Fréttir

Erla Linda Bjarnadóttir og Ingibjörg Hulda Björnsdóttir , sjúkraliðar á E-deild Heilbrigðisstofnunar Vesturlands ,skrifa grein sem birt var í fréttablaðinu 12. janúar

13 jan. 2012

Sjúkraliðarnir Erla Linda Bjarnadóttir og Ingibjörg Hulda Björnsdóttir skrifuðu grein í fréttablaðið 12. janúar sl. sem fjallar um lokun Öldrunarlækningardeildar á Sjúkrahúsi Akraness. 
Greinin fer hér á eftir 
 
alt
alt
Lokun öldrunarlækningadeildar
Starfsemi deildarinnar hefur þjónað öldruðum íbúum Akraness og nágrennis um áratuga skeið.

Starfsemi deildarinnar hefur þjónað öldruðum íbúum Akraness og nágrennis um áratuga skeið.

Meginhlutverk starfseminnar er að veita umönnun, hjúkrun og lækningu á sviði öldrunar.

Lögð er áhersla á endurhæfingu aldraðra.

Í dag eru á deildinni 14 legurými sem skiptast í þrjú rými fyrir endurhæfingarsjúklinga, eitt fyrir hvíldarinnlagnir og 10 rými fyrir skammtíma- og langtímainnlagnir.

Endurhæfing: Sýnt hefur verið fram á að endurhæfing þar sem skjólstæðingar fara í endurhæfingaráætlun eykur færni aldraðra og bætir andlega líðan þeirra svo um munar og gerir þeim kleift að búa lengur á heimilum sínum.

Hvíldarinnlagnir: Þjóna þeim einstaklingum sem hafa með aðstoð ættingja getað búið heima. Mikið álag hvílir á herðum ættmenna sem hjúkra öldruðum og veikum einstaklingum. Með þessu fyrirkomulagi er þeim einnig gert kleift að búa lengur heima.

Skammtíma- og langtímainnlagnir: Eru fyrir einstaklinga sem hafa fengið vistunarmat og bíða vistunar á öðrum öldrunarstofnunum. Sumir þeirra hafa dvalið á deildinni í langan tíma vegna þess að hjúkrunar- og dvalarheimilisrými hafa ekki verið nægilega mörg til þess að mæta vaxandi þörf.

Kemur eitthvað annað í staðinn?

Með þessum upplýsingum viljum við vekja bæjarbúa og íbúa á Vesturlandi til umhugsunar um hvað

lokun á deildinni hefur að segja fyrir landshlutann allan. Á síðastliðnu ári

þjónustaði deildin 105 einstaklinga og eru þá ótaldir þeir ættingjar sem njóta þjónustu um leið. Með lokuninni mun endurhæfing fyrir fólk með skerta getu til að sinna þáttum daglegs lífs verða felld niður í þeirri mynd sem hún er núna. Hvíldarinnlagnir verða færðar á aðrar deildir stofnunarinnar ásamt skammtíma- og langtímainnlögnum með öllum þeim

óþægindum sem því fylgir fyrir alla sem að þessum málum koma. Ekkert annað þjónustustig innan heilbrigðiskerfisins getur komið í staðinn fyrir þá þjónustu sem öldruðum er veitt á sérhæfðum öldrunarlækningadeildum. Á deildinni starfar metnaðarfullur og samheldinn hópur sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga ásamt öðru starfsfólki. Starfsfólkið hefur lagt metnað sinn í að sækja sér þekkingu í formi símenntunar skjólstæðingunum til hagsbóta. Meirihluti starfsfólksins hefur áratuga reynslu af umönnum aldraðra og hefur leitast við að veita þeim og fjölskyldum þeirra góða þjónustu.

Atvinnumissir og áhrif á fjölskyldur á Akranesi

Þann 1. febrúar nk. standa hátt í þrjátíu konur með uppsagnarbréf í höndunum. Þessi ráðstöfun hefur áhrif á líf og afkomu hátt í eitt hundrað einstaklinga á Akranesi sem tengjast þessu starfsfólki fjölskylduböndum auk hinna öldruðu og aðstandenda þeirra. Nýbygging á Dvalarheimilinu Höfða er því miður ekki ljós í myrkrinu. Ekki er fyrirséð að þar verði fjölgun á störfum né rýmum í náinni framtíð, þrátt fyrir viðbyggingu, því hún er eingöngu ætluð til þess að skapa einbýli fyrir heimilisfólkið sem fyrir er. Heimahjúkrun mun varla ráða við fjölgun sjúklinga í heimahúsum því álag er mikið á þeirri þjónustu fyrir og engin umræða er um að ráða bót á því.

Það segir sig sjálft að skerðing á þjónustu við aldraða á Vesturlandi er óumflýjanleg þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnenda HVE um að svo verði ekki.

Til baka