Fréttir

Jólakveðja frá formanni

24 des. 2021

Sandra B. Franks formaður Sjúkraliðafélags Íslands

Á viðburðaríku ári sem nú er að líða erum við enn og aftur undir áhrifum Covid. Árið var stórbrotið og einkenndist af náttúruhamförum, heimfaraldri og sóttvörnum. Framtíðin, sem er okkar, er fordæmaslaus og nú hefur nýtt ákall borist frá stjórnvöldum um það bráðvanti sjúkraliða og annað heilbrigðisstarfsfólk í bakvarðasveitina.

Árið í ár er ár heilbrigðisstarfsfólks. Aftur! Heilbrigðisstarfsmaðurinn var maður ársins í fyrra, og líka nú. Enn og aftur sér þjóðin hversu mikilvægt það er að búa að þeim mannauð sem býr í íslensku heilbrigðisstarfsfólki. Ítrekað sjáum við hvað opinberir innviðir eru okkur mikilvægir. Hvort sem það er í heimsfaraldri eða þegar við eigum okkar viðkvæmustu stundir. Þá viljum við og þurfum á góðu og færu heilbrigðisstarfsfólki að halda.

Seinþreytt til vandræða

Sjúkraliðar eru þeir sem standa með ykkur þegar þið þurfið á okkur að halda. Við sinnum nærhjúkrun og aðstoðum sjúklinga við athafnir daglegs lífs. Við virðum þarfir fólks og leggjum áherslu á að bæta líðan hvers og eins. Við erum bæði í nærþjónustunni og í framlínunni. Árið í ár sýndi það vel.

Við erum með kollegum okkar, hjúkrunarfræðingum, læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki uppistaðan í heilbrigðiskerfinu. Við erum ekki hít, og við kvörtum ekki að ástæðulausu. Við erum seinþreytt til vandræða enda erum við þjálfuð í að vera lausnamiðuð og að vinna undir álagi. Við viljum vel, sem endurspeglast í þjónustuviðhorfi okkar. Við viljum að allir fái heilbrigðisþjónustu í samræmi við þörfina hverju sinni.

Mannanna verk

Okkur finnst sjúkraliðastarfið skipta máli. Okkur finnst það krefjandi en jafnframt afar gefandi á sama tíma. En hvað vantar? Jú, það vantar fleiri sjúkraliða til vinnu. Sjúkraliða sem eru nú þegar til, þar sem um helmingur okkar sem útskrifast kýs að starfa við annað en fagið. Hinn margumtalaði  mönnunarvandi er því ekki skortur á menntuðum sjúkraliðum, heldur skortur á fjármagni og betri aðstæðum til vinnu.

Hinn kynskipti vinnumarkaður með sínum kynbundna launamun er mannanna verk og við getum leyst þetta saman. En það gerist ekki af sjálfu sér. Stuðningur og þrýstingur almennings gagnvart stjórnvöldum skiptir hér máli.

Samfélagsleg samstaða

Við sem sinnum hjúkrun stöndum vaktir í Covid og höldum okkur til hlés í jólakúlum og sumarbúbblum, á sama tíma og aðrir í samfélaginu ferðast um og njóta viðburða. Við erum reiðubúin að standa vörð um heilbrigðiskerfið og höfum lagt okkar að mörkum. Nú er komið að því að samfélagið standi með okkur.

Með vísindin að vopni munum við ráða niðurlögum þessarar veiru. En þörfin fyrir gott heilbrigðiskerfi verður enn við lýði. Við munum enn veikjast og slasast, og ef við erum heppin fáum við að eldast, og þá er eins gott að einhver standi vaktina.

Árið 2021 er ár heimsfaraldurs sem markað hefur líf margra. Faraldurinn reynir á starfsþrek sjúkraliða og annarra starfsstétta. Sjúkraliðastéttin hefur staðið sig frábærlega. Á þessum tímamótum er stolt og þakklát fyrir það góða og mikilvæga starf sem sjúkraliðar sinna á degi hverjum, alla daga ársins á nóttu sem á degi.

Ég vil með þessum orðum mínum, þakka ykkur, mínir kæru sjúkraliðar, samstarfið á árinu, og óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Til baka