Háskólinn á Akureyri tekur vel á móti sjúkraliðum
6 sep. 2021
Eftir árangursríka samvinnu Sjúkraliðafélags Íslands við stjórnsýslu mennta- og heilbrigðismála opnar nú Háskólinn á Akureyri dyrnar fyrir sjúkraliðum. Ný námsleið, fagnám til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða á kjörsviði öldrunar- og heimahjúkrunar, fór af stað núna á þessu haustmisseri. Þá er á áætlun að bjóða sjúkraliðum fagnám til diplómaprófs á kjörsviði samfélagshjúkrunar, með áherslu á geð- og endurhæfingarhjúkrun, haustið 2022. Þessi tímamót eru sannkölluð gleðitíðindi því margir sjúkraliðar hafa beðið lengi eftir að komast í frekara nám til að auka sérhæfingu sína.
Persónuleg nálgun
Markmið með þessari nýju námsleið er að styrkja og auka færni starfandi sjúkraliða til að takast á við viðameiri viðfangsefni og aukna ábyrgð í störfum sínum. Í náminu er lögð áhersla á persónumiðaða nálgun í heildrænni umönnun aldraðra einstaklinga og fjölskyldna þeirra. Náminu er ætlað að bæta þekkingu á notkun mismunandi aðferða til samskipta og tryggja þannig gæði í meðferð og fræðslu. Þá mun námið veita þekkingu á skipulagi og virkni þjónustukerfa sem eru í boði fyrir þennan aldurshóp, auk notkunar velferðartækni og þátttöku í teymisvinnu.
Færri komust að en vildu
Mikil ásókn var í námið en 86 umsóknir bárust um 20 námspláss, það er því ljóst að færri komust að en vildu. Inntökuskilyrði voru sjúkraliðanám og gilt starfsleyfi frá Embætti landlæknis en einnig var gerð krafa um að umsækjendur starfi við kjörsviðið öldrunar- og heimahjúkrun meðan á náminu stendur. Hafdís Skúladóttir, lektor við Háskólann á Akureyri og brautarstjóri fagnáms sjúkraliða, segir að vandasamt hafi verið að velja 20 nemendur úr þessum hóp, en meðal umsækjenda voru afar reynslumiklir sjúkraliðar.
Áskorun að hefja nám á ný
Dagana 23. til 27. ágúst sl. fóru fram nýnemadagar við Háskólann á Akureyri þar sem tekið var á móti sjúkraliðahópnum. Þar voru nemendur hvattir til að mynda tengsl, vinna saman, miðla upplýsingum og styðja við hvert annað. Aðspurð segir Hafdís góðan anda hafa ríkt í hópnum. Það sé heilmikið átak að hefja aftur nám og í þessum fyrsta nemendahóp séu margar að snúa aftur til náms eftir langt hlé. Allir nemendur eigi það sameiginlegt að hafa verið virkar í símenntun, sótt námskeið í heilbrigðistengdum greinum og lagt ríka áherslu á að viðhalda þekkingu á ferlinum. Þá segir Hafdís það skemmtilegt að vinna með þessum hugrökku sjúkraliðum sem er fyrsti hópurinn sem tekst á við fagháskólanám fyrir starfandi sjúkraliða. Allt hafi gengið að óskum og það væri ánægjulegt að sjá niðurstöður könnunar sem lögð var fyrir hópinn að loknum nýnemadögum. Þar hafi komið fram samhljóma álit nemenda að vel hafi tekist til og mikil ánægja með bæði hópinn og móttökur skólans.
Sjúkraliðafélag Íslands óskar nemendum góðs gengis í náminu og óskar okkur öllum til hamingju með þennan merka áfanga.