Fréttir

Hvað segir fjárlagafrumvarð um heilbrigðismálin?

21 sep. 2023

Á Íslandi ríkir mikill hagvöxtur. Það er lítið atvinnuleysi og spenna er í hagkerfinu. Það er hins vegar einnig há verðbólga og þar af leiðandi háir vextir. Vextir eru í raun lítið annað en verð á peningum þannig að matarkarfa er ekki eingöngu dýr heldur einnig peningar. Annars hafa laun hækkað meira en verðlag undanfarið ár og kaupmáttur launa hefur því aukist á ný. Má ekki síst þakka verkalýðshreyfingunni fyrir það.

Spáð er að verðbólgan verði um 4,9% á næsta ári sem verður að kallast frekar bjartsýn spá að okkar mati. Hins vegar er spáð um 4% atvinnuleysi á næsta ári.

Við hjá Sjúkraliðafélaginu höfum verið að rýna aðeins í nýkynnt fjárlagafrumvarpið og ekki síst í þá málaflokka sem snerta heilbrigðiskerfið. Í því samhengi langar mig að fara aðeins yfir eftirfarandi 18 punkta:

  1. Tekjur ríkisins eru miklu hærri en búist var við, ekki síst þar sem hagvöxtur og neysla innanlands hefur verið mikil ásamt talsverðri fólksfjölgun. Ríkið skattleggur neysluna okkar og ferðamanna og launin, en eftir sem það verður meira og hærra, fær ríkissjóður meira til sín. Meira en þriðjungur tekna ríkisins kemur eingöngu frá virðisaukaskatti.
  2. Þrátt fyrir þetta verður um 46 ma.kr. halli á ríkissjóð á næsta ári og boða stjórnvöld aðhald og „mun því koma til nokkurrar fækkunar stöðugilda í stofnanakerfinu sem bæði getur komið fram í gegnum starfsmannaveltu og uppsagnir”, eins og stendur í frumvarpinu. Það getur verið áhyggjuefni fyrir okkur sem störfum í heilbrigðiskerfi sem vantar fleira fólk en ekki færra. Hér þarf því að vakta útfærslu aðhaldsaðgerða stjórnvalda mjög vel og vonandi ná þær ekki til heilbrigðiskerfisins.
  3. Vöxtur útgjalda ríkissjóð er annars „að stærstum hluta drifinn áfram af launa- og verðlagsbreytingum en ekki nýjum ákvörðunum”. Það er einnig áhyggjuefni okkar sem viljum sjá nýja innspýtingu í heilbrigðiskerfið.
  4. Heilbrigðismál taka til sín um 31% af útgjöldum ríkisins á næsta ári sem er sama hlutfall og er á þessu ári.
  5. Alls aukast útgjöld til heilbrigðismála um rúmlega 14 ma.kr. að raungildi milli ára en auk byggingar Landspítalans má nefna rekstur hjúkrunarrýma, framlög til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga og samninga við sérgreinalækna.
  6. Framlög til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga eru auknar um 4 ma.kr. til að koma til móts við aukna eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu vegna fólksfjölgunar og öldrunar þjóðarinnar. Einnig eru fjárheimildir til reksturs nýrra hjúkrunarrýma sem gert er ráð fyrir að verði tekin í notkun á næsta ári auknar um 2,2 ma.kr.
  7. Þá vekur hins vegar athygli að eitt af fáum málefnasviðum sem fá raunlækkun milli ára er hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta og er lækkunin rúmir 3 ma.kr. að raunvirði og fær gagnlegt að fá skýringar á því.
  8. Stærsta einstaka ríkisframkvæmdin í frumvarpinu er bygging nýja Landspítalans en fjárheimild til verkefnisins er aukin um 10,5 ma.kr. og verður tæplega 24 ma.kr. á árinu. Spítalinn er sagður vera stærsta fjárfestingaverkefni ríkisins í sögunni.
  9. Þegar kemur að aðhaldi í fjárfestingum ríkisins segir að þá sé „frestun á legudeild Sjúkrahússins á Akureyri og viðbyggingu Sjúkrahússins á Selfossi“ og væri gagnlegt að fá skýringar á því. Á öðrum stað í frumvarpinu segir „að vinna eigi að endurmati þarfagreiningar fyrir legudeild við Sjúkrahúsið á Akureyri“ og „fjárheimild málaflokksins er lækkuð tímabundið um 600 m.kr. vegna frestunar á framkvæmdum við nýja legudeild við Sjúkrahúsið á Akureyri. Aðgerðin er hluti af sértækum aðhaldsráðstöfunum. Gert er ráð fyrir að seinka framkvæmdum um eitt ár.“ Þegar kemur að sjúkrahúsinu á Selfossi segir að „felldar séu niður 850 m.kr. af viðbótarfjárveitingu til framkvæmda við sjúkrahúsið á Selfossi vegna breytinga á verkáætlun en 704 m.kr. er hliðrað um eitt ár vegna frestunar á framkvæmdum við sjúkrahúsið.“
  10. Undirbúa á opnun tveggja nýrra heilsugæslustöðva á Akureyri í samræmi við þarfagreiningu og undirbúa byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar í Innri-Njarðvík.
  11. Auka á fjárheimild um 800 m.kr. vegna styrkingar sjúkrasviða á landsbyggðinni og er 200 m.kr. aukning vegna nýrrar og endurbættrar bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
  12. Nýr samningur við sérgreinalækna leiðir til hækkunar upp á tæpa 2 ma.kr.
  13. Fjárframlög til hækka um 400 m.kr. til að mæta áskorunum sem felast í öldrun þjóðarinnar, vinna niður biðlista o.fl.
  14. Settar verða 150 m.kr. til að sporna við skaða af völdum ópíóða. Þó á að lækka um 200 m.kr. til endurhæfingarþjónustu vegna tímabundinna framlaga til SÁÁ, Samhjálpar og til vinnu gegn fíknisjúkdómum sem Alþingi veitti í eitt ár.
  15. Bæta á 100 m.kr. til að mæta verkefnum í nýrri geðheilbrigðisstefnu og lækka greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustunni með áherslu á viðkvæma hópa með því að bæta 800 m.kr. við.
  16. Um 400 m.kr. verður bætt við vegna aukins kostnaðar við heilbrigðisskoðun sem umsækjendum um alþjóðlega vernd er skylt að gangast undir.
  17. Vinna á áfram með þær tillögur sem enn eru í vinnslu frá vinnu fjögurra vinnuhópa frá árinu 2020, m.a. í samstarfi með Landsráði um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu. Og vonandi fer eitthvað bitastætt að koma út úr þeirri vinnu.
  18. Auka þverfaglegt samstarf og teymisvinnu í heilsugæslu og setja á fót fjarheilbrigðisþjónustuteymi sem veitir ráðgjöf og handleiðslu til heilbrigðisstofnana á landsvísu og tryggja þannig aðgengi að sérhæfðri þjónustu þegar við á. Hér er mikilvægt að sjúkraliðar hafi stað í þeirri vinnu.

Heilbrigðiskerfið er sá málaflokkur sem flestir landsmenn telja vera þann mikilvægasta. Því er brýnt að það sjáist þegar kemur að fjárveitingum úr okkar sameiginlegum sjóðum.

Framundan eru kjarasamningar við sjúkraliða og annað heilbrigðisstarfsfólk, og það verður áhugavert að sjá hvernig ríkið mun semja við þessar lykilsstéttir sem iðulega fá mikið hrós frá þessum sömu stjórnvöldum á tyllidögum.

Til baka