Formannaráð BSRB fundar um komandi kjarasamningsviðræðu
8 des. 2022
Formannaráð BSRB kom saman til fundar í gær til að ræða áherslur bandalagsins í komandi kjaraviðræðum. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB fór stuttlega yfir stöðuna í yfirstandandi kjaraviðræðum hjá almenna vinnumarkaðinum og því loknu voru erindi og umræður um áherslumál bandalagsins. Helstu mál í brennidepli í aðdraganda kjarasamningsviðræðna eru jöfnun launa milli markaða, endurmat á virði kvennastarfa, styttingu vinnuvikunnar, efnahags- og skattamál ásamt jafnréttismálum.
Skýrsla Kjaratölfræðinefndar
Heiður Margrét Björnsdóttir, hagfræðingur BSRB kynnti helstu niðurstöður nýrrar skýrslu Kjaratölfræðinefndar. Í skýrslunni er fjallað um það kjarasamningstímabil sem er að ljúka, þ.e. tímabilið frá apríl 2019 til júní 2022.
Í skýrslunni kemur fram að hagvöxtur hérlendis er mikill og gangi spár eftir verði samanlagður hagvöxtur tæp 9% árin 2022-2023, borið saman við 3,7% að meðaltali innan OECD landanna og 2-4% á öðrum Norðurlöndum.
Verðbólga hefur aukist mikið en verðlag hefur hækkað um 20% á kjarasamningstímabilinu 2019-2022 og er hækkun húsnæðisliðar megindrifkraftur verðbólgunnar. Þó verðbólga sé há í sögulegu tilliti hækkaði verðlag á kjarasamningstímabilinu minna hér á landi en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við.
Vísitala kaupmáttar launa fyrir tímabilið 2019-2022 náði hápunkti í ársbyrjun 2022 með 11% raunhækkun frá upphafi kjarasamningstímabilsins. Raunhækkun stóð í október sl. í 6,9% fyrir kjarasamningstímabilið.
Húsnæðismál í brennidepli
Húsnæðismálin hafa verið í brennidepli í aðdraganda kjarasamninga. Meðal þess sem BSRB hefur lagt áherslu á er fjölgun almennra íbúða, hækkun húsnæðisbóta til leigjenda og auknar vaxtabætur til eigenda. Meginkrafa BSRB er að húsnæðiskostnaður leigjenda og eigenda verði ekki umfram 25% af ráðstöfunartekjum heimila. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB kynnti vinnu starfshóps innviðaráðherra um húsnæðisstuðning og þá vinnu sem hefur átt sér stað undanfarið ár.
Sáttmáli um húsnæðisöryggi
Viðamesta tillaga húsnæðishóps stjórnvalda sem skilaði tillögum í maí síðastliðnum var að ríki og sveitarfélög gerðu með sér húsnæðissáttmála um uppbygginu 35.000 íbúða á næstu 10 árum. Leggja á áherslu á fjölgun íbúða með fjárstuðningi hins opinbera en um 30 prósent þeirra íbúða sem byggja á samkvæmt sáttmálanum eiga að njóta slíks stuðnings. Auk þess eiga félagslegar íbúðir á vegum sveitarfélaga að verða sem næst 5% af öllu nýju húsnæði. Sáttmálinn er ein helsta forsenda þess að koma stöðugleika á húsnæðismarkaðinn og tryggja þannig húsnæðisöryggi launafólks.
1.000 almennar íbúðir á ári
Heildarsamtök launafólks hafa lagt sérstaka áherslu á fjölgun almennra íbúða, en það eru íbúðir reistar af húsnæðissjálfseignarstofnunum með 30% stofnframlögum frá ríki og sveitarfélögum. Íbúðirnar eru leiguíbúðir með viðráðanlegri leigu fyrir fólk með tekjur og eignir undir ákveðnum mörkum. Það er forgangsmál að fjölga almennum íbúðum og BSRB hefur lagt áherslu á að árlega verði veitt stofnframlög til um 1.000 íbúða. Að öðrum kosti er húsnæðissáttmálinn ekkert annað en orð á blaði.
Umgjörð um fjarvinnu
Vegna hraðra tæknibreytinga hafa skil milli vinnu og einkalífs orðið óljósari og BSRB leggur áherslu á skerpt sé á þeim skilum til að vinna gegn streitu og togstreitu þar á milli. Í síðustu kjarasamningsviðræðum var fjallað sérstaklega um þetta sem leiddi til þess að nú fjalla kjarasamningar um skil milli vinnu og einkalífs. Heimsfaraldur kórónaveirunnar leiddi til aukinnar fjarvinnu og leggur því bandalagið áherslu á að tryggja rétt til þess með kjarasamningum og sett verði skýr umgjörð þar um til að vernda heilsu og tryggja réttindi félagsfólks.
Hrannar Már Gunnarsson, lögfræðingur BSRB fjallaði um tillögur um umgjörð um fjarvinnu þar sem lagt er upp með að starfsfólk eigi kost á að sinna hluta starfs sína í fjarvinnu og vinnutími sé ekki lengri en ráðningarsamningur kveður á um. Enn fremur að framkvæmt sé áhættumat á fjarvinnustöð eftir að ákvörðun hefur verið tekin um fjarvinnu starfsmanns og þann búnað sem þarf til að sinna störfunum.
Formannaráð BSRB er skipað formönnum aðildarfélaga bandalagsins hverju sinni. Ráðið mótar stefnu og megináherslur BSRB í málum sem koma upp milli þinga bandalagsins og fylgir eftir framkvæmd samþykkta þingsins og annarra mála sem þingið vísar til ráðsins. Fundir ráðsins, sem haldnir eru að minnsta kosti þrisvar á ári, er einnig vettvangur samráðs aðildarfélaga bandalagsins. Formaður BSRB er jafnframt formaður ráðsins.