Fréttir

Gleðilega páska!

27 mar. 2024

Hjá flestum er þessi vinnuvika í styttra lagi, þótt auðvitað ekki hjá þeim sjúkraliðum sem standa vaktina. Það er ágætt að rifja reglulega upp þá staðreynd að um 90% sjúkraliða vinna vaktavinnu. Slíkt vinnufyrirkomulag hefur bæði kosti og galla í för með sér. Gallinn er óneitanlega það álag sem vaktavinnan veldur, talandi ekki um þegar hún er óregluleg, enda er það margsannað að vaktavinna reynir verulega á líkama og sál. Kostur við vaktavinnu er hins vegar hugsanlegur möguleiki á að bæta við sig í launum en auðvitað gegn óreglulegum vinnutíma.

En að öðru þá komu fréttir í vikunni að verðbólgan jókst lítilega og eru það slæmar fréttir fyrir alla. Verðbólga er hækkun á vísitölu neysluverðs og eðli málsins samkvæmt dregur hún úr kaupmætti launafólks. Því skiptir öllu máli að ná þessum verðbólgudraug niður sem fyrst en til þess þarf samhæft átak allra, ekki bara launþega heldur einnig atvinnurekanda og stofnana sem þurfa að gæta hófs í verðlagningu.

Það komu einnig fréttir í vikunni að fjármálaáætlun stjórnvalda til næstu 5 ára seinkar aðeins. Venjulega á að leggja þessa áætlun fram fyrir 1. apríl en nú lítur út fyrir að það verði gert um miðjan mánuðinn.

Í þessu lykilplaggi sést framtíðarsýn stjórnvalda hvað varðar alla lykilmálaflokka samfélagsins. Þar standa auðvitað heilbrigðismálin efst og verður spennandi að sjá hvernig stjórnvöld sjá þann málaflokk næstu 5 árin. Þjóðin er að eldast og fjölga og þarf að taka tillit til þess. Einnig er nauðsyn á almennri innspýtingu á ýmsum sviðum heilbrigðismála ef vel á að standa að málum.

Í umsögn okkar við fjárlagafrumvarp þessa árs bentum m.a. á að heilbrigðismálin áttu að fá sama hlutfall af útgjöldum ríkisins og þau fengu í síðasta fjárlagafrumvarpi. Með síendurteknum loforðum um innspýtingar í heilbrigðismálin og með hækkandi aldri þjóðarinnar ætti þetta hlutfall hins vegar að hækka jafnt og þétt.

Heilbrigðisstarfsfólk hefur ítrekað bent alþingismönnum á þann vanda sem heilbrigðiskerfið glímir við. Ítrekað berast fréttir af „neyðarástandi“ meðal annars á bráðamóttöku Landspítalans en fjárlaganefnd hlýtur að vilja bregðast við því í meðförum sínum á fjármálaáætluninni þegar hún kemur til þings.

Að þessu sögðu vil ég minna á að lokað verður á skrifstofunni um páskanna, frá og með Skírdegi 28. mars til og með annars í páskum 1. apríl. Við opnum svo þriðjudaginn 2. apríl.

Starfsfólk skrifstofunnar óskar öllum sjúkraliðum og fjölskyldum þeirra gleðilegra páska! 

Til baka