Fréttir

Eru konur minni menn?

24 okt. 2023

Með aðgerðal­eysi stjórn­valda styðja þau nú­ver­andi stöðu og snuða heilu fag­stétt­irn­ar, eins og okk­ur sjúkra­liða, um fjár­muni sem hlaupa á millj­örðum.

Hér í jafn­rétt­ispara­dís­inni Íslandi og á ár­inu 2023 er við lýði kyn­bund­inn launamun­ur, kyn­skipt­ur vinnu­markaður, kyn­bundið of­beldi, kyn­bund­inn fram­gangs­máti á vinnu­stöðum, kyn­bund­in skipt­ing á hinni svo­kölluðu þriðju vakt og kyn­bundið ójafn­ræði þegar kem­ur að eign­um og ráðstöf­un fjár­magns. Á öll­um þess­um sviðum hall­ar á kon­ur vegna kyn­ferðis þeirra.

Hvernig væri umræðan ef við mynd­um snúa þessu við og karl­ar byggju við þessa stöðu? Að karl­ar fengju t.d. 10 pró­sent­um lægri laun en kon­ur bara vegna þess að þeir væru karl­ar. Senni­lega myndi heyr­ast hærra í þeim hópi og brugðist við með aðgerðum. En aðgerðir eru það sem þarf. Það dug­ar ein­fald­lega ekki leng­ur að bíða eft­ir „viðhorfs­breyt­ing­unni“ eða halda fleiri ráðstefn­ur á fín­um hót­el­um um „stöðuna“ og „ójafn­réttið“.

Ein stærsta kvenna­stétt lands­ins eru sjúkra­liðar þar sem 97% þeirra eru kon­ur. Þetta er líka ein fjöl­menn­asta starfs­stétt hins op­in­bera og næst­fjöl­menn­asta heil­brigðis­stétt lands­ins. Þetta er ekki há­launa­stétt en hún vinn­ur mjög mik­il­vægt og krefj­andi starf eins og all­ir vita.

Hvað með kvenna- kjara­samn­inga?

Ein „aðgerð“ til ná til þess­ar­ar stóru kvenna­stétt­ar er í gegn­um svo­kallaða stofn­ana­samn­inga en í þeim eiga ein­staka stofn­an­ir að bæta kjör ein­stakra stétta. Samt eru þessi sam­töl okk­ar við full­trúa heil­brigðis­stofn­ana (ekki síst Land­spít­al­ans) um stofn­ana­samn­inga eins og að kreista blóð úr steini. Lítið sem ekk­ert ger­ist og oft er okk­ur mætt með full­komnu skiln­ings­leysi. Af hverju er þetta tæki ekki nýtt í kvenna­bar­átt­unni?

Önnur „aðgerð“ til að vinna gegn kyn­bundn­um launamun er í gegn­um kjara­samn­inga sem núna eru hand­an við hornið. En þar er bolt­inn hjá stjórn­völd­um. Af hverju taka stjórn­völd ekki ákvörðun um að næstu kjara­samn­ing­ar eigi að snú­ast um kon­ur? Að nú sé komið að kon­um og að gerðir verði svo­kallaðir „kvenna­kjara­samn­ing­ar“ og taki mark­viss skref í að upp­ræta kyn­skipt­an vinnu­markað og kyn­bund­inn launamun. Á manna­máli er þetta leiðrétt­ing sem þýðir að laun hefðbund­inna kvenna­stétta hækka hlut­falls­lega meira en hjá öðrum. Þetta þýðir ekki að laun kvenna verði hærri en laun karla held­ur ein­ung­is jöfn. Þessi leið er ekki bara sann­gjörn held­ur er hún einnig hag­kvæm fyr­ir sam­fé­lagið allt.

Þriðja „aðgerðin“ sem mætti nefna er hið svo­kallaða starfs­mat. Þegar launamun­ur karla og kvenna sem starfa hjá sveit­ar­fé­lög­um er skoðaður kem­ur í ljós að hann er tölu­vert minni en hjá þeim sem starfa hjá rík­inu eða á al­menn­um vinnu­markaði. Þetta ræðst af þeim aðgerðum sem gripið hef­ur verið til hjá sveit­ar­fé­lög­un­um, sem nota hið svo­kallaða starfs­mat­s­kerfi við launa­mynd­un starfs­fólks. Starfs­mat „met­ur ólík störf í mis­mun­andi starfs­stétt­ir út frá sömu viðmiðum og dreg­ur þannig úr launamun vegna kyn­bund­inn­ar skipt­ing­ar vinnu­markaðar­ins“.

Dæmi um þrjár aðgerðir

Hér hafa þrjár aðgerðir verið nefnd­ar sem for­stöðumenn og stjórn­völd geta beitt ef vilji er fyr­ir hendi. Þetta ger­ist nefni­lega ekk­ert öðru­vísi. Launamun­ur­inn hverf­ur ekki af sjálfu sér, það þarf að grípa til aðgerða og breyta nú­ver­andi aðferðafræði um launa­mynd­un.

Staðreynd­in er sú að störf sem al­mennt eru unn­in af kon­um eru minna met­in í laun­um en hefðbund­in karla­störf. Kon­ur búa því enn við launam­is­rétti sex­tíu árum eft­ir að launa­jafn­rétti var leitt í lög á Íslandi.

Lög­in tala um jafn­rétti. Stjórn­ar­skrá­in tal­ar einnig um jafn­rétti. En sam­fé­lagið trygg­ir það ekki. Það er til staðar kerf­is­bundið van­mat á störf­um kvenna. Fyrst kerfið er okk­ur óhag­stætt þarf að breyta kerf­inu.

Það þarf að taka mik­il­væg­ar ákv­arðanir til að tryggja aðgerðir. Með aðgerðal­eysi stjórn­valda styðja þau nú­ver­andi stöðu og snuða heilu fag­stétt­irn­ar, eins og okk­ur sjúkra­liða, um fjár­muni sem hlaupa á millj­örðum, bara fyr­ir það eitt að vera kon­ur.

Grein Söndru B. Franks var fyrst birt á mbl.is

Til baka