Fréttir

Háskólinn á Akureyri og Sjúkraliðafélag Íslands semja um þróun náms í öldrunarhjúkrun fyrir sjúkraliða

19 jún. 2017

 

 haskolinn akureyri

 

 

Háskólinn á Akureyri og Sjúkraliðafélag Íslands semja um þróun fagháskólanáms í öldrunarhjúkrun fyrir sjúkraliða

HA og SLFÍ hafa samið um að þróa sameiginlega fagháskólanám sem byggir á hæfnigreiningu fyrir nám á 4 þrepi í  öldrunarhjúkrun fyrir starfandi sjúkraliða í samstarfi við heilbrigðisstofnanir. Námið hefur þann tilgang að auka enn frekar hæfni sjúkraliða til að hjúkra öldruðum einstaklingum og vinna að heilsueflingu og forvörnum meðal aldraðra auk þess að auka sjálfstæði og ábyrgð sjúkraliða innan og utan stofnana og að svara þörfum fyrir aukna sérþekkingu. Jafnframt er það markmið verkefnisins að opna dyr fyrir sjúkraliða í háskólanám.

Lengri lífaldur einstaklinga og auknir meðferðarmöguleikar margra langvinnra sjúkdóma hafa leitt til breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Fleiri lifa nú á tímum með langvinna flókna sjúkdóma og fötlun. Afleiðingar þessa eru miklar breytingar á heilbrigðiskerfinu hér á landi sem erlendis, sem hafa kallað á enn auknar kröfur um menntun, sérhæfingu, samskiptahæfni, sveigjanleika, jafnrétti og sköpun.

Sjúkraliðar eru heilbrigðisstarfsmenn með lögverndað starfsheiti á Íslandi. Um 3.500 félagsmenn eru í Sjúkraliðafélagi Íslands, þar af um 2.000 starfandi.

Miðað er við að námið verði kennt með vinnu á tveimur árum og skiptist í almenna áfanga á heilbrigðissviði og sérhæfða áfanga á öldrunarsviði. Kennsla og verkefnavinna taki mið af miklu hópstarfi, umræðum og raunhæfri verkefnavinnslu út frá reynslu og tengt störfum nemenda í hinum ýmsu stofnunum innan heilbrigðiskerfisins.

Verkefnið hefur hlotið vilyrði um styrk úr fagháskólanámssjóði ASÍ, BSRB og SA ásamt því að sótt hefur verið um framlag frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til þróunar námsins.

Til baka