Fréttir

Forgangsrétturinn tryggir lágmarksgæði þjónustu

19 sep. 2020

Ályktun Fulltrúaþings Sjúkraliðafélags Íslands um forgangsréttinn

29. fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands felur formanni og forystu félagsins að taka upp baráttu fyrir því að við ráðningar í störf á heilbrigðisstofnunum virði stjórnendur að fullu lögbundinn forgangsrétt sjúkraliða til þeirra starfa sem lög og reglur kveða á um. Það er ekki óheft val forstöðumanna heilbrigðisstofnana hvort þeir ráði sjúkraliða eða ófaglærðan starfsmann í hjúkrunar- eða umönnunarstarf.

Í sérlögum um sjúkraliða frá 1984 sem veittu sjúkraliðum lögverndað starfsheiti var skýrt ákvæði um forgangsrétt þeirra til sérhæfðra starfa í samræmi við kröfur um menntun stéttarinnar. Forgangsrétturinn var undirstrikaður enn skýrar í reglugerð um menntun, réttindi og skyldur sjúkraliða sem sett var árið 2013 í krafti laga sem leystu eldri sérlögin af hólmi. Þar er með skýrum orðum lagt fyrir stjórnendur heilbrigðisstofnana að þeim sé „óheimilt að ráða aðra en sjúkraliða til sérhæfðra umönnunar- og hjúkrunarstarfa nema áður hafi verið auglýst eftir sjúkraliðum.“ Fulltrúaþingið krefst þess að þessum ákvæðum verði fylgt undanbragðalaust.

Hér er ekki einungis um hagsmunamál sjúkraliða að ræða heldur ekki síður sjúklinga og aðra þjónustuþega. Með ákvæðum um lögverndun starfsheitis og forgangsrétt sjúkraliða tryggja stjórnvöld skjólstæðingum að hjúkrun þeirra og umönnun sé einungis veitt af starfsfólki sem hefur til þess hæfni og getu vegna menntunar og starfsreynslu. Forgangsrétturinn er því um leið trygging fyrir lágmarksgæðum á þjónustu heilbrigðisstofnana gagnvart þjónustuþegum. Hann má óhikað kalla grundvallarþátt í að halda uppi öflugu heilbrigðiskerfi.

Fulltrúaþingið lýsir vonbrigðum sínum með að vaxandi brögð eru að því að stjórnendur ráði í störf á verksviði sjúkraliða án þess að fylgja ofangreindum ákvæðum. Þingið mótmælir þeim vinnubrögðum harðlega og ítrekar að félagið mun ekki líða að gengið sé framhjá lögbundnum réttindum sjúkraliða.

Samþykkt samhljóða þann 10. september 2020.

Til baka