Fréttir

Formannaráð BSRB vill aukið fé til almannaþjónustunnar

19 nóv. 2021

Auka þarf verulega fjárveitingar til almannaþjónustunnar til að koma íslensku samfélagi út úr heimsfaraldrinum. Að mati BSRB má fjármagna aukin útgjöld með því að hækka álögur á þá sem mest eiga í samfélaginu auk þess að auka veiðigjöld verulega.

Í ályktun formannaráðs bandalagsins, sem samþykkt var 18. nóvember 2021, er bent á að starfsfólk almannaþjónustunnar hafi verið undir gríðarlegu álagi undanfarið og undirmönnun sé víða vandamál. Það sé pólitísk ákvörðun að tryggja ekki nægt fjármagn til að standa undir þjónustu við almenning og það dragi úr velsæld og möguleikum til verðmætasköpunar.

,,Frá því heimsfaraldurinn skall á hafa eignir heimilanna aukist um á þriðja hundrað milljarða króna og langmest af þeirri aukningu fór til þeirra allra ríkustu,“ segir meðal annars í ályktuninni. Þar er kallað eftir því að auðlegðarskattur verði lagður á stóreignafólk og að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður.

Arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja til eigenda sinna hafa aldrei verið hærri en á síðasta ári þegar eigendurnir tóku um 21,5 milljarða króna í arð. Á sama tíma greiddu fyrirtækin innan við fjórðung af þeirri upphæð í ríkissjóð fyrir afnotin af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Formannaráð BSRB kallar því eftir því að veiðigjöldin verði aukin verulega og að tekjur af þeirri aukningu verði notaðar til að auka almenna velsæld í landinu.

Ályktun formannaráðs BSRB má lesa hér.

Til baka