reykjavíkurborgar eða annars sveitarfélags.

Ef starfsmaður sem átti gjaldfallið orlof þann 1. maí 2019, allt að 60 daga, hefur ekki nýtt þá orlofsdaga fyrir 30. apríl 2023 falla þeir dagar niður.

Er leyfilegt að taka hálfan orlofsdag eða t.d. tvær klukkustundir?

Orlof er mælt í vinnuskyldustundum en almenna reglan er sú að miða ekki við minna orlof en hálfan dag í senn. Um þetta getur þó hver vinnustaður sett reglur.

Hvernig er lengingu orlofs háttað samkvæmt kjarasamningi, annars vegar töku orlofs og hins vegar orlofsuppgjör vegna starfsloka?

Sé orlof eða hluti orlofs tekið utan sumarorlofstímabils, að skriflegri beiðni yfirmanns, lengist sá hluti orlofs sem tekinn er utan tímabilsins um 25%.

Lenging reiknast ekki á orlof sem er tekið fyrirfram að ósk starfsmanns, þ.e. orlof sem er áunnið en ógjaldfallið. Lenging reiknast ekki á orlof þegar það er greitt við starfslok (orlofsuppgjör).

Til baka